Stjórnarfrumvörp um stjórn fiskveiða og GATT

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 13:43:28 (153)


[13:43]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Þó að það sé nú svo komið í annarri viku þess stutta þinghalds sem boðað var fyrst og fremst til að fjalla um tvö mál að hvorugt þeirra sé fram komið, þá er ekki hægt að segja að hæstv. ríkisstjórn ætli að láta þingið sitja aðgerðalaust á meðan. Ég vek athygli á því að hér var verið að dreifa fyrsta þingmáli nýs félmrh. á þskj. 14 sem heitir: ,,Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins``, en 1. gr. hljóðar svo:
    ,,Í stað orðanna ,,sbr. reglugerð nr. 312/76/EBE`` í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: sbr. reglugerðir nr. 312/76/EBE og nr. 2434/92/EBE.`` Þetta er fyrsta þingmál hæstv. félmrh. og er honum sómi að því. Pósturinn starfar með góðum skilum.