Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 17:03:59 (192)


[17:03]
     Pétur H. Blöndal :
    Forseti. Fyrir 20 árum sléttum upplifðum við kvennafrídag og það var mikið upplifelsi fyrir mig alla vega og ég batt miklar vonir við það sem þar var að gerast. Í kjölfarið var svo stofnaður kvennalisti sem átti að berjast fyrir hagsmunum kvenna í jafnréttisátt. Þetta var sanngjörn krafa kvenna sem bjuggu þá við lægri laun. Nýkomin könnun Jafnréttisráðs sýnir okkur að lítið hefur unnist og ég held að það sé virkilega atriði fyrir þær konur og það fólk sem vill sjá jafnrétti kynjanna að athuga af hverju. Hvað hefur mistekist?

    Að því er ég best sé, þá eru nánast öll lög og reglur í landinu jöfn gagnvart kynjum. Það er búið að laga það allt og ef eitthvað er að þá mun ég fúslega breyta því og standa að því. Það eina sem ég sé enn þá eftir er kannski lífeyrisréttur hjóna við skilnað.
    Herra forseti. Hvar myndast misréttið? Hvar myndast það? Og hvar er misréttið? Misréttið felst sjaldnast í því að verið sé að greiða mismunandi há laun fyrir sömu störf heldur felst misréttið í því að konur fá ekki hærri störf. Það eru karlar sem fá hærri störfin. Og hvers vegna skyldi það vera?
    Nú vil ég biðja ykkur um að fylgja mér í ákveðið hugsanadæmi. Hver ræður fólk yfirleitt til starfa? Það er starfsmannastjóri í fyrirtæki, það er forstjóri, það er stjórn fyrirtækisins sem ræður forstjóra fyrir fyrirtækið, það er stjórn opinbers fyrirtækis eða einkafyrirtækis og þessi stjórn ákveður sem sagt að ráða óhæfari einstakling heldur en hæfari til starfa, þ.e. hún ákveður að ráða óhæfari karlmann heldur en hæfari konu til starfa. Það er málið, þarna er mergurinn. Og hvers vegna skyldi þetta ágæta fólk gera þetta? Af hverju ræður það óhæfara fólk til starfa? Það er vegna þess að það horfir ekki á arðsemi þess fjár sem bundið er í viðkomandi rekstri. Það er ekki horft til þess að þetta fyrirtæki þurfi að skila arði. Annars mundu menn hikstalaust ráða hæfari einstaklinginn og þeir þyrftu ekki að hugsa um það. Þetta er kjarni málsins.
    Ég fullyrði að ættlaus og flokkslaus karlmaður er verr settur í dag heldur en ættstór kona í réttum flokki. Þetta er ekki spurning um jafnrétti milli kynja. Þetta er nefnilega spurningin um jafnrétti milli manna. Og ég held að menn séu á villigötum með því að stilla dæminu upp sem jafnrétti milli karls og konu, þá er búið að pólarisera vandann og menn horfa bara á þetta dæmi, karl á móti konu. Það er verið að rembast við að ráða konur í stöður og meira að segja farið öfuga leið eins og borgarstjórinn lýsti yfir nýverið, að hún ætlaði að ráða frekar konur heldur en karla, jafnvel óhæfari konur, og það er nákvæmlega sama og fólk hefur verið að berjast gegn með öðrum formerkjum.
    Herra forseti. Hvers vegna viljum við jafnrétti yfirleitt? Jú, það særir réttlætiskennd okkar þegar óhæft fólk er ráðið í stöður og það drepur auk þess niður frumkvæði. Þegar sá sem er í þeim hóp sem er beittur misrétti, hvort sem það er kona eða hvort sem það er ættlaus karlmaður, sér það að hann kemst ekki áfram þá fyllist hann vanmáttarkennd og það drepur niður frumkvæði hans til þess að komast áfram.
    En það eru önnur áhrif misréttis sem eru miklu alvarlegri og það eru þjóðhagsleg áhrif misréttis. Ef þjóðin leyfir sér að ráða óhæfari einstaklinga, sérstaklega í stjórn fyrirtækja, jafnvel stærstu fyrirtækja landsins, þá eru þessi fyrirtæki verr rekin. Og það kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar virkilega. Þess vegna er það mikið atriði fyrir þjóðina og fyrir hag okkar allra að þetta misrétti sé útilokað. Við höfum ekki efni á þessu misrétti sem viðgengst í dag.
    Ég spurði áðan: Hvar myndast misréttið? Vegna þess að það er spurningin um arðsemi þá myndast það aðallega þar sem ekki er gerð krafa um arðsemi. Það myndast aðallega hjá opinbera geiranum, þeim fyrirtækjum sem eru rekin fyrir fé án hirðis, sem ég kalla svo, fé sem enginn á. Þetta ber að hafa í huga. En það er fleira sem veldur misréttinu eða misrétti karla og kvenna ef við horfum á það sérstaklega. Ég hef lent í því að þurfa að ráða fólk í vinnu. Og þegar fyrir framan mig stóð ung kona nýútskrifuð úr háskólanum, þá vissi ég með nokkuð mikilli vissu, eða um 80%, að hún færi í fæðingarorlof á næstu þrem árum sem mundi þýða fyrir þetta litla fyrirtæki sem ég veitti forstöðu að ég þyrfti að ráða nýja manneskju, ég þyrfti að ráða við þann vanda, skóla nýja manneskju, auglýsa og allt þetta vesen í sambandi við það að ráða fólk sem kostar óhemju fé. Það kostar sennilega 300 þús. og upp í hálfa millj. að skipta um einn ritara. Og þegar maður hefur þetta í huga þá að sjálfsögðu veikir þetta stöðu kvenna. Það ætti því virkilega að huga að því hvort ekki mætti dreifa fæðingarorlofi á karla og konur þannig að þetta misrétti hverfi.
    En það er fleira sem veldur þessu misrétti. Það er viðhorf karla til kvenna og það er viðhorf kvenna til kvenna og kannski ekki hvað síst, þá var það viðhorf konunnar til sjálfrar sín. Sjálfsvirðing hennar og sjálfsmetnaður er oft og tíðum of veikur. Þessu þarf að breyta. Ég get ekki séð hvernig en það er nauðsynlegt að breyta þessu til þess að ná því jafnrétti sem við erum að tala um.
    Herra forseti. Þær till. til þál. sem við hérna ræðum eru vel meint og vel hugsuð tilraun til að vinna bug á þessum vanda. Ég get tekið undir sumt af því sem þar er talað um en ég held að þetta muni ekki breyta miklu frekar en allt það sem búið er að gera hingað til. Það sem þarf nefnilega að taka á er að líta á, hvar myndast vandinn? Hvar er ekki gerð arðsemiskrafa og af hverju er ekki gerð arðsemiskrafa? Af hverju leyfist mönnum að ráða óhæfari karlmann eða óhæfari einstakling en hæfari? Og það er það sem þarf að laga. Lausnin á því er að mínu mati að vissu marki að einkavæða vegna þess að þegar búið er að einkavæða þá vex um leið arðsemiskrafa til fyrirtækjanna. Og svo merkilegt sem það er þá er það nefnilega jafnréttismál að einkavæða. Ég ætla að biðja menn að hafa það í huga.
    Herra forseti. Ég held að þessar tillögur sem hér hafa komið fram séu að vissu leyti tilraun til þess að laga þennan vanda, en menn þurfa að horfa miklu dýpra. Það þarf að breyta viðhorfum fólks til kvenna og það þarf að breyta viðhorfum manna til arðsemi fjár.