Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:40:17 (132)


[18:40]
     Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég get vel fallist á það sem fram kom hjá starfandi forseta að þessi úrskurður þurfi að bíða þess að aðalforseti þingsins sé hér til þess að kveða upp þennan úrskurð en ég vil mjög ákveðið setja það fram að ég tel að það sé ekki hægt að ljúka þessari umræðu, virðulegi forseti, fyrr en úrskurðurinn liggur fyrir. Það er ekki nægjanlegt að mínu viti að kveða upp þennan úrskurð rétt áður en atkvæðagreiðsla fer fram og að umræðum sé lokið. Ég segi það vegna þess að jafnvel þó að úrskurður forseta gangi í þá átt að hér sé ekki farið gegn lögum eða þingsköpum þá tel ég rétt og eðlilegt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson fái þá tækifæri til þess í þessum ræðustól sjálfur að óska eftir því að víkja sæti í nefndinni, eða í formennsku í nefndinni á meðan verið er að fjalla um þetta mál vegna þess, eins og sagt hefur verið hér og fram hefur komið, að við hljótum að gera kröfur til okkar sjálfra í þessu máli þegar um augljósa hagsmunaárekstra er að ræða eins og í þessu tilviki.
    Ég ítreka að það þarf að fá svigrúm hér til þess að ræða úrskurð forseta og til þess að gefa hv. þm. Vilhjálmi Egilsyni þetta tækifæri, að víkja af sjálfsdáðum sæti í nefndinni þó niðurstaða forseta verði í þá átt að hér sé ekki gengið gegn þingsköpum.