Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 16:21:54 (188)

[16:21]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 5 um aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna.
    Í kosningabaráttunni sem nýlokið er bar launamál eða launamisrétti kynjanna mjög á góma og þá lýstu allir stjórnmálaflokkar því yfir hve brýnt væri að afnema þetta launamisrétti og að grípa til aðgerða í því skyni. Nú hefur nýtt þing verið kjörið og ný ríkisstjórn er tekin til starfa þannig að nú er tækifæri til þess að taka á þessum málum.
    Því hefur verið lýst yfir að verulegur efnahagsbati sé fram undan og þó að við vitum að þeir peningar sem væntanlega munu koma inn í ríkissjóð á næstu mánuðum umfram það sem reiknað hafði verið með, þeirra er þörf á ýmsum sviðum, þá er hér um svo brýnt mál að ræða, það er svo brýnt að taka á þessu mannréttinda- og jafnréttismáli sem snýr sérstaklega að konum og að leiðrétta það launamisrétti sem hér ríkir, að það má ekki bíða.
    Í kosningabaráttunni kynntum við kvennalistakonur áætlun í 12 liðum um það hvernig draga mætti úr og afnema launamisrétti kynjanna. Það er ekkert einfalt mál og til þess þarf margvíslegar aðgerðir, aðgerðir sem snúa að ríkisvaldinu, aðgerðir sem beinast að vinnumarkaðnum, aðgerðir sem beinast að því að framfylgja gildandi lögum og loks félagslegar aðgerðir af ýmsu tagi til þess að auðvelda konum sérstaklega að sækja vinnu á almennum vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera eftir því hvar þær eru við störf.
    Það sem við teljum brýnast er í fyrsta lagi að það verði gengið í það verk að skilgreina framfærslukostnað einstaklings. Það er nú svo að þær stofnanir, sem fást við það að greiða fólki laun eða veita lán, atvinnuleysisbætur og annað slíkt sem þarf að skilgreina, styðjast við mjög mismunandi upphæðir eins og kemur fram í þeirri greinargerð sem fylgir þessari tillögu og hér er um ótrúlega mismunandi upphæðir að ræða.
    Lánasjóður ísl. námsmanna hefur ákveðna skilgreiningu á því hvað það kostar fyrir námsmann í leiguhúsnæði að lifa á hverjum mánuði. Sú upphæð nemur nú 52.200 kr. á mánuði. Lánasjóður ísl. námsmanna er eina stofnunin eða eini aðilinn í samfélaginu sem raunverulega tekur tillit til þess að það fylgir því kostnaður að eiga á framfæri barn og samkvæmt reglum Lánasjóðsins hækkar framfærslukostnaður vegna barns upp í 75.690 kr., þ.e. úr 52.200 í 75.690 kr. Atvinnuleysisbætur einstaklings á fullum bótum eru nú 50.028 kr. og ellilífeyrir og tekjutrygging eru 36.694 kr. Síðan eru hér tiltekin dæmi um taxta Sóknarstúlkna sem eru á nokkuð svipuðum nótum og þetta, laun á bilinu 50--60 þús. kr. En þegar við kvennalistakonur bjuggum til dæmi um framfærslukostnað einstaklings, tilbúið dæmi, þá varð niðurstaðan sú að sá einstaklingur þyrfti að hafa til ráðstöfunar 94 þús. kr. á mánuði og var þó ekki um neitt lúxuslíf að ræða hjá þessum einstaklingi. Það má því ljóst vera að bæði námslán, atvinnuleysisbætur og lægstu umsömdu taxtar verkalýðsfélaganna eru langt undir framfærslumörkum.
    Það er mjög brýnt að það liggi fyrir við hvað beri að miða, hvað eru eðlileg lægstu laun og að sjálfsögðu ber að fara eftir slíkum niðurstöðum en ég hygg að munurinn sé það mikill að því verði ekki

náð nema í áföngum. Við viljum að þessi framfærslukostnaður verði skilgreindur þannig að menn viti í raun um hvað er verið að tala og hvað það er sem einstaklingurinn þarf sér til framfærslu. Niðurstaðan sýnir eins og ég hef hér rakið að lægstu laun kvenna og þeirra hópa þar sem konur eru í miklum meiri hluta eru langt undir hinum raunverulega framfærslukostnaði.
    Síðan leggjum við til að lægstu laun verði hækkuð í áföngum. Þarna getur ríkið gengið á undan með góðu fordæmi og tekið á sínum málum. Það er að vísu nauðsynlegt að taka á launakerfi ríkisins í heild og stokka það gjörsamlega upp, enda er það löngu orðið handónýtt og byggist upp á ýmiss konar duldum greiðslum eða sporslum sem karlmenn njóta einkum hjá hinu opinbera. Það er erfitt að átta sig á launakerfi ríkisins og í því felst mikið misrétti.
    Þá leggjum við til að í næstu kjarasamningum verði samið um það að leggja sérstaklega til hliðar ákveðna upphæð. Við stingum upp á því að það verði t.d. einn milljarður kr. sem verði varið til þess að bæta laun lægst launuðu hópanna og þá sérstaklega þeirra þar sem konur eru yfir 75% starfsmanna og starfsmat sýnir að um vanmat á störfum þeirra sé að ræða. Þarna er sem sagt um að ræða sérstakt átak til þess að taka á launamálum þeirra hópa sem verst standa að vígi. Síðan kemur það sem ég nefndi hér áðan með launakerfi ríkisins í heild vegna þess að það þarf virkilega að taka til hendi, einfalda kerfið og gera það gagnsætt þannig að það sé öllum ljóst um hvað hefur verið samið.
    Þá víkjum við að jafnréttislögunum, 3. gr. jafnréttislaganna sem kveður á um tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna. Lögum samkvæmt er heimilt að grípa til slíkra aðgerða, en það hefur verið ákaflega lítið um það. Þessi grein getur snúið að stofnunum ríkisins. Hún getur beinst að því eins og tilgangur greinarinnar er að þegar umsækjendur um störf eru jafnhæfir, þá skuli að jafnaði ráða konu ef þær eru áberandi færri heldur en karlmenn. Einnig mætti hugsa sér aðrar tímabundnar aðgerðir.
    Ég get nefnt í þessu samhengi að t.d. í Bandaríkjunum er í gangi sérstakt verkefni sem kallað er ,,the glass ceiling`` glerþakið, þar sem það hefur verið skilgreint með rannsóknum og úttektum í stofnunum að það virðist svo sem konum gangi ákaflega illa að komast upp fyrir ákveðið þrep í metorðastiga fyrirtækjanna og það er sérstakt verkefni í gangi til þess að fá stofnanir og fyrirtæki til að taka á þessum málum. Það er verið að rannsaka hvernig á því stendur að þegar nálgast topp fyrirtækjanna þá er þar nánast engar konur að finna. Þetta er m.a. gert með því að senda eftirlitsmenn í stofnanir og fyrirtæki og kalla menn inn á teppið og spyrja: Hvernig stendur á því að ástandið er svona og svona hér og hvað ætlið þið að gera í þessu? Þið eigið að framfylgja lögum, þið eigið að standa við jafnréttislöggjöfina, hvað eruð þið að gera? Og ef fyrirtæki verða sönn að brotum þá eru þau lögsótt umsvifalaust. Það er skrifstofa innan vinnumálaráðuneytis Bandaríkjanna sem hefur þessi verkefni sérstaklega með höndum. Ég átti þess sérstaklega kost sl. haust að heimsækja þá skrifstofu og þar var þeim hópi sem þar var m.a. kynnt þetta verkefni.
    Við leggjum líka til að vinnulöggjöfin verði endurskoðuð, einkum með tilliti til réttinda og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Okkur er það að sjálfsögðu ljóst að endurskoðun vinnulöggjafarinnar er nokkuð viðkvæmt mál, kannski einkum vegna þess að sú umræða sem hefur átt sér stað um endurskoðun hennar hefur að nokkru leyti beinst að því að svipta verkalýðsfélögin rétti. Það er að sjálfsögðu alls ekki tilgangurinn heldur að horfast í augu við það að þessi löggjöf er frá árinu 1938 og miðast við allt annað þjóðfélagsástand en það sem við lifum í. Inn í vinnulöggjöfina þarf að taka ýmiss konar félagsleg réttindi sem við teljum sjálfsögð og eðlileg og að horfa á vinnumarkaðinn út frá þeim sjónarhóli að á honum eru bæði karlar og konur.
    Við leggjum einnig til að viðurlög við brotum á jafnréttislöggjöfinni verði stórlega hert svo og eftirlit með að henni sé framfylgt. Það er svo að samkvæmt jafnréttislögunum er hægt að grípa til aðgerða. Það er hægt að bregðast við brotum á jafnréttislöggjöfinni en mér vitanlega hefur ákaflega lítið verið gert af því öðruvísi en að einstaklingar hafa farið í mál. En auðvitað ber jafnréttisráðherranum og þeim sem eiga að annast framgang þessarar löggjafar að fylgjast með því að hún sé virt. Þarna þarf einfaldlega að gera mönnum ljóst að hér er um löggjöf að ræða, þetta eru gildandi lög í landinu og þeim ber að sjálfsögðu að framfylgja.
    Þá er hér nefnt að það þurfi að endurskoða tryggingakerfið, lífeyris- og skattamál með tilliti til stöðu kynjanna og til þess að jafna stöðu kynjanna. Það gefur auga leið að hér er ekki um neitt smáverkefni að ræða en það þarf að skoða þessa lagabálka eins og aðra út frá sjónarhóli kynjanna. Ég hef ekki tíma til þess að fara nánar út í þennan lið eins og t.d. skattlagningu einstaklinga eða samsköttun og sérsköttun og fleira slíkt en það er stórt og mikið mál sem vert væri að taka til rækilegrar umræðu.
    Þá að síðustu bendum við á nauðsynlegar félagslegar aðgerðir eins og þær að hér verði komið á einsetnum skóla, skóladagur lengdur og sveitarfélögum tryggðir tekjustofnar til þess að grunnskólinn geti starfað samkvæmt lögum.
    Nú vitum við að það er verið að stefna að því og unnið að því að færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna en það er afar brýnt að ríkið marki stefnu og sjái til þess að lögunum sé framfylgt og sveitarfélögunum sé gert kleift að framfylgja lögum. Þetta snýr ekki síst að okkur í þéttbýlinu og á höfuðborgarsvæðinu þar sem skólar eru yfirfullir en við vitum líka að það kostar peninga að lengja skóladaginn. En það er afar brýnt að bæði til þess að bæta gæði menntunar og vegna framtíðarinnar að við nýtum tímann betur í skólum landsins en það er ekki síður brýnt að samræma vinnutíma barnanna í skólunum og vinnutíma foreldranna.
    Síðast nefnum við 10 ára áætlun um að fullnægja eftirspurn eftir leikskólaplássum í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Þessum málum er ákaflega misjafnlega háttað eftir því hvar er á landinu. Sum sveitarfélög sinna leikskólabörnum með ágætum og þar er ekki um neina vöntun á plássi að ræða. Annars staðar er ástandið mjög slæmt eins og t.d. hér í Reykjavík. Þó að það sé sem betur fer verið að taka á þeim málum af núverandi borgarstjórn þá er samt sem áður um það að ræða að það mun taka verulegan tíma að sjá til þess að öll börn eigi kost á leikskólaplássi.
    Hæstv. forseti. Það sem skiptir meginmáli þegar við horfum á launamisrétti kynjanna er að við Íslendingar höfum skrifað undir mannréttindasáttmála, við höfum samþykkt samþykkt Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum en við okkur blasir sú staðreynd að á undanförnum árum hefur dregið sundur með kynjunum. Launabilið hefur aukist hvernig sem horft er á málið og það blasir við okkur að þau störf sem einkum er sinnt af konum, stórir hópar í þjónustugeiranum, þeir hópar sem sinna uppeldi og umönnun, eru afar illa launaðir enda sjáum við það þegar við horfum á vinnumarkaðinn að þar hefur á undanförnum árum gætt mikils óróa. Kvennastéttirnar eru mjög óánægðar með sinn hlut og hafa hver á fætur annarri staðið í harðri launabaráttu með misjafnlega miklum árangri.
    En staðreyndin er sú að laun kvenna hafa lækkað. Þegar horft er á launamun kynjanna þá hefur dregið í sundur. Þetta er mannréttindabrot að okkar dómi, þetta er óþolandi misrétti sem verður að leiðrétta og það er lágmarkskrafa að konur geti unnið fyrir sér og séð fyrir sér sem einstaklingar og sem framfærendur og því er afar brýnt að fylgja nú eftir þeim anda sem skapaðist hér í kosningabaráttunni þar sem allir lýstu yfir vilja sínum til að taka á þessu máli.
    Ég beini þeirri spurningu að lokum til hæstv. félmrh.: Hvernig hyggst hann fylgja eftir þeirri samþykkt sem er að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og felur í sér fyrirheit um að taka á þessum málum?
    Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. félmn.