Boðað verkfall á fiskiskipum

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 14:07:33 (235)


[14:07]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því að það liggur fyrir yfirlýsing hæstv. ráðherra um það að ríkisstjórnin ætli ekki að grípa inn í þessa kjaradeilu með lagasetningu. Ég vil þó benda mönnum á að grundvöllurinn undir þessari kjaradeilu eru lög sem Alþingi hefur sett, lög um stjórn fiskveiða, því að þau lög hafa valdið því að ákveðinn hópur útgerðarmanna og sjómanna starfar nú sem leiguliðar hjá öðrum, þ.e. hjá þeim sem eiga aflaheimildir sem þeir af einhverjum ástæðum ekki treysta sér til, kæra sig um eða vilja nýta sjálfir og útgerðarmenn sem skortir aflaheimildir hafa gerst leiguliðar hjá þessum aðilum og hafa verið að fiska fyrir þá kvótann sinn og fengið fyrir 36--40 kr. á kg. Þetta er afleiðing af lagasetningu frá Alþingi og þetta kemur fram í rýrnandi kjörum sjómanna sem verða að sætta sig við að fá fyrir afurðina 36--40 kr. á kg á sama tíma eins og aðrir starfsbræður þeirra eru að fá yfir eða á annað hundrað kr. fyrir sama fisk.
    Virðulegi sjútvrh. Þetta er ekki frjáls fiskmarkaður. Þetta er ekki frjáls verðmyndun á fiskmarkaði. Ef hæstv. ráðherra vill stuðla að frjálsri verðmyndun á fiskmarkaði, þá á hann að vinna gegn slíku kerfi sem hefur verið sett samkvæmt tillögu frá honum og með samþykki Alþingis. Svo fremi sem allur afli fer ekki á markað getur frjáls fiskmarkaður ekki ákvarðað verðið. Það væri forvitnilegt að fá að vita það frá fyrirspyrjanda, sem er stjórnarmaður í Faxamarkaði: Hvernig stendur á því að stjórn Faxamarkaðar beitti sér gegn því á sínum tíma að afli sem veiddur var en ekki var fyrirhugað að kæmi e.t.v. að landi yrði boðinn á markaðnum án þess að búið væri að landa aflanum? Og hvernig fer það saman hjá hv. þm. að geta verið forsvarsmaður þess að allur íslenskur afli fari á íslenskan markað en beita sér ekki gegn þessari ákvörðun hjá stjórn Faxamarkaðar? (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Ég fordæmi þau viðbrögð útgerðar að útflagga skipum sínum hvort sem er um leigu til annarra innlendra útgerðaraðila eða til erlendra. Þetta eru verkfallsbrot sem ég hélt að þekktist ekki lengur á þeim tíma sem við lifum á Íslandi í dag. Þetta er eitthvað sem ég hélt að heyrði sögunni til.