Gjald af áfengi

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:23:20 (173)


[15:23]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að tala um þorra borgaranna heldur eingöngu þau fyrirtæki sem koma til með að starfa í þessum rekstri og þakka ég út af fyrir sig hugleiðingar forsrh. um það en það breytir því ekki að greinilegt er að með þessu frv. er verið að auka möguleika aðila til þess að taka í sínar hendur fé sem ríkissjóður hefur hingað til haft í öruggum höndum sem skattfé. Það hlýtur eðli málsins samkvæmt eitthvað að tapast af þeim orsökum.
    Hitt atriðið sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um snertir innkaup opinberra aðila á áfengi. Það hefur verið sú skipan lengst af að ráðuneyti, opinberir aðilar, hafa keypt áfengi til að veita við opinberar athafnir. Til skamms tíma, mér er ekki kunnugt um það hvort að svo er enn, var þetta áfengi mjög ódýrt

og þess vegna fært í bókhaldi ríkisins mun ódýrara en það var í almennri útsölu. Nú veit ég ekki hvort svo er enn en ef það er enn gert þá er auðvitað alveg ljóst að með þessu frv. hljóta öll slík skilyrði að breytast. Jafnframt vaknar sú spurning hvort það sé ekki brot á samkeppni, almennum samkeppnislögum að ríkið versli þá áfram eingöngu við ÁTVR, sem verður þá bara einn af mörgum heildsölum í landinu, heldur hljóti þess vegna út frá almennum samkeppnislögum að fara að versla almennt við aðra heildsala á þessum vettvangi, ella kynnu einhliða viðskipti ríkisins við ÁTVR á þessu sviði að vera dæmd brot á samkeppnislögum.
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort það hafi verið kannað hvaða afleiðingar þetta frv. kann að hafa á þær venjur sem tíðkast hafa um kaup opinberra aðila á áfengi til að nota við opinberar athafnir.