Stjórnarfrumvörp um stjórn fiskveiða og GATT

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 13:37:11 (149)


[13:37]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það var gengið frá af ríkisstjórnarinnar hálfu þessum tveimur málum sem hv. þm. nefndi, annars vegar þeim breytingum sem menn leggja til að gerðar verði á fiskveiðistjórnarlögum og hins vegar frv. varðandi GATT á ríkisstjórnarfundi í dag. Ég geri ráð fyrir því að umræður um þessi frumvörp fari fram í þingflokkunum á morgun. Reyndar hafa umræður um fiskveiðimálin farið fram á vettvangi þingflokkanna fyrr þannig að það flýtir fyrir málinu hjá stjórnarflokkunum og því vænti ég þess að þessi tvö mál geti verið á dagskrá þingsins fyrir næstu viku, vonandi á mánudag ef næst að dreifa málunum á sérstökum dreifingarfundi ef hægt er að haga málum þannig til á morgun. Þá ætti þingið að geta tekið þessi mikilvægu mál til meðferðar í næstu viku og ég vonast til þess að það geti orðið sæmileg sátt um málsmeðferð þó að ágreiningur kunni að vera um efni málsins.