Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:35:52 (256)


[15:35]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu og þessari umræðu sem hér fer fram um stöðu jafnréttismála nú dag eftir dag á hinu háa þingi. Það er sannarlega ástæða til. Þessi mál komust nokkuð á dagskrá á sl. vetri í kjölfar skýrslu sem Jafnréttisráð lét Félagsvísindastofnun vinna um launamyndun og kynbundinn launamun og það er eðlilegt framhald af þeirri umræðu sem þá fór fram og þeirri skýrslu að þessi mál séu tekin hér upp á nýju þingi.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt að viðurkenna að launamisréttið er mjög margslungið mál og ég held að alhæfingar dugi ekki ef á að reyna að brjóta það til mergjar. Hér var m.a. sagt af einum hv. ræðumanni að þetta launamisrétti stafaði ekki síst af því að viðhorf í sambandi við mannaráðningar veldu því að karlar veldust til æðstu og þá væntanlega best launuðu starfanna og konur síður og var tekið dæmi af bankastjórum sem væru víst allir karlar. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því að þetta eigi þarna hlut að máli en ég bendi á að í skýrslu Félagsvísindastofnunar um launamyndun og kynbundinn launamun var einmitt reynt að einangra þætti af þessu tagi og það sem gerði kannski niðurstöðu þeirrar skýrslu að mörgu leyti meira hrollvekjandi en ella var að þar var markvisst reynt að taka til hliðar allar gjaldgengar skýringar á mismunandi launum eins og þetta með því að bera eingöngu saman fólk í sambærilegum stöðum. Eftir stóð samt sem áður launamunur, óútskýranlegur og óverjanlegur launamunur sem engin önnur haldbær skýring er til á en að hann sé kynjabundinn, þ.e. þegar búið var að taka tillit til þess að fleiri karlar en konur voru í hærri stöðum innan viðkomandi fyrirtækja og stofnana o.s.frv. Að þessu leyti dugar því dæmið um bankastjórana ekki nema að hluta til til að skýra málið og það er kannski það alvarlega sem menn standa hér frammi fyrir.
    Ég held að niðurstaðan, og það sýnir nú og sannar að sínum augum lítur hver á silfrið eða eftir því frá hvaða sjónarhóli er talað, en mín niðurstaða af lestri þessarar skýrslu og umhugsunar um þessi mál á sl. vetri var sú að eina vörnin í þessum efnum væri fólgin í gagnsæjum, umsömdum launum sem öllum væru greidd vegna þess að svo lágt leggjast menn almennt ekki að reyna að innleiða eða viðhafa launamisrétti í hinum föstu umsömdu töxtum. Nei, það er þegar til sögunnar koma óumsamdar persónubundnar greiðslur til einstaklinga sem launamunurinn heldur innreið sína. Og þá getur niðurstaðan að mínu mati ekki orðið sú að fara að hverfa að aukinni frjálshyggju í þessum efnum. Og það fannst mér einhver furðulegustu viðbrögðin af öllum við skýrslunni á sl. vetri þegar hæstv. fjmrh. kom hér í ræðustól og taldi að eðlileg viðbrögð við henni væru þau að innleiða í auknum mæli einstaklingsbundna samninga og persónubundin launakjör gagnvart hverjum og einum starfsmanni ríkisins til að mynda. Að mínu mati er slíkt að fara í algjörlega öfuga átt við það sem er meginniðurstaðan, meginlærdómurinn af athugun á þessum málum á undanförnum mánuðum og er að því leyti til skýrsla Félagsvísindastofnunar ekki ein á ferðinni og ekki í sjálfu sér fyrst til að birta þessa mynd þó að hún geri það með skýrari hætti en áður hefur verið.
    Þess vegna tek ég undir það sem segir í 2. mgr. tillögunnar að markmiðið hlýtur að vera það að fella heildarlaunagreiðslur inn í launataxtana þannig, með leyfi forseta, ,,að greidd verði sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf`` og allar þessar greiðslur verði uppi á yfirborðinu og sýnilegar. Ég held að að sama skapi sé líka hæpið að draga þá ályktun að stóraukin einkavæðing sé endilega lausnarorð í þessum efnum.
    Það er að vísu svo að ríkið kom í sjálfu sér ekkert betur út sem vinnuveitandi í þessum samanburði einkafyrirtækja og stofnana í skýrslu Félagsvísindastofnunar en það kom heldur ekki verr út. Og það var ekki hægt að sjá að staða kvenna væri að ráði mismunandi eftir því hvort vinnuveitandinn væri einkaaðili eða opinber stofnun þannig að þá fæ ég ekki séð að það sé í sjálfu sér lausnarorð að einkavæða stofnanir. Það mundi væntanlega ekki sjálfkrafa leiða til betri stöðu þessara mála nema fyrir væri sýnilegur munur í því að minni launamunur væri á ferðinni úti á einkamarkaðnum, en það er ekki. Auðvitað er sá samanburður allur vandasamur og það er sjálfsagt að hafa fyrirvara á honum, eins og reyndar er gert í skýrslunni, en meginniðurstaðan var sú að það væri ekki að þessu leyti til um mikinn mun að ræða. Þó að launin sjálf væru kannski skárri hjá konum á almenna vinnumarkaðnum þá voru þær hlutfallslega ekkert betur settar borið saman við karlana. Þessi mál eru býsna margslungin eins og ég sagði og það þýðir lítið að ræða um þetta nema horfast í augu við það.
    Ég held að það sé ekkert verri nálgun í þessum málum en hver önnur að reyna að gera framkvæmdaáætlun af því tagi sem þessi tillaga fjallar um og eitthvað verða menn að reyna því að það gengur ekki annars vegar að hafa í gildi jafnréttislög með afdráttarlausu banni við því að mismuna fólki í launum eftir kynferði eins og lög gera í dag, 4. gr. og hvað það nú er, horfast í augu við grimmilegt launamisrétti hins vegar og yppa öxlum. Það er ekki hægt. Menn verða að ráðast á þetta vandamál og reyna að uppfylla lögin um jafnrétti í launum, nú eða þá að fella þá grein bara úr gildi og gefast upp.
    Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst innlegg hæstv. jafnréttismálaráðherra í byrjun þessarar umræðu ekki rismikið. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að reyna að nálgast þetta frá öðrum sjónarhóli en þeim að fara að hálfpartinn að sprogsetja það fólk sem hér er að leggja fram tillögur og sinna þessum málum og að gera það tortryggilegt með tilliti til fyrri starfa eða bakgrunns í þessum efnum eins og því farist nú ekki mikið upp á dekk af því að það hafi ekki kippt þessum málum í liðinn þegar það var að starfa úti á almenna vinnumarkaðnum eða sem aðstoðarmenn ráðherra fyrr á öldinni. Þetta er auðvitað enginn málflutningur, hæstv. jafnréttismálaráðherra. Það er miklu nær er fyrir hæstv. ráðherra að líta á þetta sem jákvætt innlegg, sem stuðning við það verkefni sem hæstv. ráðherra fer með. Mér þykir þetta benda til þess að hæstv. ráðherra sé ekki í alveg nógu góðu skapi að hann skuli bregðast svona við eðlilegum málflutningi og umræðum af þessu tagi. Hæstv. ráðherra ætti að líta á þetta sem jákvætt innlegg sér til stuðnings í erfiðum og vandasömum verkefnum og mun ekki af veita, ( Félmrh.: Ég geri það.) en kannski er hæstv. ráðherra eitthvað beglaður eftir póstinn frá Brussel og það veldur því að hann er ekki í nógu góðu jafnvægi og tekur þess vegna eðlilegum og sjálfsögðum tillöguflutningi og umræðum af því tagi sem hér fara fram með þessum óskynsamlega hætti sem hann gerði. Það er málinu ekki til framdráttar.