Afgreiðsla frumvarpa um breytingar á einkaleyfi ÁTVR

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 15:06:22 (267)

[15:06]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forseta þingsins í framhaldi af yfirlýsingu formanns efh.- og viðskn. á fundi í sameiginlegri þingnefnd EFTA-ríkja og Evrópuþingsins í morgun. Skilaboðin frá hv. þm. komu reyndar í gegnum Ríkisútvarpið og á ensku, en í þýðingu Ríkisútvarpsins voru skilaboðin á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Þinghald stendur yfir þessa dagana á Íslandi og við förum ekki heim fyrr en frumvörpin um breytingar á einkaleyfi ÁTVR hafa verið samþykkt, sagði Vilhjálmur Egilsson.``
    Mín fyrirspurn gengur út á það hvort hér sé á einhvern hátt talað í umboði þingsins. Ef svo er ekki, hvort ekki sé að mati hæstv. forseta ástæða til að leiðrétta þessi ummæli, en ég vil vekja athygli á því að téður hv. þm. hefur ekki komið í salinn. Hann hefur ekki komið í þingsalinn að því er ég best fæ vitað meðan umræða um þessi mál hefur staðið. Frumvörp um breytingar á ÁTVR hafa verið til umræðu á Alþingi í nokkra daga án þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. Alþingis, hafi komið að þeirri umræðu, en gefur síðan yfirlýsingu af þessu tagi á ensku frá Brussel.
    Sér hæstv. forseti þingsins ekki eitthvað athugavert við þetta? Ef svo er, þá er hann beðinn að gera grein fyrir því.