Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 17:47:17 (198)

[17:47]
     Pétur H. Blöndal (andsvar) :
    Herra forseti. Ég sagði ekki að ég sæi á stúlku að hún yrði ólétt eftir þrjú árin heldur sagði ég að það væru 80% líkur á því að hún mundi fara í barneignarfrí á næstu þremur árum. Það er mikill munur þar á og þetta er bara eitthvað sem hægt er að reikna út.
    Svo var einnig það að hæstv. ráðherra trúði því ekki að misrétti ætti sér aðallega stað í opinbera geiranum og benti á einkageirann. Það er rétt, einkageirinn hefur líka stundað misrétti en það er vegna þess að í einkageiranum hefur oft og tíðum ekki heldur verið krafa um arðsemi. Það er nýtilkomið eftir að verðbréfamarkaðurinn kom upp að aðalfundir eru farnir að gera kröfur til stjórna fyrirtækja að þau séu rekin með arðsemi í huga. Og það er von þeirra sem vonast til að það verði hérna jafnrétti á milli karla og kvenna og jafnrétti milli fólks yfirleitt.
    Þau mál sem hafa komið upp í sambandi við misrétti, þau mál sem hneyksla almenning í landinu, eru oft og tíðum stöðuveitingar á vegum hins opinbera. Ég þarf ekki að minna á þessi nýju mál sem hafa komið upp. Þar voru eingöngu karlar um hituna. Þess vegna komu konur ekkert inn í þá umræðu. En þær áttu að sjálfsögðu að blanda sér í þá umræðu af hverju ráðinn var óhæfari einstaklingur, að margra mati, fyrir sömu laun því það er nefnilega sami anginn og Kvennalistinn hefur verið að berjast á móti, þ.e. misrétti einstaklinga, en sýnir akkúrat það hvað ,,pólaríseringin`` að líta á karla og konur á móti hvoru öðru leiðir menn á þær villigötur að þeir sjá ekki vandann sem er misrétti milli fólks. Ég vil benda mönnum endilega á það.
    Varðandi það sem hæstv. félmrh. sagði um vel borgaða ritara þá kostar mikið að skipta um fólk. Það þarf að auglýsa, það þarf að ráða nýjan starfsmann, það þarf að kenna honum, hann gerir villur. Mitt mat er það, og ég hef reiknað það út, að það kosti svona 300 þús. kr. að skipta um ritara. Það er ekki vegna þess að launin séu svo há heldur vegna þess kostnaðar sem ég gat um.