Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:08:23 (169)


[15:08]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég las aðeins upp úr og vitna til þess sem stóð í greinargerðinni með EES-samningnum en það þarf líka að hafa það í huga þegar mál þetta er metið að það er ekki að byrja í dag. Úrskurðurinn féll nýlega hjá Eftirlitsstofnuninni og miklar bréfaskriftir hafa átt sér stað milli Eftirlitsstofnunarinnar og fjmrn. Í því máli hefur fjmrn. auðvitað haldið á hagsmunum okkar og að sjálfsögðu verður að líta á ummæli hæstv. fjmrh. í gegnum tíðina í því ljósi án þess að ég hafi farið sérstaklega ofan í þau. Nú liggur úrskurðurinn fyrir. Hann lá ekki fyrir þegar hæstv. fjmrh. svaraði málinu áður fyrr og nú standa menn einfaldlega frammi fyrir því hvort við viljum uppfylla þær óskir og kröfur sem koma þar fram eða gera það ekki. Ég ítreka aðeins að það er mat mitt að við eigum að gera það og ég tel miklu betra að gera það sem fyrst með sama hætti og Norðmenn hafa ákveðið að gera það líka. Það er því nákvæmlega sama

mat á málinu í Noregi og hérna. Ég tek fram að það var ekki upphaflega ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja mikla áherslu á að málinu lyki á þessu þingi og var talið heppilegra að bíða haustsins. En í ljósi þessara aðstæðna hefur þótt rétt hér á landi eins og í Noregi að leggja málið fyrir þingið, leggja spilin á borðið í þessu sambandi og freista þess að ljúka þessu máli á því þingi sem nú stendur.