Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 16:38:05 (189)


[16:38]
     Siv Friðleifsdóttir :
    Hæstv. forseti. Í jafnréttislögunum er kveðið á um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þrátt fyrir skýr ákvæði laganna sýna fjölmargar vinnumarkaðskannanir að staða kvenna á vinnumarkaði er launalega almennt lakari en karla. Þannig hafa karlar að jafnaði hærri laun þó um sambærileg störf sé að ræða. Einnig eru starfsgreinar þar sem karlar eru í meiri hluta almennt betur launaðar en svonefndar kvennastéttir. Því miður hefur ekki tekist að útrýma launamisrétti kynjanna þrátt fyrir almenna vitneskju um þá staðreynd að konur hafi lakari laun en karlar.
    Það er óásættanleg þróun að launamunur kynja hefur ekki minnkað á síðustu árum eins og kemur fram í nýlegri skýrslu íslenskra stjórnvalda vegna fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin verður nú í haust í Peking. Í skýrslunni kemur fram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ef litið er á launaþróun á almennum vinnumarkaði á árunum 1980--1993 kemur fram að hallað hefur undan fæti hjá konum. Greitt tímakaup kvenna sem hlutfall af greiddu tímakaupi karla hefur lækkað úr 88,1% 1980 í 87,2% 1985 og 83,1% 1993.``
    Konur eru sem sagt fjær því að standa jafnfætis körlum í tímakaupi nú heldur en árið 1980.
    Því miður er það svo að þrátt fyrir að rannsóknir hafi veitt mikilvægar upplýsingar um í hverju tekjumunur kynjanna felist svo sem vinnutíma, starfsaldri, starfsgrein og menntun, er ljóst að ekki hefur tekist að skýra stóran hlut launamismunarins svo fullnægjandi sé. Launamunurinn er því kynbundinn að einhverju leyti. Kynbundinn launamunur er flókið samspil margra þátta sem erfitt er að greina með fullnægjandi hætti. Af þessum sökum gengur hægar en margur vildi að leiðrétta muninn.
    Viðfangsefni till. til þál. sem hér er rædd um aðgerðir til að afnema launamisréttið er í tólf liðum. Mun ég ekki fjalla um þá alla heldur einungis um þriðja lið tillögunnar þar sem ég leiði starf þess hóps sem þar er getið.
    Starfshópurinn sem skipaður er af hæstv. félmrh. hefur það hlutverk að safna upplýsingum um og vinna að tillögum um starfsmat sem tæki til að draga úr launamun karla og kvenna. En hvað er starfsmat? Samkvæmt algengri skilgreiningu er starfsmat kerfisbundin aðferð til að meta mismunandi þætti starfa til að fá fram heildarmat á verðmæti starfsins á grundvelli þeirra krafna sem starfið gerir til þess sem gegnir því. Algengir þættir sem eru metnir eru þekking, reynsla, frumkvæði, álag og vinnuskilyrði. Það er starfið sem er metið, ekki einstaklingurinn sem gegnir því.
    Í þeim löndum þar sem starfsmatsleiðin hefur verið farin til að leiðrétta launamun kynjanna eru einstaka störf kvenna borin saman við einstaka karlastörf sem þykja sambærileg og jafnverðmæt og laun kvennastarfsins eru hækkuð til jafns við karlastarfið. Það skal sérstaklega tekið fram að þegar rætt er um að leiðrétta launamisrétti kynjanna er almennt ekki átt við að lækka beri laun karla.
    Starfsmati, sem leið til að draga úr launamun kynjanna, hefur aðallega verið beitt í Kanada, Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu. Þar var tiltölulega auðvelt og eðlilegt að fara þá leið vegna þess að í fyrsta lagi hafði starfsmati verið beitt sem tæki til að raða fólki í launakerfi um áratuga skeið. Í öðru lagi var fyrir hendi sérfræðiþekking hjá óháðum ráðgjafarfyrirtækjum og aðilum vinnumarkaðarins við að framkvæma matið. Í þriðja lagi voru öflug jafnréttisyfirvöld til staðar sem höfðu gagnrýnt eldra starfsmatskerfi og gert kröfu um að þau yrðu eins laus við kynbundna skekkju og hægt var á hverjum tíma. Það var sem sagt fyrir hendi pólitískur vilji til að leiðrétta þau starfsmatskerfi sem fyrir voru þannig að launamisrétti kynjanna minnkaði.
    Hér á landi er staðan ólík því sem gerist í ofangreindum löndum, þ.e. ekki er hefð fyrir starfsmati sem leið til að raða í launaflokka nema hjá sveitarfélögunum. Fáir hafa þekkingu á að hanna starfsmatskerfi og raða í þau. Síðan er það spurningin: Hve sterkur er hinn pólitíski vilji til að leiðrétta launamun kynjanna?
    Vinna starfshópsins er ekki langt komin enda hefur hann einungis haldið tvo fundi. Hópurinn mun skoða kosti og galla starfsmats og möguleikana á að nota starfsmat hér á landi. Gert er ráð fyrir að safna upplýsingum erlendis frá um starfsmat sem unnið hefur verið til að draga úr launamun kynjanna og að hópurinn skili skýrslu um það efni í lok október í haust.
    Starfshópurinn áætlar að fá faglega umsögn trúlega frá breskum sérfræðingi um starfsmatskerfið sem lagt var til grundvallar starfsmati sveitarfélaganna, sérstaklega með tilliti til þess hvort það felur í sér kynbundna skekkju. Starfsmat sveitarfélaganna er umfangsmesta starfsmatið sem er í notkun hér á landi enn sem komið er. Ég vil hins vegar taka fram að starfsmati hefur aldrei verið beitt hér á landi sem leið til að jafna launamun kynjanna.
    Í síðustu kosningabaráttu var talsvert rætt um starfsmat sem leið til að útrýma launamisrétti kynja. Mátti allt eins skilja að starfsmat væri töfralausn sem draga mætti úr hatti og hrinda í framkvæmd í eitt skipti fyrir öll og þá væri launamisrétti kynjanna úr sögunni að eilífu. Málið er alls ekki svo einfalt heldur vandmeðfarið. Segja má að ef ekki er sterkur vilji allra aðila, þ.e. atvinnurekenda, launþega, verkalýðsfélaga og stjórnvalda, til að útrýma launamisrétti kynjanna geti starfsmat unnið gegn launajöfnun. Ef vilja ofangreindra aðila til jafnréttis vantar gæti starfsmat allt eins orðið tæki sem festir misrétti í sessi, þ.e. að það verði notað sem aðferð til að réttlæta almenn lág laun kvenna.
    Starfsmat sem leið til að leiðrétta launamun kynjanna er því ekki fær nema sterkur pólitískur vilji aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sé til staðar. Þó gæti ríkisvaldið gengið á undan með góðu fordæmi.
    Að lokum vil ég fagna báðum þeim tillögum sem eru á dagskrá hér í dag, þ.e. ef tími gefst til að ræða þær, sem taka á launamisrétti kynjanna. Í þeim kemur fram að til að ná launajafnrétti kvenna og karla þarf að beita mörgum aðferðum samhliða ef árangur á að nást. Undir þau sjónarmið tek ég heils hugar og vona að nýhafið kjörtímabil færi okkur nær launajafnrétti en tvö síðustu kjörtímabil hafa gert.