Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 17:21:39 (194)


[17:21]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sem einn af flutningsmönnum þessarar tillögu vil ég fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.
    Hver skýrslan á fætur annarri hefur nú staðfest það sem flestir hafa vitað að hér á landi er gífurlegur munur á launum kynjanna og allt bendir til að hann sé meiri en þekkist í nágrannalöndunum. Skýrsla Jafnréttisráðs um launamyndun og kynbundinn launamun, sem unnin var að tilhlutan tölfræðihóps norrænu jafnlaunanefndarinnar, bendir til að konur hafi 78% af dagvinnulaunum karla og 70% af heildarlaunum. Menntun fólks eykur launin en laun karla aukast mun meira með menntun en laun kvenna þannig að háskólamenntaðar konur hafa aðeins um 64% af launum háskólamenntaðra karla en þessi prósentuhlutföll eru um 78% þegar um framhaldsskólamenntun er að ræða.
    En skýrslan sýnir ýmislegt fleira, ekki síst að sporslur, hlunnindi og yfirvinna auka launamun kynjanna verulega. Einnig sýnir skýrslan að skýringar eins og skortur á menntun, sem hamli konum, eða að þær vinni frekar hjá hinu opinbera en karlar í einkageiranum skýra ekki launamuninn, heldur ekki það að konur sækist ekki eftir stjórnunarstöðum eða séu ekki í þeim. Ef konur eru í slíkum stöðum hafa þær mun minni launahækkanir í för með sér en hjá körlum og ef þær sækja um stöðuhækkun eða launahækkun sem þær gera í vaxandi mæli er bara ekkert á þær hlustað, alla vega ekki eins vel og á karlana. Þegar tekið hefur verið tillit til allra mældra þátta í áðurnefndri skýrslu, t.d. starfsstéttar, menntunar, starfsaldurs, aldurs, fjölda yfirvinnutíma, hvort starfað er hjá opinberu fyrirtæki eða í einkageiranum, standa eftir 16% sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði sem að mínu mati er mjög alvarleg staðreynd. Bara kynferði skýrir 16% af launum fólks. Í skýrslunni Konur og karlar frá árinu 1994, sem Hagstofa Íslands hefur gefið út, má sjá --- og það hefur einnig komið fram í þessari umræðu hjá öðrum ræðumönnum --- að á árabilinu 1982--1992 hefur tímakaup verkakvenna, afgreiðslukvenna og skrifstofukvenna lækkað hlutfallslega miðað við tímakaup karla í sömu starfsgreinum. Verkakonur fá nú að meðaltali 93,7% af dagvinnulaunum verkakarla, afgreiðslukonur 70,8% og skrifstofukonur 76,5%. Þessar staðreyndir eru sláandi og alger dómur yfir gagnsemi núgildandi jafnréttislaga sem tækis til launajöfnunar og þær sýna glöggt hið pólitíska viljaleysi sem hefur ríkt meðal þeirra sem hér hafa verið við völd, hvort sem er í ríkisstjórn og þá á ég ekki síst við stærsta vinnuveitanda landsins eða þá sem hafa verið og ráðið stefnu í verkalýðshreyfingunni. Ég er ekki alveg sammála hv. þm. Svavari Gestssyni að verkalýðshreyfingin eigi engan hlut að máli.
    Sú niðurstaða að kynbundinn launamunur hefur aukist á síðustu 10 árum er með öllu óþolandi og því var mikið fagnaðarefni í nýliðinni kosningabaráttu að þessi mál komust á dagskrá svo að um munaði og flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar lýstu því yfir að þeir vildu taka á þessum óþolandi mun.
    En hvers vegna er þá þessi launamunur kynjanna? Ef svarið lægi ljóst fyrir væri hægt að ganga markvisst til verks. Meginástæðurnar eru þó vafalítið tengdar valdaleysi kvenna eða möguleikum þeirra til að ráða einhverju um kaup sitt og kjör. Hins vegar tengjast ástæðurnar því að mínu mati að þjóðfélagið hefur ekki aukið samfélagslega þátttöku í uppeldi barna samfara þeirri eftirspurn sem skapast hefur við það að konur hafa farið út á vinnumarkaðinn. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það að hæstv. félmrh. telur ekki brýnt að afgreiða þessa tillögu á þessu þingi því að málið er brýnt og krefst tafarlausrar úrlausnar. Ég fagna því jafnframt að hann telur að þær 12 aðgerðir sem við kvennalistakonur teljum upp í þáltill. geti komið að notum í vinnu hans að þessum málum.
    Ég vil vekja athygli á því eins og aðrir hafa gert að hér liggja fyrir tvær tillögur um þetta sama efni og það sýnir mér að fleiri en við kvennalistakonur höfum áhuga á málinu og ég vona sannarlega að jafnvel megi samræma þessi mál í nefnd og að um þau náist góð samstaða allra kvenna í þinginu, bæði kvenna í stjórn og stjórnarandstöðu og vonandi karla líka því að þetta er mál sem allir virðast vilja leysa og nú er að sýna pólitíska viljann í verki. Konur þurfa jöfn laun og jöfn völd ef raunverulegt jafnrétti kynjanna á að komast á.
    Vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals tek ég fram eins og ég hef útskýrt í ræðu minni að það er

rangt að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu störf eins og þær tölur sýndu sem ég nefndi áðan. Þá vil ég taka fram að hv. þm. á mjög mikið ólært að mínu mati um jafnrétti kynjanna. Ég hef staðið í kvennabaráttu í mjög mörg ár og kynnt mér fjölmargar rannsóknir á þessu sviði sem sýna hver á fætur annarri að kynferði eitt og sér skýrir misréttið og í launamálum hefur komið fram í þessari nýjustu íslensku könnun að það eru 16% sem bara kynferðið skýrir. Við konur erum orðnar mjög þreyttar á því að hlusta á meðvitundarlausa karlmenn segja okkur að við þorum bara ekki og við þurfum að fá meiri sjálfsvirðingu og sjálfstraust. Konur eru búnar að mennta sig, þær hafa fullt sjálfstraust og við gerum kröfu um að fá jöfn völd og sömu laun og karlar.
    Við kvennalistakonur höfum ávallt sagt að við værum tilbúnar að leggja okkar samtök niður þegar þau væru orðin óþörf og þegar stjórnmálaflokkarnir hefðu sýnt að þeir eru farvegur fyrir völd kvenna. Konum fjölgaði ekki hjá Alþingi í þessum kosningum og stjórnmálaflokkarnir hafa allir um það bil eða undir 20% þingmanna að Þjóðvaka undanskildum og Kvennalistanum. Þetta er ekki nóg að okkar mati og við viljum sjá fleiri konur sem þingmenn stjórnmálaflokka og það verða að vera konur sem láta jafnréttismálin til sín taka. Þá fyrst er markmiði Kvennalistans náð.