Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:05:36 (252)


[15:05]
     Kristín Halldórsdóttir :
    Herra forseti. Það verður að teljast mikið ánægjuefni að hér á löggjafarsamkundunni gefist tilefni til þess dag eftir dag að ræða jafnrétti kynjanna og er sjálfsagt að nýta það, en reyndar synd hversu fáir eru viðstaddir. Í gær var það tillaga okkar kvennalistakvenna um aðgerðir gegn launamisrétti kynjanna og aftur er sama efni á dagskrá, nú að frumkvæði hv. þingkvenna Svanfríðar Jónasdóttur og Bryndísar Hlöðversdóttur. Svo ágætt sem það þingmál er í sjálfu sér sem rætt er í dag þá þarf það ekki að koma á óvart að ég styð fremur hið fyrra. Það gengur lengra, er beinskeyttara og markvissara á málinu tekið. Þar eru gerðar beinar tillögur um aðgerðir meðan það mál sem hér um ræðir er fremur um átak til þess að móta aðgerðir. Báðar eru þessar tillögur þó vissulega verðugt innlegg í umræðuna.
    Það verður að segjast eins og er að það sótti að mér svolítil depurð við umræðuna í gær. Mér fannst ég hafa upplifað þetta svo oft áður, heyrt öll þessi rök áður með og móti, þessar yfirlýsingar um að launamisréttið væri náttúrlega hið versta mál og eitthvað þyrfti að reyna að vinna gegn því, en hvað svo? Eru menn í raun og veru tilbúnir til að gera eitthvað í málinu? Ég, því miður, efast um það. En það þýðir náttúrlega ekki að missa vonina.
    Hugurinn leitaði við þessar umræður jafnvel 12 ár aftur í tímann þegar Kvennalistinn kom fram og setti nýjan lit á kvennabaráttuna. Þá var geysimikill kraftur og hugur í konum og margt sem efldi til átaka. Konur voru dálítið upptendraðar, kvennafrídagurinn enn í fersku minni, kona orðin forseti og svo auðvitað sú staðreynd að fjöldi kvenna á Alþingi Íslendinga þrefaldaðist í kosningunum þetta ár og kvenfrelsisafl komið með fulltrúa á Alþingi.
    Launamálin, kjör kvenna, voru vissulega höfuðbaráttumálið þá eins og núna og ég minnist þess t.d. að alþýðuflokkskonur tóku ákveðið frumkvæði þá með hv. þingkonu Jóhönnu Sigurðardóttur í fararbroddi. Þær efndu m.a. til ráðstefnu um launamál kvenna og í framhaldi af þeirri ráðstefnu var stofnuð framkvæmdanefnd um launamál kvenna sem miklar vonir voru bundnar við. Þá voru líka stofnuð Samtök kvenna á vinnumarkaði til þess að rétta hlut kvenna á vinnumarkaðnum og m.a. til þess að gera það sem menn töldu ógert hjá verkalýðshreyfingunni. Á þeirri ráðstefnu flutti Vilhjálmur Egilsson m.a. ræðu. Hann var ekki þingmaður þá en starfandi held ég hjá Verslunarráðinu og ég man að mér þótti hann nokkuð storkandi í tali og minnti raunar á samflokksmann sinn sem talaði hér í gær. Allt var þetta meira og minna markaðslögmálunum að kenna og við því væri svo sem ekkert að gera nema að konur yrðu að gera svo vel að standa sig betur í samkeppni við karlana.
    Svo var þetta með móðurhlutverkið. Það yrði aldrei frá konum tekið en álitamál hvort fæðingarorlofið væri ekki konum fjötur um fót. Þetta var inntakið í ræðu Vilhjálms Egilssonar fyrir 12 árum en það gladdi mig að heyra að hv. þm. Pétur Blöndal er þá kominn að því leytinu lengra að sjá að fæðingarorlof karla gæti verið liður í að rétta kúrsinn.
    Það var ýmislegt í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals í gær sem gefur tilefni til umræðu og reyndar var ánægjulegt að a.m.k. tveir nýir þingmenn sáu ástæðu til þess að flytja jómfrúrræður sínar við þessa umræðu í gær og var tilefnið vel við hæfi. Hv. þm. spurði hvað hefði mistekist, hvar misréttið myndast og lagði áherslu á að við yrðum að ráðast að rótum vandans. Við getum sannarlega verið sammála um það, en hvar eru þessar rætur? Mér finnst menn hafa horft dálítið fram hjá því og eftir því tekur maður í hinum ýmsu greinum sem birtar eru um þessi mál í blöðum, og sem betur fer er talsvert skrifað um þetta efni þessa dagana, umræðan verður að halda áfram. Viðhorfsbreyting er nauðsynleg. Sjálfstfl. er búinn að uppgötva það og við kvennalistakonur höfum raunar talað um hugarfarsbyltingu sem er náttúrlega róttækara orð og kannski of æsilegt fyrir suma. En það verður að komast að einhverri niðurstöðu um það hvernig við náum fram slíkri viðhorfsbreytingu. Ein leiðin er að breyta fyrirmyndum. Og þá komum við einmitt að því sem margir hafa gagnrýnt og misskilið eða kosið að misskilja eða bara alls ekki skilið og það er áhersla kvenna á stöður af ýmsu tagi. Þá er náttúrlega nærtækast að svipast um hér innan dyra.
    Auðvitað skiptir það máli að konur fái aðstöðu og vald til þess að breyta hlutunum, til þess að brjóta upp hefðina sem er einmitt það sterkasta sem karlar hafa fram yfir konur og það margra alda gamlar hefðir. Þess vegna verður að gera eitthvað í slíkum málum, rjúfa hefðina, skapa nýjar hefðir og venjur. En þá upphefst náttúrlega talið um hæfni og vanhæfni og eitt skýrasta dæmið um slíkan málflutning og misskilning má lesa í Alþýðublaðinu í dag, en eins og allir vita er Alþýðublaðið sérstaklega áhugasamt um málefni kvenna og ekki síst kvennalistakvenna. ( SvG: Hverjir vita það?) Þeir sem lesa Alþýðublaðið náttúrlega. ( HG: Það eru þingmenn . . .  ) En í dag er þar grein undir heitinu ,,Bjargvættir vanhæfra kvenna`` sem er furðulesning mikil. Greinarhöfundur endar með spurningu þess efnis hvort Kvennalistinn hafi náð markmiði sínu að hluta til eins og það er orðað, með leyfi hæstv. forseta, ,,með því að neyða karlana til að hefja til virðingar mislítið hæfar konur``. Hann, þ.e. þetta er að sjálfsögðu hann, endar svo með orðunum: ,,Ja, svei attan.`` Og vil ég gjarnan senda þau orð heim til föðurhúsanna.
    Það er nefnilega þetta með hæfnina og vanhæfnina að það er matsatriði. Og þar eru rætur misréttisins á öllum sviðum því að eins og fegurðin býr í auga sjáandans þá býr hæfnin í huga þess sem metur og svo skulum við minnast þess hverjir það eru fyrst og fremst sem ráða því mati hvort sem um er að ræða að meta hæfni til starfa og embætta eða að meta störf til launa.
    Ég sé að hæstv. félmrh. er svolítið upptekinn en það er allt í lagi. Hann fær bara skilaboðin. Það var ágætt að skynja hans áhuga á þessum málum en ég var ekki eins ánægð með það að heyra hann lýsa því yfir að þetta væru nánast óþarfar tillögur, það væri verið að vinna að þessum málum í ráðuneytinu og hjá stjórnvöldum. Það eru skilaboð sem gjarnan koma frá ráðherrum og ríkisstjórn til þingmanna þegar þeir eru að gera tillögur um málefni að það sé verið að vinna að þeim. Vissulega og vonandi en þetta heyrum við með svo mörg mál og ég minnist þess að þingmenn hafa gjarnan lagt fram hin margvíslegustu mál um úrbætur á tryggingalöggjöfinni og það er ævinlega svarið sem við fáum frá stjórnvöldum að það sé verið að vinna að málinu, það sé verið að endurskoða tryggingalöggjöfina. Þetta hefur verið sagt í mörg ár. En þingmenn gera vitaskuld sínar tillögur og það er Alþingis að fjalla um þær og meta það hvort þær eru þarfar eða óþarfar.