Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:27:08 (126)


[18:27]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hér sé komið að mjög mikilvægu máli og það er útilokað annað en að á því verði tekið áður en umræðunni lýkur. Það er ekki nóg að forseti taki á þessu máli áður en atkvæðagreiðsla fer fram, á því verður að taka áður en umræðunni lýkur.
    Hvernig liggur þetta mál, hæstv. forseti? Það liggur þannig að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson tók þátt í því sem formaður eða varaformaður efh.- og viðskn. á síðasta kjörtímabili að afgreiða EES-málin, að koma þeim hér í gegnum þingið. Síðan fór hv. þm. í önnur jakkaföt og gerðist framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands og í þeim jakkafötum kærði hann --- hvern? Vilhjálm Egilsson alþingismann meðal annarra fyrir það hvernig Alþingi hafði afgreitt málið.
    Þessi kæra og þessi klögumál Verslunarráðsins eru undirstaðan undir því frv. sem hér er verið að flytja. Þannig liggur málið. Þannig sjá það allir í hendi sér að það er algjörlega óeðlilegt, hæstv. forseti, að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson stýri meðferð þessa máls í efh.- og viðskn.
    Það var alveg hárrétt hjá hæstv. forsrh. að stjórnsýslulögin sem slík taka ekki til alþingismanna og meðferðar þeirra á málum en það breytir engu í þessu sambandi fyrst og fremst vegna þess að þarna eiga alþingismenn að sjá sóma sinn í því að taka á málunum sérstaklega og ganga feti framar en aðrir þegar um er að ræða vönduð siðræn vinnubrögð. Þess vegna hvet ég til þess að a.m.k. muni hv. þm. Vilhjálmur Egilsson stíga úr sæti formanns efh.- og viðskn. og fela varaformanni að stýra meðferð þessa máls sem hér liggur fyrir. Ég skora á menn að standa þannig að því og ég skora á forsætisnefnd að koma með niðurstöðu og úrskurð í þessu máli áður en umræðunni lýkur en ekki bara áður en atkvæðagreiðslan hefst í málinu.
    Ég vænti þess að hinn skörulegi forseti þingsins, sem nú situr hér, hv. 2. þm. Suðurl., sem jafnan hefur lagt góð orð til í þessari virðulegu stofnun, verið orðvar og grandvar alla jafna, beiti sér fyrir því að menn nálgist niðurstöðuna með sanngjörnum, yfirveguðum og góðum hætti.