Boðað verkfall á fiskiskipum

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 14:13:22 (237)


[14:13]
     Kristján Pálsson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir hans fyrirspurn og eins hæstv. sjútvrh. Ég tek að öllu leyti undir hans málflutning, en vildi aðeins beina umræðunni inn á þá fyrirspurn hv. 11. þm. Reykn. um fiskmarkaði. Ég hef í gegnum árin sem útgerðarmaður og sveitarstjórnarmaður fylgst nokkuð náið með því hvernig fiskmarkaðir hafa þróast og breytt þeirri venju útgerðarmanna að semja sjálfir um verðlagningu sjávaraflans út í það að vera með frjálsa verðlagningu á fismörkuðum. Ég held að allir sem nálægt þeirri þróun hafa komið viðurkenni að fiskmarkaðir hafa með starfsemi sinni aukið verulega verðmætasköpun í sjávarútvegi og aukið og kannski bætt þá ímynd sem menn hafa af aukategundum sjávarafla sem áður voru nánast verðlausar en eru í dag nýttar að fullu til útflutnings og til neyslu innan lands.
    Það hefur ekki heldur heyrst mjög hátt um það undanfarið hvernig fiskmarkaðir hafa tryggt margar útgerðir í rekstri með staðgreiðslu afla sem var áður fyrr meira undir hælinn lagt og eins með því öryggi sem markaðir hafa skapað að öðru leyti og jafnvel tryggt byggðir á viðkomandi stöðum. Ég vil benda á það að t.d. eru fiskmarkaðir í Grímsey sem hefði nú einhvern tíma verið talið dálítið út úr kortinu.
    Mig langaði aðeins til þess að inn í þá umræðu sem hér hefur myndast verði dregin sú staða að fiskmarkaðir eru í rauninni að gefa eftir í baráttunni. T.d. hefur þorskur dregist stórlega saman í afla á fiskmörkuðum vegna þess að verðlagning hefur farið í tonn á móti tonni. Ég held að það verði að draga fram kosti markaðanna sem eru miklu fleiri heldur en þær hættur sem af þeim stafa.