Áfengislög

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 16:16:06 (184)


[16:16]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þm., 13. þm. Reykv., er það að segja að ég tel að þrátt fyrir þessar breytingar eigi að vera hægt að koma við öllu nauðsynlegu eftirliti í þessum efnum. Ég minni á að þær breytingar sem frv. felur í sér hafa sérstaklega komið til skoðunar hjá skattaðilum eða þeim aðilum sem fara með eftirlit í skattamálum og það er álit þeirra að þessi breyting muni auðvelda skatteftirlit. Það hefur verið talið að nokkuð skorti á að það væri hægt að hafa nægjanlega virkt eftirlit með þeim veitingahúsum sem ekki eru með fast vínveitingaleyfi heldur starfa á svokölluðum tækifærisvínveitingaleyfum og þetta mundi hvetja til þess að þeir sem reka reglulega starfsemi af þessu tagi byggðu á almennum leyfum og það mundi auðvelda skatteftirlitið.
    Að því er varðar fyrirspurn hv. þm. um starf hv. allshn. að frv., þá tel ég ekkert því til fyrirstöðu af minni hálfu að hv. allshn. leiti umsagnar annarra aðila og annarra nefnda í þinginu.