Reglur um afmælishald opinberra stofnana

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 13:54:29 (231)

[13:54]
     Ásta R. Jóhannesdóttir :
    Herra forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. forsrh. Mig langar til að spyrja hvort til séu reglur um afmælishald opinberra stofnana. Ef ekki hvort hann telji ástæðu til að setja slíkar reglur. Nú veit ég að það eru til reglur varðandi tækifærisgjafir.
    Ástæðan fyrir því að ég spyr er afmælishald Húsnæðisstofnunar. Húsnæðisstofnun hélt upp á 40 ára afmæli sitt og án þess að ég sé nokkuð að gagnrýna það þá velti ég því fyrir mér nú á niðurskurðar- og sparnaðartímum hvort ekki beri að setja reglur um það hvenær opinberar stofnanir skuli halda upp á e.t.v. kostnaðarsöm afmæli sín. Eiga stofnanir að halda upp á svona afmæli á tíu ára fresti eða á 25 ára, 50 ára og 75 ára eða 100 ára? Ég geri ekki athugasemdir við það að stofnanir geri vel við starfsmenn sína á tímamótum en það er spurningin hvort menn eigi ekki að setja einhverjar ákveðnar reglur um þessa hluti og hvort hæstv. forsrh. telji slíkt ekki eðlilegt.