Áfengislög

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 16:17:57 (185)


[16:17]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er gott út af fyrir sig að það sé ekkert því til fyrirstöðu af hálfu hæstv. dómsmrh. að önnur nefnd fjalli um málið og komi umsögn um málið, en ég var að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort honum þætti það ekki eðlilegt í ljósi þess að hér hefur því verið haldið fram að þessu gæti fylgt breytt áfengisstefna.
    Í annan stað tel ég það mjög mikilvægt inn í þessa umræðu sem fram kom hjá hæstv. ráðherra og er raunverulega nýtt að ráðherrann heldur því fram að skattyfirvöld telji að þessi breyting muni auðvelda skatteftirlit. Ég held að mjög mikilvægt sé að þetta komi fram og spyr um það hvort fyrir liggi umsögn skattyfirvalda þar sem þessi rökstuðningur þeirra komi fram því að það er mjög nauðsynlegt að við fáum álit skatteftirlitsins eða skattyfirvalda í þessu máli til umfjöllunar á Alþingi og spyr um það hvort þetta liggi fyrir nú þegar.
    Með sama hætti er nauðsynlegt að fá fram álit og umsögn löggæsluyfirvalda á þessari breytingu, ekki síst í ljósi þess sem hv. 8. þm. Reykv. hélt fram áðan og spyr um það hvort það liggi fyrir líka umsögn og álit lögregluyfirvalda á þessari breytingu.