Matvæli

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 15:20:46 (271)


[15:20]
     Ágúst Einarsson :
    Herra forseti. Ég tel rétt að lýsa ánægju minni yfir að komið sé fram frv. að heildarlöggjöf, rammalöggjöf um málefni sem hæstv. landbrh. og umhvrh. gerði hér grein fyrir. Þó vildi ég gera nokkur atriði að umtalsefni.
    Það er í fyrsta lagi varðandi 7. gr. frv. Þar er rætt um að sjútvrh. fari með yfirstjórn mála er varða meðferð, flutning, geymslu og vinnslu sjávarafurða vegna útflutnings þeirra. Fiskistofa er sjútvrh. til ráðgjafar um þessi mál. Vikið er að því í skýringu að þarna er um þrengingu frá núgildandi lögum að ræða og ég velti því upp hvort ekki væri rétt að þessi sami ráðherra færi með yfirumsjón hvað viðvíkur innanlandsneyslu, svo og innflutning þannig að samræmi væri þá við 6. gr. frv. þar sem landbrh. er falið forræði á tilteknum málum sem tengjast landbúnaðarafurðum.
    Í skýringum við 23. gr. er líka getið um að Fiskistofa hafi eftirlit með innanlandsneyslu. Ástæða þess að ég geri þetta að umtalsefni er að fjölmargar fiskvinnslustöðvar eru bæði í útflutningi eða vinna til útflutnings og fyrir innanlandsmarkað og það er vaxandi. Það væri þá til athugunar að hafa samræmt eftirlit á þessum þætti og þá undir forræði Fiskistofu sem hefur það í reynd.
    Annað atriði sem ég vil vekja athygli á er í 23. gr. þar sem talað er um löggildingu annarra eftirlitsaðila. Þar er heimilt að ákveða með reglugerð að opinberir eftirlitsaðilar hljóti faggildingu og sama á við aðra aðila sem kunna að taka að sér eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði. Við þurfum að hafa í huga að opinber eftirlitsiðnaður er orðinn nokkuð umfangsmikill og í fjölmörgum tilvikum er um að ræða þætti sem tengjast mjög markaðsmálum almennt nú orðið í heiminum. Ég nefni þætti eins og áhættugreiningu og það að vinna eftir ISO-stöðlum sem er orðinn gæðastimpill í framleiðslu á vörum sem eru ætlaðar til sölu á heimsmarkaði. Það er því vitaskuld mjög mikilvægt að eftirlit með þessum þáttum sé gott og þessi iðnaður mun örugglega vaxa á næstu árum. Þá er mjög mikilvægt að fyllsta aðhalds verði gætt og samkeppni verði milli þeirra eftirlitsaðila sem veita þessa þjónustu. Meginhlutverk hins opinbera yrði þá að hafa eftirlit með eftirlitsaðilunum á grundvelli þessara laga og annarra sem löggjafinn setur.
    Síðasta atriðið sem ég vildi gera að umtalsefni er í X. kafla um rekstrarkostnað og gjaldtöku. Hér er talað um eðlilega að hægt sé að leggja á gjald fyrir þann kostnað sem hið opinbera verður fyrir vegna matvælaeftirlits. Mér finnst ákvæðið nokkuð óljóst hvernig slíkt gjald verði innheimt, út frá hvaða forsendum er gengið og hvernig þetta verði framkvæmt. Í skýringum með frv. er getið sérstaklega um að menn hafi reynt fyrir sér með útfærslu en ekki náð samkomulagi um það. Ég held að það sé hins vegar mjög nauðsynlegt áður en málið verður afgreitt að það liggi skýrt fyrir með hvaða hætti gjaldtöku í þessum mikilvæga málaflokki verður háttað.