Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:34:46 (210)


[18:34]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir ágætar umræður um þetta mikilvæga og viðkvæma mál sem hér hefur verið fjallað um. Flestir sem hafa tekið til máls hafa talað af nokkru raunsæi, þó mismunandi miklu. Ég vil minna á það að margra ára samdráttur í heilbrigðiskerfinu hefur ekki einungis bitnað á sjúklingum heldur starfsfólki líka. Mér finnst vera kominn tími til að því starfsfólki sem hefur tekið á sig geysilega mikla vinnu vegna þessa sparnaðar sé þakkað sérstaklega vegna þess að þetta fólk hefur einmitt bjargað því sem bjargað hefur verið í þessum miklu þrengingum.
    Ég er spurð hér nokkurra spurninga sem ég ætla að reyna að svara. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spyr að því hvernig ég ætli að leysa málin. Ég held að honum hafi verið ljóst í gær hvernig hjúkrunardeilan var leyst. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá honum. Þetta mál verður einnig tekið til skoðunar. Hann gerði mjög lítið úr því að fjmrh. kæmi þetta við. En það er nú svo sérkennilegt að það þarf fjármagn til. Þetta sem er að gerast í dag er innan fjárlagarammans og til að fá meira fjármagn verður að vera samvinna innan ríkisstjórnarinnar til þess. Það hélt ég að hv. þm. þekkti.
    Þetta eru þeir sömu hnútar og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á áðan sem er verið að leysa. Ég veit að þeir verða ekki leystir í einum grænum en þeir verða leystir einn af öðrum og það verður gert með samvinnu. Ég tel það mjög mikilvægt sem kom hér fram að það vantar meiri hagkvæmni og meiri samvinnu milli sjúkrahúsanna í landinu. Það er hárrétt sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði áðan, það vantar meiri samvinnu. Það vantar að nýta fjármagnið betur. Það á ekki að dreifa hátækninni út um allt. Það á að sérhæfa sjúkrahúsin. Það er alveg rétt að það er hægt að nýta sjúkrahúsin úti um landsbyggðina betur og það á að gera það. Biðlistarnir, sem ég talaði um áðan, eru langmestir hér á Reykjavíkursvæðinu. En margar þessar aðgerðir sem sjúklingar bíða eftir er hægt að gera úti á landi. Og það er ekkert lengra frá Reykjavík til Akraness en frá Akranesi til Reykjavíkur t.d. eða Keflavíkur.
    Ég tel því mjög mikilvægt að aukin samvinna milli sjúkrahúsanna verði raunveruleiki. Þetta er jú allt fjármagn ríkisins og við verðum að nýta það betur.