Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 17:12:07 (193)


[17:12]
     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að þakka fyrir að efnt er til þessarar umræðu hér og finnst að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram séu öll athyglisverð og ástæða til þess að ræða þau ítarlega. Því miður er ekki kostur á því að fara mjög rækilega yfir málin, sérstaklega eins og sumar ræður hafa gefið tilefni til, t.d. síðasta ræða sem hreyfði við grundvallaratriðum, þ.e. þeim hvort allsherjararðsemiskrafa, allsherjarmarkaðsbúskapur á öllum sviðum sé í raun og veru svarið. Og ef Kvennalistinn ætlaði sér að jafna laun karla og kvenna eða réttindi þeirra yfir höfuð, þá ætti að taka upp arðsemiskröfu á öllum sviðum, bæði í skólum, heilbrigðisstofnunum, kirkjunni, ríkisstjórninni og víðar og víðar, arðsemiskröfu til einstakra ráðherra t.d., það væri sniðugt og mæla þá eftir því. Ég veit ekki hvaða skoðun hæstv. félmrh. hefur á þessu máli en hér hafa tveir talsmenn stjórnarflokkanna talað í þessu máli, hv. síðasti ræðumaður, Pétur Blöndal, og hæstv. félmrh. og væri fróðlegt að vera þar fluga á vegg þar sem þeir bæru saman bækur sínar, þeir félagar.
    En það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að menn velti fyrir sér hver ástæðan sé fyrir því að staðan er eins og hún er. Það er alveg rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að í upphafi þessarar vegferðar höfðu menn mikla trú á því að lög og reglur leystu vandann. Það voru fluttar hér tillögur og frumvörp og langar og merkilegar og ágætar ræður um þau mál og lögin voru sett og reglurnar voru settar. Það gerðist t.d. með því að sett voru lög um jafnréttismál, almenn lög, lög um jafnlaunadómstól, lög um jöfn laun karla og kvenna o.fl. og hygg ég að löggjöfin sé orðin allafdráttarlaus hvað þessi mál varðar. Ég held að það sé mjög erfitt að finna bein misréttistilefni í lagasafninu sem slíku. Ég held að það sé út af fyrir sig erfitt eins og sakir standa og ég er a.m.k. sannfærður um að ef það er til þá eru menn tilbúnir að breyta því. Það er enginn ágreiningur um þau mál lengur og hefur ekki verið í marga áratugi.
    Hvernig stendur þá á því að við búum samt sem áður við mismunandi laun karla og kvenna við mismunandi kjör? Ég held að það sé ekki af þeirri ástæðu sem hv. 16. þm. Reykv. nefndi áðan. Ég held að það sé ekki af þeirri ástæðu. Ég held að það sé þvert á móti af þeirri ástæðu að markaðurinn hafi ráðið meiru en góðu hófi gegnir á síðustu árum og menn hafi verið of tregir til þess að trufla gangvirki markaðarins. Ég held að það sé meginskýringin á því af hverju staðan er eins og hún er, af hverju hún hefur versnað og að því kem ég aðeins nánar.
    Maður hefur heyrt alls konar kennisetningar um það hver sé ástæðan til þess að launamunur karla og kvenna hefur farið vaxandi. Vitlausasta kenningin er sú að það sé vegna tilkomu Kvennalistans en ég heyrði nokkrar mannvitsbrekkur, karlkyns og kvenkyns í síðustu kosningabaráttu halda því fram. Ekki hefur þetta nú lagast með tilkomu Kvennalistans, sögðu menn og breiddu gasalega úr sér í ræðustólunum. Sleggjudómar af þessu tagi dæma sig sjálfir en þeir sýna líka hvað umræðan er oft vanþroska að menn skuli leyfa sér að fara fram með málflutning af þessum toga.
    Annað vitlausasta atriðið sem ég heyrði í síðustu kosningabaráttu og hef oft áður heyrt er þetta: Þetta er verkalýðshreyfingunni að kenna. Það er vegna þess að hún semur um svo lága og vitlausa taxta, þetta er allt henni að kenna. Þetta er Alþýðusambandinu að kenna, þetta er forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar að kenna, þetta er niðurstöðum í verkalýðsmálum að kenna á hverjum tíma. Það er líka afskaplega ósanngjarnt vegna þess að auðvitað eru kjarasamningar niðurstaða vinnumarkaðarins. Þeir eru niðurstaða af þeim valdahlutföllum sem eru á hverjum tíma í þjóðfélaginu milli stéttanna, milli þeirra sem eiga ekkert til að selja nema vinnuafl sitt og hinna sem lifa á því að kaupa þetta vinnuafl, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar.
    Til þess að taka á móti þeirri þróun sem hefur gengið yfir þurfa menn að horfa aðeins öðruvísi á hlutina og gera sér grein fyrir því að markaðurinn og aukin markaðsvæðing þjóðfélagsins hefur komið harkalega niður á konum frekar en körlum. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Auðvitað er atvinnuleysið og veruleiki atvinnuleysisins eitt af birtingarformum þess að við búum hér við tiltölulega kalt markaðshagkerfi. Ég er ekki þar með að segja að hægt sé að breyta því á einni nóttu og ég er heldur ekki að segja að við eigum að afnema markaðshagkerfið. Ég er að tala um það að við eigum að gera nægilegar ráðstafanir til að trufla það þar sem það þarf að trufla það til þess að allir búi við réttlátar þjóðfélagsaðstæður.
    Af hverju nefni ég atvinnuleysið? Það er af því að það hefur bitnað á miklu harðar konum en á körlum. Í hólfum þingmanna í dag liggur þessi pappír, yfirlit um atvinnuástandið í apríl 1995. Ég hygg að það sé komið frá félmrn. Þar kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu er hlutfall atvinnulausra kvenna 5,8%, karla 5,1%. Á landinu öllu er hlutfallið konur 6,3%, karlar 4,9%. Á Suðurnesjum konur 10%, karlar 4,1%. Af hverju er þetta svona? Er það vegna þess að einhverjir tilteknir aðilar sem stjórna markaðsþjóðfélaginu hafi tekið ákvörðun um að vera vondir við konur? Nei, það er ekki þannig. Það er vegna þess að niðurstaðan er sú hjá þessum aðilum af einhverjum ástæðum að vinna karla sé betri markaðsvara. Það er þess vegna sem þessi niðurstaða blasir hér við. Það er vegna þess að það er of langt gengið í því að gera arðsemiskröfur að því er suma hluti varðar og málin eru ekki skoðuð í stærra samhengi heldur aðeins í spurningunni um efnahagslegan ávinning augnabliksins en ekki er horft til margra ára eða áratuga í senn eða þjóðfélagsins í heild. Þetta er veruleikinn. Þess vegna eru átökin um launamál kvenna átökin á milli hægri og vinstri í þjóðfélaginu. Auðvitað. Það er blekking að halda öðru fram. Auðvitað eru það átökin á milli einkahyggju og félagshyggju. En að sjálfsögðu eru líka átökin á milli kvennasjónarmiða og karlasjónarmiða. Ekki er nokkur leið að horfa fram hjá því. Það er heldur ekki hægt. Ég kalla það átökin á milli kvennastefnu og karlastefnu vegna þess að þrátt fyrir allt og góðan vilja karla okkar er það þannig að

áherslur okkar og sýn er oft önnur og gerólík því sem konur hefðu á sömu mál. Ekki þýðir annað en horfast í augu við þann veruleika líka. Þess vegna er skoðun mín sú að fjármagnið hafi ráðið of miklu, það sé aðalvandinn. Hinn kaldi markaður hefur ráðið of miklu um kjör kvenna og kjör fólks í landinu á síðustu árum. En ég er þar með ekki að segja, svo að ég endurtaki það, að það eigi að leggja hann niður heldur tel ég að menn eigi að verða djarfari við að trufla hann þar sem þess er þörf.
    Ég þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir ræðuna. Mér fannst það góð ræða og efnislega rökrétt svona frá hans bæjardyrum séð. --- Er tíminn búinn eða hvað? Já. Þá ætla ég rétt að ljúka máli mínu.
    Ég gagnrýni Kvennalistann fyrir að biðja ekki um tvöfaldan tíma á þetta mál. Að láta meðhöndla þetta stóra mál bara eins og hverja aðra léttari þáltill. er fullkomlega gagnrýnivert. En hv. þm. sagði áðan: Vandinn í þessum málum er aðallega hjá opinbera geiranum. Þetta held ég að sé ekki svona. En af hverju getur hann sagt þetta? Það er vegna þess að kastljós umræðunnar hefur verið á opinbera geiranum. Það hefur ekki verið talað um það misrétti sem þrífst gagnvart konum hjá einkafyrirtækjum í landinu.