Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:23:03 (123)


[18:23]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Ég tek undir að það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt við það að fulltrúar hinna ýmsu þjóðfélagshópa eigi sæti á hinu háa Alþingi eins og t.d. verkalýðsleiðtogar. En spurningin snýr að því hvenær um hagsmunaárekstra er að ræða. Ég get alveg viðurkennt það að á síðasta kjörtímabili þá fannst

mér oft jaðra við hagsmunaárekstra eða sérkennileg vinnubrögð þegar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem var ýmist formaður eða varaformaður hv. efh.- og viðskn. var að fjalla um erindi frá sjálfum sér sem hann hafði skrifað sem framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, sent til hv. efh.- og viðskn., og var þar að afgreiða málið sem formaður nefndarinnar. Þetta er auðvitað býsna sérkennilegt. Mér segir svo hugur um að það geti komið upp sama staða varðandi hv. þm. Ögmund Jónasson, að það gætu orðið ákveðnir hagsmunaárekstrar. Við höfum svo sem ekki ákveðnar reglur um þetta en þarna er náttúrlega um að ræða spurningar um siðferði og hvernig menn meta sín störf.
    Ég ítreka að mér finnst ekki eðlilegt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson stjórni þeirri vinnu sem snertir svo sterklega hagsmuni þeirrar stofnunar eða þeirra samtaka sem hann vinnur fyrir.