Matvæli

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 15:10:48 (270)

[15:10]
     Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um matvæli á þskj. 15, 15. mál þingsins. Mig langar að segja það í upphafi að mér finnst það nokkurt ánægjuefni að þetta skuli vera fyrsta þingmálið sem ég fæ að mæla hér fyrir vegna þess að það var á árinu 1989 sem sett var af stað eða á laggirnar nefnd til þess að vinna að endurskoðun þessara laga að mínu frumkvæði sem heilbrrh. þá og fá síðan að fylgja málinu eftir hér enn sem ráðherra málaflokksins. Að vísu er það komið undir umhvrn. Hitt er kannski ekki alveg eins ánægjulegt að það skuli hafa dregist nokkuð að koma málinu í gegnum þingið og fá það lögfest því það er búið að leggja það fram á nokkrum þingum.
    Frv. þetta sem hér er mælt fyrir er nú lagt fram á Alþingi í fjórða sinn. Það var upphaflega lagt fram á 116. löggjafarþingi 1992--1993 og þá til kynningar og síðan á 117. löggjafarþingi 1993, í bæði skiptin af hálfu heilbr.- og trmrh. sem þá fór með yfirstjórn matvælamálefna.
    Þann 1. júní sl. færðust málefni er varða hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og þar með talin matvæli yfir til umhvrn. frá heilbrrn. Umhvrh. lagði því frv. fram að nýju á 118. löggjafarþingi með nokkrum breytingum sem gerðar höfðu verið á því með hliðsjón af umsögnum sem bárust til heilbr.- og trn. þegar málið var til meðferðar hjá nefndinni á 117. löggjafarþingi auk þess sem gerðar höfðu verið nauðsynlegar breytingar á frv. með tilliti til þess að umhvrh. fer nú með yfirstjórn málaflokksins.
    Tilgangur frv. er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi fyrir neytendur eftir því sem tök eru á. Frv. tekur til framleiðslu og dreifingar matvæla. Kveðið er á um að matvæli skuli vera þannig gerð og fram boðin að þau valdi ekki heilsutjóni og viðskipti með þau blekki ekki á neinn hátt. Brýnt er að frv. nái fram að ganga nú á vorþingi, enda um að ræða frv. er tengist samningi um Evrópskt efnahagssvæði að hluta til er tók gildi 1. jan. 1994.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um aðdraganda frv. eða um þróun matvælalöggjafar og matvælaeftirlits en vísa í staðinn í framsöguræðu fyrrv. hæstv. heilbr.- og trmrh., Guðmundar Árna Stefánssonar, er hann mælti fyrir frv., eins og áður hefur komið fram, á 117. löggjafarþingi þann 21. okt. 1993, stjfrv., 85. mál á þskj. 88, svo og framsöguræðu þá starfandi hæstv. umhvrh. Sighvats Björgvinssonar er hann mælti á ný fyrir frv. á 118. löggjafarþingi þann 7. febr. sl. sem var stjfrv., 331. mál þess þings á þskj. 505. Mig langar til þess að benda hv. þm. sem sæti eiga í hv. umhvn., sem fær þetta mál til meðferðar, á þær ítarlegu framsöguræður sem voru um þetta frv. efnislega óbreytt.
    Ég vil á hinn bóginn gera í stuttu máli grein fyrir helstu breytingum sem frv. felur í sér frá gildandi lögum um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum.
    1. Yfirstjórn matvælalöggjafar er samræmd og eftirlitið verður á vegum þriggja ráðuneyta og stofnana þeirra. Á sama hátt er lagður grunnur að samræmingu á starfsemi eftirlitsaðila sem miðar að því að koma í veg fyrir skörun verkefna. Sérstakt samstarfsráð skipað fulltrúum Hollustuverndar ríkisins, Fiskistofu og yfirdýralækni mun annast samræmingu fyrirmæla og eftirlits.
    2. Samkvæmt frv. verða gjaldskrárheimildir þær sömu fyrir allar ríkisstofnanir sem tilgreindar eru sem eftirlitsaðilar í lögunum og munu þær byggjast á ákvörðun laga nr. 81/1988, um Hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum.
    Samræming eftirlits á að tryggja m.a. að sérhver eftirlitsskyldur aðili greiði ekki eftirlitsgjöld nema til eins opinbers eftirlitsaðila.
    3. Heimildir til lögboðins eftirlitsaðila til afskipta eru samræmdar, enda nauðsynlegt að þessir aðilar starfi á grundvelli sömu heimilda og hafi samráð um aðgerðir. Valdsvið og þvingunarúrræði eru þannig samræmd. Sama gildir um málsmeðferð, úrskurð og viðurlög og skiptir ekki máli hvort eftirlitsstofnun starfar á vegum umhvrn., landbrn. eða sjútvrn.
    4. Meðferð matvæla á einkaheimilum fellur utan laganna nema um sé að ræða framleiðslu matvæla til dreifingar utan heimilis.
    5. Sett eru ákvæði um þekkingu og fræðslu starfsmanna í matvælaiðnaði og matvæladreifingu með tilliti til þess að framleiðendur og dreifendur beri ábyrgð á eigin vörum og að vandað sé til framleiðslu og meðferðar. Jafnframt er það nýmæli að heimildir eftirlitsaðila til að gera kröfur um heilsufarsskoðun starfsfólks sem starfar við framleiðslu og dreifingu matvæla eru samræmdar.
    6. Sett eru ákvæði um sérfæðu sem ætluð er tilteknum hópum, svo sem vegna aldurs, sjúkdóma eða af öðrum ástæðum og er það í samræmi við ítarlega löggjöf Evrópusambandsríkjanna þar að lútandi.
    7. Sett eru skýr ákvæði um ábyrgð eigenda eða umráðenda flutningstækja sem flytja matvælin en slík ákvæði eru mjög mikilvæg þegar matvælin eru flutt langar leiðir, svo sem með vöruflutningabifreiðum.
    8. Ákvæði um umbúðamerkingar eru ítarlegri og taka mið af þeirri áherslu sem lögð er á góðar umbúðamerkingar í löggjöf annarra ríkja og má nefna ríki Evrópusambandsins og Bandaríkjanna í því sambandi.
    9. Ítarlegri ákvæði eru um fræðsu til almennings en mikilvægt er talið að auka þekkingu og skilning neytenda og hollustu og næringargildi matvæla.
  10. Ákvæði eru um tilkynningarskyldu þegar ný framleiðslutækni er tekin í notkun þar sem um er að ræða umfangsmikla breytingu á framleiðsluháttum sem geta haft áhrif á öryggi eða hollustu matvæla, t.d. geislun matvæla.
  11. Í frv. er lögð áhersla á að komið verði á innra eftirliti framleiðenda og dreifenda auk faggildingu eftirlitsaðila.
    Þetta eru þau áhersluatriði sem ástæða er talin til að benda sérstaklega á í umræðunni um breytingar frá gildandi lögum.
    Í tengslum við endurskoðun búvörulaga, sem nú fer fram vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og breytingar á lögum um innflutning á búvöru, sem kemur væntanlega ekki til umræðu fyrr en á morgun í tengslum við frv. um GATT-samkomulagið svokallaða, hefur orðið að samkomulagi milli forsrn., landbrn. og umhvrn. að leggja til breytingu á frv. til laga um matvæli til þess að skapa möguleika á að stemma stigu við dreifingu matvæla sem innihalda óæskileg aðskotaefni, þ.e. hormóna eða lyfjaleifar. Mögulegt var að taka þetta inn í því frv. en talið var eðlilegra þar sem frv. til laga um matvæli er til meðferðar á sama tíma í þinginu að þetta heyrði undir þau lagaákvæði. Þar er því lagt til að í 17. gr. frv. eins og það liggur nú fyrir og er mælt fyrir verði bætt nýrri málsgrein er verði 2. mgr. og orðist svo:
    ,,Óheimilt verði að framleiða og dreifa matvælum sem innihalda hormóna eða lyfjaleifar.``
    Þess hefur verið farið á leit með bréfi við hv. umhvn. sem fær frv. vonandi til meðferðar að áðurnefnd brtt. verði tekin til umfjöllunar í nefndinni og afgreiðslu en ég taldi rétt að gera hér sérstaklega grein fyrir henni þar sem hér er um stefnumótandi atriði að ræða og kemur til eftir að frv. er samið eins og það liggur hér fyrir.
    Hæstv. forseti. Ég hef farið nokkrum orðum um frv. til laga um matvæli og leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og meðferðar í hv. umhvn. Jafnframt beini ég því til nefndarinnar hvort ekki megi spara tíma og hvort ekki sé óþarft að leitað verði umsagna um frv. þar sem þeirra var í raun leitað á vegum heilbr.- og trn. þegar frv. var til umræðu á 117. löggjafarþingi og þær umsagnir eru fyrirliggjandi. Ég tel að ástæðan fyrir því að frv. náði ekki fram að ganga þá hafi fyrst og fremst verið sú að til stóð að flytja málaflokkinn milli ráðuneyta fremur en að það hafi verið einhver ágreiningur um efnisatriði frv. Á síðasta þingi kom málið það seint fram að ekki reyndist mögulegt að taka málið fyrir í hv. umhvn., m.a. vegna annarra þingmála.
    Ég endurtek að ég tel mjög brýnt að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi Alþingi enda um að ræða að frv. tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er tók gildi um áramótin 1993--1994 eins og áður hefur komið fram. Þetta tengist líka eins og ég hef gert stuttlega grein fyrir væntanlegum lagabreytingum sem tengjast GATT-samningnum. Enda þótt nú sé vissulega nýtt þing og nýir þingmenn eru upplýsingar frá fyrri meðferð málsins í þinginu fyrirliggjandi svo vonandi þarf ekki að taka mjög langan tíma að afgreiða málið.