Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:50:47 (261)


[15:50]
     Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur skapast um þessa þáltill., bæði í dag og einnig í gær og get ekki látið hjá líða að þakka hlý orð sem hafa fallið í minn garð sérstaklega en fagna því jafnframt að hæstv. jafnréttisráðherra tekur tillögum vel vegna þess að ég hygg að honum muni vera jafnljóst og mér og öðrum sem hafa lengi reynt að vinna að þessum málum að við náum ekki árangri öðruvísi en að margir komi að og þess vegna er samvinna um þessi mál nauðsynleg.
    Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir nefndi það áðan að henni fyndist hún hafa upplifað þessa umræðu áður. Líklega erum við býsna mörg hér inni sem höfum þá sömu tilfinningu og það verður ekki sagt af þessu tilefni að sjaldan sé góð vísa of oft kveðin, því miður. Það er miklu fremur dapurleg staðreynd að svo skuli vera. En tillöguflutningur nú er auðvitað í beinu framhaldi af þeim yfirlýsingum sem fram komu í nýliðinni kosningabaráttu eins og margoft hefur komið fram. Það er nauðsynlegt að nýta þann skilning sem þá kom fram á þessum málefnum og þann byr sem þau virtust eiga meðal allra stjórnmálaflokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi. Og ef sá byr er ekki nýttur nú, þá hlýt ég að spyrja: Hvenær? Þess vegna er þessi tillöguflutningur nú ekki bara eðlilegur heldur miklu meira en fyllilega á sínum stað.
    Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Péturs H. Blöndals að það er fleira misrétti en kynjamisrétti. Það er hins vegar ekki umræðu um jafnrétti kynjanna til framdráttar að drepa málinu á dreif með þeim hætti að ræða það ávallt í samhengi við annað misrétti. Ég held að við verðum að reyna að afmarka okkur bæði í umræðunni og í umræðu um þær aðgerðir sem við teljum eðlilegt að fara í og beinast í þessu tilfelli sérstaklega að þessu tiltekna misrétti.
    Hv. þm. talar nokkuð um það að hinn hæfasti eigi að vera ráðinn og ef markaðurinn réði væri það svo. Þessi könnun sem nú er svo mjög vitnað til í þessari umræðu leiðir það í ljós að svo er ekki, svo virðist hvorki vera á hinum opinbera né hinum almenna markaði og þar er auðvitað því um að kenna að sú viðhorfsbreyting sem menn væntu að hefði átt sér stað hefur ekki látið á sér kræla.
    Ég vænti þess að viðbrögð við þessari umræðu og því sem hér hefur komið fram verði ekki hvað síst þau að sett verði fram á hinu háa Alþingi stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar. Mér sýnist að það sé nokkuð augljóst að það megi draga þá niðurstöðu af þeim umræðum sem hér hafa verið og þeim ábendingum sem hér hafa verið fram settar að það er ekki hvað síst að okkur vantar fjölskyldustefnu sem málum er svo komið sem raun ber vitni eða kannski öllu heldur hitt að við þokumst svo treglega fram á við. Samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú er unnið eftir á að leggja slíka fjölskyldustefnu fram. Það kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur í gær að hún hafði sem félmrh. lagt fram það frv. sem undirbúið hafði verið og væntanlega fáum við aftur að sjá slíkan tillöguflutning þannig að við þokumst þó nær því að eignast hér fjölskyldustefnu.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að sú umræða sem hér hefur verið hleypt af stað sé fyrirboði frjórrar umræðu í þinginu í vetur um jafnréttismál og að sú umræða ásamt þeim aðgerðum sem gripið verður til leiði okkur nær því markmiði að karlar og konur verði jafnsett í launum sem og öðru. Það er afskaplega gott til þess að vita að í þessari umræðu eru að koma fram nýjar og frjóar hugmyndir eins og sú sem Ásta Ragnheiður nefndi hér áðan, að karlar skrái sig úr fæðingarorlofi. Það yrði ugglaust frekar til þess að þeir tækju fæðingarorlof ef þeir þyrftu að hafa fyrir því að skrá sig úr því. Þessi hugmynd og margar fleiri eiga fullan rétt á sér inn í þessa umræðu og inn í þá umfjöllun sem fram mun fara um jafnréttismál. Ég þakka fyrir umræðuna.