Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:47:18 (114)


[17:47]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hæstv. ráðherra Halldóri Ásgrímssyni að það er nauðsynlegt að þingmenn og ekki síður ráðherrar setji sig mjög rækilega inn í þessi mál en ég er ósammála hæstv. utanrrh. um það að umræða af því tagi sem hér fer fram eigi betur heima í þingnefnd. Hér hafa verið gefnar ýmsar stórar pólitískar yfirlýsingar um mál sem snertir skattamál, sem snertir heilbrigðismál, sem snertir áfengisstefnu og það er nauðsynlegt að ræða það í þingsalnum.
    Aðeins í sambandi við það bréf sem ég skrifaði fyrir hönd BSRB í júní 1992 og vitnað hefur verið til þá langar mig til að leggja áherslu á það að í þeirri fyrispurn, sem þá var beint til utanrrn., var óskað eftir upplýsingum um allar þær formbreytingar, rekstrarbreytingar, sem við þyrftum að gera á opinberum stofnunum hér í tengslum við EES. Í lok bréfsins segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum afar brýnt að í ofangreindum svörum komi fram ef um einhver álitamál er að ræða. Eru einhver ofangreindra atriða þess efnis að þau megi túlka á annan hátt en ráðuneytið hefur gert? Ef svo er hafa einhverjar slíkar túlkanir verið settar fram hér á landi eða í öðrum þeim ríkjum sem EES-samningsdrögin taka til?``
    Í svarinu sem okkur barst við þessari fyrirspurn þar sem við spyrjum um öll hugsanleg álitamál í tengslum við rekstrarformsbreytingar á opinberum fyrirtækjum, þar með ÁTVR, er vitnað sérstaklega í ÁTVR og sagt, með leyfi forseta:
    ,,Ekkert mælir gegn starfsemi ÁTVR sem í raun hefur haft með hendi einkaleyfi og smásölu fremur en innflutning sem ekki mismunar á grundvelli þjóðernis.``
    Þetta er síðan ítrekað af hálfu hæstv. fjmrh. úr ræðustól um daginn.
    En mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., sem ég reyndar orðaði áðan, hvort hann sé sammála því að það sé stefna íslenskra stjórnvalda, eins og hæstv. fjmrh. fullyrti hér um daginn, algjörlega burt séð frá öllu sem snertir EES að það sé hagkvæmt fyrir íslenska ríkið að breyta viðskiptaháttunum eins og hér er lagt til, það sé heppilegra að taka gjald af áfengi við innflutning í stað þess að gera það yfir búðarborðið eins og tíðkast hefur á undanförnum árum. Er hann sammála því að þetta sé stefna íslenskra stjórnvalda? Ég óska þá eftir skýringum á því hvers vegna.