Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 14:58:49 (251)


[14:58]
     Bryndís Hlöðversdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að lýsa yfir furðu minni á því að hæstv. félmrh. sé nánast að gera lítið úr tillöguflutningi mínum og Svanfríðar Jónasdóttur með vísan til starfs míns hjá verkalýðshreyfingunni annars vegar og hins vegar til fyrri starfa Svanfríðar Jónasdóttur og með vísan til skoðana flokkssystur minnar, Hildar Jónsdóttur, á þætti verkalýðshreyfingarinnar í launamálum kvenna. Ég verð að segja það eins og er að mér finnst þetta ekki koma málinu við og vil nú mæla fyrir tillögunni.
    Till. sú til þál. sem hér er til umræðu er í rauninni eðlilegt framhald þeirrar umræðu sem átti sér stað fyrir kosningar um hið hróplega launamisrétti sem ríkir á milli kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. Fyrir kosningarnar virtist það keppikefli allra stjórnmálaflokkanna að takast á við misréttið sem hin síðari ár hefur verið að aukast hér á landi eins og kom fram í umræðunum líka í gær. Þessi þróun er algerlega óviðunandi og ekki í samræmi við nágrannalönd okkar og þróunina þar. Alþb. og óháðir vöktu athygli á þessu í kosningabaráttunni ásamt öllum hinum framboðunum og virtist ekki mikið skilja flokkana að í því meginmarkmiði að á launamisréttinu yrði að taka af festu.
    Alþb. taldi í tillögum sínum nauðsynlegt að skoða allar leiðir sem leitt gætu til úrbóta og starfsmat er þar nefnt til sögunnar sem skoðunarverður kostur. Það er mjög mikilvægt að sú vinna sem ráðist yrði í sé unnin í samráði við aðila vinnumarkaðarins, og ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu með tilliti til orða hæstv. félmrh. áðan, en aðilar vinnumarkaðarins eru samkvæmt lögum og alþjóðasamþykktum lögformlega til þess skipaðir að fjalla um kaup og kjör launafólks.
    Tillaga sú sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir því að slíkt samráð sé haft og ég tel það vera mjög mikilvægt. Þær leiðir sem nefndar eru til sögunnar að skoða felast í því að gera launakerfið sýnilegt í þeirri viðleitni að greidd verði sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf eins og jafnréttislöggjöfin gerir ráð fyrir. Ég lít svo á að hér sé að sjálfsögðu haft að meginmarkmiði að tryggja það að aðgerðir þær sem framkvæmdar yrðu mundu ekki festa á nokkurn hátt í sessi það misrétti sem nú er við lýði. Sérstaklega vil ég árétta þetta varðandi þann þátt tillögunnar að fella heildargreiðslur inn í launataxtana, en sú leið gæti leitt til þess ef ekki er tryggt að hún yrði farin á þann hátt að greidd verði sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
    Rétt er að benda á í þessu samhengi að samkvæmt könnun Jafnréttisráðs um launamyndun og kynbundinn launamun og reyndar samkvæmt niðurstöðum fleiri kannana bendir allt til þess að launabilið verði fyrst veruleiki eftir að hinum félagslegu samningum lýkur. Í töxtum stéttarfélaganna er mismunurinn ekki sýnilegur heldur á hann sér stað í hinum frjálsa hluta launamyndunarinnar, þ.e. eftir að hinum félagslegu samningum lýkur og við tekur samningur einstaks atvinnurekanda og launamannsins. --- Ég vildi gjarnan að hæstv. félmrh. væri hér að hlusta á mál mitt sérstaklega með tilliti til þess að hann beindi nánast til mín fyrirspurn um afstöðu mína til þessara mála sem hér er verið að ræða.
    ( Forseti (GÁ) : Forseti mun gera hæstv. félmrh. viðvart um að koma og vera við umræðuna.)
    Í tillögunni er lagt til að skoðað verði hvort við kjarasamninga mætti draga úr launamisrétti og þá sérstaklega hvort nota megi einhvers konar forgjöf til hagsbóta fyrir konur. Ég hef séð slíkar tillögur á borði stéttarfélaga í Svíþjóð sem felast í því að konur fái sérstaka hækkun umfram karla en slíkar tillögur byggja að sjálfsögðu á því grundvallaratriði að launamisréttið sé viðurkennd staðreynd. Ég geri ráð fyrir að svo sé hér á landi í dag þótt okkur geti greint á um leiðir til að leiðrétta það. Tillagan sem nú er til umræðu er þess eðlis að ríkisstjórninni ætti að vera vel mögulegt að vinna að þessu þjóðþrifamáli á grundvelli hennar. Hún felur í sér að gerð verði framtíðaráætlun og markmiðið er einfalt: Að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna á næstu fimm árum.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég skora á ríkisstjórnina að nota þetta tækifæri til að fylgja eftir því loforði sem okkur er gefið í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um að unnið verði gegn kynbundnu launamisrétti. Sú þróun sem hér hefur orðið á umliðnum áratug er íslensku þjóðinni til skammar og stjórnvöld hljóta að líta á það sem forgangsverkefni að vinna bug á slíku misrétti.
    Ég vil einnig greina frá því, herra forseti, að á fundi Kvenréttindafélags Íslands, sem haldinn var þann 15. maí sl., var samþykkt ályktun sem fól í sér áskorun til stjórnvalda um úrbætur í þessum málum. Félmrh. var sem ráðherra jafnréttismála send ályktun fundarins og óskað eftir því að hann kynnti hana ríkisstjórninni. Á fundi Kvenréttindafélagsins voru saman komnar um 70 konur úr öllum stjórnmálaflokkum og öllum stéttum og reyndar nokkrir karlar líka, þar á meðal hæstv. félmrh. Skilaboð okkar eru einföld. Það þarf að hefja aðgerðir og það strax. Það verður ekki liðið lengur að láta misrétti byggt á kynferði viðgangast á svo augljósan og óumdeilanlegan hátt og launamunur kynjanna gerir.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. félmrh. frá því í gær að hann hygðist kanna það hvort sá orðrómur sé réttur að í ráðuneytunum ríki kynbundið launamisrétti. Ég vil auk þess hvetja hæstv. ráðherra félagsmála til að kanna stöðuveitingar á vegum ráðuneytanna með tilliti til kynferðis því mig rennir grun í að þar sé víða pottur brotinn. Hæstv. félmrh. telur það til bóta að konum fjölgi í útskriftarárgöngum í Háskóla Íslands og fleiri skólum og get ég fyllilega tekið undir það með honum. En þegar maður sér mynd eins og ég held á úr Morgunblaðinu í gær, þessi mynd er af fundi sýslumanna og æðstu manna lögreglu á Íslandi, þá getur maður spurt sig að því hvort menntun færi konum betri stöðu. Á myndinni er ein kona og þetta er árið 1995.