Boðað verkfall á fiskiskipum

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 14:10:50 (236)


[14:10]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram þá eru það þau lög um stjórn fiskveiða sem sett hafa verið hér á Alþingi sem eru tvímælalaust einn af orsakaþáttum þessarar deilu. Hæstv. núv. sjútvrh. hefur verið eindreginn baráttumaður á Alþingi fyrir því að löggjöf af því tagi sem við búum nú við í dag yrði sett. Þess vegna getur hæstv. sjútvrh. ekki haldið því fram hér að hann sé ekki með einhverjum hætti tengdur þessari deilu. Það er líka alveg ljóst að kröfur um breytingar á sölu á sjávarafla sem sjómenn hafa sett fram hafa m.a. strandað á afstöðu núv. hæstv. sjútvrh.
    Hitt er svo enn alvarlegra eins og hér hefur komið fram í umræðunum að nokkur fyrirtæki hafa ákveðið að hafa eðli og anda vinnulöggjafarinnar að engu og hafa nú tekið sér fyrir hendur verkfallsbrot eins og síðasti hv. ræðumaður lýsti mjög skýrt. Þar með tel ég einnig að hæstv. félmrh., sem ber ábyrgð á framkvæmd vinnulöggjafarinnar í landinu, verði að láta þetta mál til sín taka. Þetta mál er þess vegna ekki eingöngu tengt hæstv. sjútvrh. heldur líka tengt hæstv. félmrh. --- og er nú vont að hann skuli hafa horfið hér úr salnum vegna þess að það er óhjákvæmilegt að hæstv. félmrh. upplýsi það hér í umræðunum hvort hann ætlar virkilega ekkert að hafast að þegar þessi staðreynd liggur hér fyrir.
    Ég tel einnig að Alþingi hljóti að skoða það hvort heimila á útgerðarfyrirtækjum sem brjóta vinnulöggjöfina með því að halda heimildum sínum til fiskveiða óbreyttum eins og þau hafa haft til þessa. Hér er greinilega verið að búa til þann ljóta leik að brjóta vinnulöggjöfina annars vegar og nýta sér hins vegar þau réttindi sem afhent hafa verið af Alþingi í skjóli laganna um stjórn fiskveiða og slíkt verður að fordæma mjög harkalega.