Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 16:55:03 (191)


[16:55]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það liggja hér fyrir sem 8. og 9. dagskrárliður, þáltill. sem fjalla um launamisrétti og aðgerðir til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla. Ég kýs að taka til máls við fyrri tillöguna þó það sem ég ætla að fjalla um sé fyrst og fremst afstaða til þeirra mála sem tengjast launamisrétti án þess að ég taki beinlínis afstöðu til tillagnanna.
    Virðulegi forseti. Það er sannfæring mín að það þurfi að bregðast við á mörgum sviðum ef vinna á bug á því meini sem ójöfnuður í málum kynjanna er, ekki síst í launamálum kynjanna. Við höfum vitað það lengi að við búum við launamisrétti kynjanna. Við höfum vitað það lengi, lengi. Það er launamunur kynja í ráðuneytunum. Það er launamunur kynjanna í stofnunum ríkisins og það er launamunur kynjanna úti á vinnumarkaði þó hann reynist vissulega minnstur í hópi ófaglærðra. Skýrslan sl. haust sem unnin var sem hluti af norræna jafnlaunaverkefninu staðfesti eingöngu það sem við vissum, að hér viðgengst launamisrétti. Það sem hún hins vegar berlega dró fram er hvar launamunur verður til og það er gagnagrunnur til að vinna út frá í leiðréttingarstarfinu fram undan.
    Viðbrögð mín við skýrslunni voru þrenns konar og þá er ég að orða beinar aðgerðir þar sem ég hafði möguleika á að beita mér sem félmrh. í örfáa mánuði.
    Í fyrsta lagi að leggja fram till. til þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Sú tillaga var unnin í samvinnu við landsnefnd um mál fjölskyldunnar og ég árétta að það hefur aldrei fyrr verið lögð fram á Alþingi tillaga um opinbera fjölskyldustefnu.
    Í öðru lagi að gera tilraun til að fá fullgildingu Íslands á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um starfsmenn með fjölskylduábyrgð, en Finnland, Noregur og Svíþjóð fullgiltu fyrir áratug slíka samþykkt. Málið var lagt fram í ríkisstjórn í janúar en náði ekki inn á hið háa Alþingi.
    Í þriðja lagi skipaði ég á kvennadaginn 8. mars, starfshóp til að fylgja skýrslunni eftir og skipaði í þann starfshóp án tilnefningar það sem ég kýs að kalla fagfólk, þ.e. aðila sem unnið hafði að skýrslunni og aðila sem sýnt höfðu brennandi áhuga á framhaldi vinnunnar, fólk af vinnumarkaðnum. Og ég vil taka fram að Vinnuveitendasambandið hafði ekki áhuga á þátttöku í starfi þessa starfshóps, eftir því var óskað og ég nefni það hér sérstaklega vegna ummæla félmrh.
    Ég vil einnig taka það fram að viljandi kaus ég að fela aðilum frá stéttarfélögum og vinnumarkaði og Jafnréttisráði að framkvæma þessa ákveðnu vinnu og gagnaöflun erlendis frá með tilliti til starfsmats í stað þess að skipa pólitíska nefnd. Eftirmaður minn hefur hins vegar skipað nýjan formann í nefndina sem einmitt hér hefur talað og ég átti e.t.v. von á að setti fram nýja eða breytta starfsáætlun en mér heyrist að það eigi að vinna að málinu í svipuðum farvegi og ákveðið var í upphafi.
    Ég vil taka fram vegna orða formanns nefndarinnar hv. 4. þm. Reykn., Sivjar Friðleifsdóttur, að starfsmat sveitarfélaganna lyfti mjúku störfum sveitarfélaganna, og þau hafa verið mjög skipuð konum, þannig að óbeint varð starfsmat sveitarfélaganna til þess að rétta hlut kvenna hjá sveitarfélögunum.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér getið fyrstu viðbragða minna í máli sem okkur konum er svo mikilvægt og hugstætt en á að vera sameiginlegt áhugamál og baráttumál bæði karla og kvenna. En lykilorðið er breytt viðhorf og til að ná því fram þarf að leita margra leiða. Það þarf að breyta heima og heiman. Þrátt fyrir miklar framfarir og þróun, aukna menntun kvenna og bætta heilsugæslu víða um heim, bera konurnar enn ábyrgðina á fjölskyldu samhliða því að sækja fram á vinnumarkaðinn. Konur eru láglaunahópur einnig meðal þjóða þar sem jafnrétti til náms ríkir. Kvennabaráttan verður ekki aðskilin frá stefnumörkun í málefnum fjölskyldunnar óháð því hver gerð fjölskyldunnar er. Konur hafa sótt fram til aukinna áhrifa á mörgum sviðum en heima fyrir eru þær enn í sömu sporum og formæður okkar. Það er því nauðsynlegt að gefa verkaskiptingunni innan fjölskyldunnar meiri gaum.
    Enn fremur verður ekki hjá því komist að líta til þess sem yfirvöld gera í þágu fjölskyldunnar. Fjölskyldan hefur veikst á sama tíma og samþætting og samheldni hins ytra samfélags hefur aukist, til að mynda með atbeina sífellt voldugri fjölmiðla. Tengsl einstakra fjölskyldumeðlima út í samfélagið, einkanlega vegna atvinnu og skóla, verða sífellt mikilvægari en tengslin inn á við verða að sama skapi færri og veikari. Á fyrri tímum var enginn merkingarmunur á því að helga sig vinnunni og helga sig fjölskyldunni, á okkar dögum er þessu stillt upp sem andstæðum. Sá sem helgar sig vinnunni er sagður vanrækja fjölskylduna og sá sem helgar sig fjölskyldunni er talinn metnaðarlaus í starfi.
    Það ríkir ekki jafnrétti kynja á vinnumarkaðnum og konur hafa verulega lægri laun en karlar. Þær eru í sífelldri baráttu við að samræma vinnudag utan heimilis að verkefnum fjölskyldunnar, ekki síst umönnun barna. Það hefur komið fram að konur eru álitnar ótryggari starfskraftur og því síður ráðnar til starfa en karlar og einkum skýrt með því að konur detti út af vinnumarkaði vegna barneigna og fjölskylduábyrgðar. Ég spyr: Hvernig geta konur náð áttum við þessar aðstæður? Þær geta það ekki án þátttöku karla við að sinna verkefnum heimilanna. Þær geta það ekki án viðurkenningar samfélagsins á mikilvægi fjölskyldunnar sem sjálfstæðrar einingar sem skuli njóta verndar. En hvernig getum við búið nýjar kynslóðir undir að móta samfélag þar sem ríkir jafnrétti kynjanna þar sem feður annast börn sín til jafns við mæðurnar þegar æskan í dag elst upp við ójafnræði milli kvenna og karla á heimilunum og horfir á ofbeldi og kúgun gagnvart konum? Getur lýðræði sem hefur útilokað konur eða setur þær út á jaðarinn verið lýðræði? Raunverulegt lýðræði hlýtur að hafa alla innan borðs, ekki eingöngu helming mannkyns.
    Á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn í mars heyrðust tvö orð aftur og aftur í ræðum kvenna, kvenna sem komu ýmist úr suðri eða norðri, austri eða vestri. Þetta voru orðin ,,parity democracy``, sem hérlendis hefur verið kallað tvenndarlýðræði. Í því felst einmitt að í lýðræðinu felist að að ákvarðanatöku komi bæði kynin og að áhrif kvenna flytjist frá jaðrinum inn að miðju ákvörðunartökunnar. Að þessu ber okkur að vinna, í þessu felst sú framför sem við óskum. Þess vegna höfum við það mikla verk að vinna að tryggja þátttöku kvenna á öllum sviðum, að flýta þeim degi að konur verði eðlilegur helmingur í ríkisstjórn, á Alþingi, í áhrifastöðum í þjóðfélaginu, að tvenndarlýðræðið komist á. Við þurfum að beita aðgerðum á öllum hugsanlegum sviðum, en staðan á heimilinu er að mínu mati undirstaðan.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka beina afstöðu til þeirra tillagna sem hér eru settar fram. Ég tek undir þau markmið sem flutningsmenn hafa að leiðarljósi. Mér finnst eðlilegt, nýkomin úr ríkisstjórn, að sjá á spil stjórnarflokka þegar þeir kynna frumvörp sín í haust, en ég boða það hér og nú að verði ekki meðal frumvarpa stjórnarliðanna í haust frv. um opinbera fjölskyldustefnu þá mun ég beita mér fyrir framlagningu þeirrar tillögu sem ég bar inn á þing í upphafi þessa árs.