Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:25:16 (124)

    [18:25]
     Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til þess vegna þeirra umræðna sem hér spunnust áðan í andsvari um hæfi eða ekki hæfi væntanlegs formanns efh.- og viðskn. að inna hæstv. forseta eftir því hvort fyrir liggi úrskurður sem ég óskaði eftir að forseti mundi kveða upp úr um hvað varðar hæfi þessa hv. þm. til að fjalla um þetta mál í nefnd. Ég geri ráð fyrir því að þessari umræðu sé senn að ljúka og ég tel nauðsynlegt að fá fram við umræðuna afstöðu og úrskurð forseta í þessu máli. Hér er um nokkuð sérstakt mál að ræða vegna þess að það er Verslunarráðið sem hefur frumkvæði að því að kæra þetta mál sem hér er til umræðu til Eftirlitsstofnunar EFTA og það er að því gefna tilefni sem farið er að skoða þessi mál. Því finnst mér það alls óviðeigandi að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem væntanlega verður formaður efh.- og viðskn. fjalli um þetta mál.
    Það má vel vera rétt, virðulegi forseti, sem hæstv. forsrh. sagði áðan að stjórnsýslulögin næðu ekki til Alþingis en það er nú einu sinni löggjafinn sem hefur sett mjög strangar kröfur að því er varðar framkvæmdarvaldið í þessu efni og þingið hlýtur að gera sömu kröfur til þingsins að því er varðar hæfi og hagsmunaárekstra í þessu efni.
    Því óska ég eftir að fyrir liggi nú úrskurður forseta í þessu máli.