Forsetaúrskurður um hæfi þingmanns til umfjöllunar um þingmál

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 14:05:58 (160)


[14:05]
     Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir að kveða upp þennan úrskurð áður en umræðunni um þetta mál lýkur þó að ég vilji einnig um leið lýsa vonbrigðum mínum með úrskurðinn. Ég ætla ekki að hefja efnislegar umræður um úrskurðinn, eins og forseti hefur óskað eftir, en vil láta í ljós þá skoðun mína að þessi úrskurður hlýtur að gefa tilefni til þess að þingsköp verði endurskoðuð þar sem sérstaklega verði tekið á þessu máli.
    Út af orðum forseta um að hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni væri það í sjálfsvald sett að víkja sæti úr nefndinni þegar fjallað væri um þetta sérstaka mál, þá vildi ég taka undir með síðasta ræðumanni og skora á hv. þm. að gera það. Hæfi hans hefur hér verið dregið í efa, og ég vísa þar til orða forseta við upphaf þessa þings þar sem hann var einmitt að tala um góða stjórnarhætti. Við gerum ríkar kröfur til framkvæmdarvaldsins varðandi hagsmunaárekstra og hæfi og við hljótum að gera sömu kröfur til þingsins þó að stjórnsýslulögin sem slík fjalli ekki um þátt þingsins að því er þetta varðar.