Endurskoðun laga um náttúruvernd

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:46:17 (226)

[13:46]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. umhvrh. varðandi endurskoðun laga um náttúruvernd, nr. 47/1971.
    Þessi lög hafa verið endingargóð en þó hafa verið gerðar atrennur að því að endurskoða þau að hluta til, m.a. á liðnu kjörtímabili, án þess að um það tækist samkomulag að afgreiða breytingar. Ég vil inna hæstv. umhvrh. eftir því hvort hann ætli að beita sér fyrir því að lög þessi verði endurskoðuð í heild og hvort hann muni leita eftir víðtækri samstöðu um undirbúning málsins t.d. í því formi að þingflokkar á Alþingi komi að endurskoðun málsins. Ég tel að í málaflokki sem þessum sé mjög skynsamlegt að leita sem breiðastar samstöðu og sem víðast fanga í sambandi við stefnumótun. Ég tel að hér sé um mjög brýnt mál að ræða í vissum atriðum þó að sum ákvæði laganna hafi vel staðið tímans tönn. Ég nefni í því sambandi lagaákvæði varðandi efnistöku, malartekju og annað efnisnám, sem eru gersamlega úrelt og stefnir í mikil vandræði vegna þeirra mála og hefur raunar gert á undanförnum mörgum árum. Að mínu mati þarf hugsanlega að líta á þessi lagaákvæði sérstaklega til þess að fá þar lagabætur en að öðru leyti tel ég sjálfsagt og eðlilegt að lögin séu endurskoðuð í heild sinni.