Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 15:56:52 (276)


[15:56]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það var við því að búast að hér gætu orðið nokkur ræðuhöld þegar hlutverkum hefur skipast með þeim hætti sem raun ber vitni að hæstv. fyrrv utanrrh. er nú kominn með frjálsar hendur í stjórnarandstöðu en andstæðingur hans frá fyrri þingum, hv. fyrrv. þm. Páll Pétursson, núv. hv. þm. og hæstv. félmrh., er kominn í það hlutverk sem hann fer hér með. (Gripið fram í.) Hæstv. félmrh. er að sönnu áfram þingmaður eins og ég tók hér fram en hann var áður fyrrv. hv. óbreyttur þingmaður. Getum við ekki verið sammála um það? Og sjálfsagt er ekki séð fyrir endann á slíkum upptektum, þ.e. að hæstv. fyrrv. utanrrh., hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafi gaman af því að taka menn hér upp og fara yfir ummæli þeirra o.s.frv. og við getum sjálfsagt skemmt okkur við það hérna nokkur þing.
    Ég efast að vísu um að það færi okkur mikið nær kjarna málsins og staðreyndin er sú, eins og ég veit að hv. þm. áttar sig á, að það þýðir ósköp lítið að ræða stjórnmálin í þáskildagatíð, ef, ef, ef. Með hverjum degi og hverjum mánuði sem líður fjær þeim tíma sem menn voru að deila um tiltekinn milliríkjasamning, og sýndist sitt hverjum, þjónar það minni tilgangi.
    Það er auðvitað skondið að heyra hæstv. ráðherra mæla hér fyrir frv. m.a. með því að lesa upp gagnrýni sem hann hafði uppi á frv. sem stjórnarandstæðingur fyrir ekki löngu síðan, en að sama skapi ætti hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. fyrrv. utanrrh., að átta sig á því að það væri líka hægt að fara í hans ræður. Og ætli það sé ekki þannig að menn hafi sagt ýmislegt í hita leiksins á báða bóga sem geti átt eftir að verka næsta fáránlegt? Ég leyfi mér t.d. að ætla að það mætti draga fram ýmis ummæli hæstv. þáv. utanrrh. þegar hann var að gylla þennan EES-samning og lofa hér milljörðum og lofa hér þúsundum nýrra starfa sem ekki stæðust dóm reynslunnar a.m.k. enn sem komið er. Ætli það hafi gerst þau undur í íslenskum sjávarútvegi á grundvelli þessa samnings? Ætli störfum hafi fjölgað með þeim ógnarhraða sem hér átti að gerast og ætli allir milljarðarnir 7, eins og einu sinni var sagt, hafi skilað sér í kassann? Ég efast nú um það. Þannig að kannski munu báðir aðilar átta sig á því þegar frá líður að rökræður af því tagi skila mönnum ekki miklu, ekki efnislega en þær geta haft talsvert skemmtanagildi, eins og hér bar óneitanlega á áðan, með því að taka menn upp í gömlum ræðum o.s.frv.
    Það má segja að þetta mál sé tvíþætt. Það eru annars vegar þessi tilteknu réttindi sem og hluti af samningagerðinni um EES sem hér er á ferðinni og hins vegar er það auðvitað allt móverkið utan um þetta mál. Maður staldrar kannski meira við það þegar maður fer að lesa frv. hversu hægt er að gera tiltölulega einfalda hluti flókna því að efnislega á þetta að snúast um að tryggja fólki jafnan rétt til starfa, atvinnu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Maður skyldi ætla að hægt væri að gera það án þess að það þyrfti að smíða heilt stofnanamóverk utan um málið.
    Ef menn líta inn í frv. er mikið um alls konar apparöt sem eiga að tryggja framkvæmd málsins og þarna er á ferðinni mikið af nefndum og ráðum. Til að mynda er sett upp heilmikið kerfi til að tryggja að allar stöður sem eru lausar séu auglýstar og stjórnartíðindin á þessum bæ verða ábyggilega myndarleg útgáfa þegar fram líða stundir. Það á að setja upp þjónustuskrifstofur í hverju einasta ríki til að auglýsa lausar stöður þar sem hugsanlegur möguleiki er á að ríkisborgarar allra EES-ríkjanna geti tekið að sér einhver störf einhvers staðar á svæðinu.
    Í III. bálki í 19. grein er lýst þeirri hugsun sem liggur á bak við og hún er sú, sem ég hygg að hæstv. félmrh. sem þáv. stjórnarandstöðuþingmaður hafi verið að koma inn á þegar hann ræddi um atvinnustigið, að hugsun málsins er sú að koma á jafnvægi á vinnumarkaðnum yfir allt Evrópska efnahagssvæðið. Það er beinlínis tekið fram í 2. tölul. 19. gr. að EES-ríkin skuli ásamt fastanefnd EFTA kanna öll tiltæk ráð til að veita ríkisborgurum aðildarríkjanna forgang þegar ráðið er í lausar stöður til að leitast við að koma á jafnvægi milli framboðs og umsókna um störf innan EES og þau skuli beita öllum tiltækum ráðum í því skyni. Það er því ekki eins fjarlægt og það hljómar kannski að markvisst sé verið að stefna að því að jafna út atvinnu innan alls svæðisins. Það er beinlínis yfirlýstur tilgangur að þessu leyti.
    Ein af nefndunum sem á að starfa þarna fyrir utan þjónustuskrifstofurnar í EFTA-ríkjunum er Evrópska samráðsskrifstofan og hún á að samræma ráðstafanir vegna atvinnutækifæra og atvinnuumsókna og þar á að starfa ráðgjafarnefndin, sbr. 24. gr., og síðan á að starfa umsjónarnefndin, sbr. 32. gr. þannig að nóg verður af nefndunum sem verða að fást við þetta. Í heildina tekið er þetta skilgetið afkvæmi þeirrar hugsunar sem á bak við þetta miðstýringarapparat allt saman og pappírsflóð er. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil hæstv. félmrh. vel þó að hann hefði fá orð um það þegar hann var að tíunda nauðsyn þess að afgreiða þetta frv. og valdi því í leiðinni heldur háðulegar nafngiftir eins og eftirlegukind, póst frá Brussel, eitthvað sem við yrðum að kyngja og ekki væri mikill fengur að.
    Það er upplýst að verið sé að rembast við það í þriðja sinn að koma málinu í gegn og ég leyfi mér nú að spyrja: Mundi það þá breyta öllu þó að það þyrfti eina tilraun enn? Er þetta eitthvað sem mikið liggur á að drífa í gegnum þingið á fáeinum vordögum? Það er greinilega farið að bera talsvert á því nú þegar að áhugi manna á því að fullgilda hina einstöku hluta Evrópuréttarins er talsvert mismunandi eftir því hvað á í hlut. Hér eru mál að koma sem engin sérstök áhersla hefur verið lögð á undanfarið, þau eru lögð fram af gömlum vana og ekki ber á því að það sé neitt stórkostlegt sem muni gerast þó að það taki tímann sinn að koma þessu fram. Að minnsta kosti hefur ekki verið kært enn þá svo að mér sé kunnugt um vegna þessa máls en það á ekki við um önnur tilvik eins og frægt varð hér m.a. áðan þegar upplýst var um heitstrengingar hv. þm. Vilhjálms Egilssonar gagnvart því að ekki skyldi ljúka þingstörfum fyrr en brennivínsmál ríkisstjórnarinnar hefðu náð fram að ganga. (Gripið fram í.) Það er að vísu alveg hárrétt að hv. þm. hefur fengið eitthvað gott að borða úti í Brussel en það breytti ekki því að greinilega er mismunandi mikil áhersla lögð á hin einstöku mál.
    Ætli það sé ekki líka þannig að það sé líka misjafnt hversu alvarlega menn taka þessa pappíra í Evrópusambandinu sjálfu og úti á meginlandi Evrópu og upplýst hefur verið um að Ítalir eigi talsvert óunnið enn þá við það að koma öllum Evrópuréttinum í lög hjá sér. Þar hafa jafnvel heyrst tölur eins og þær að ekki sé nema um þriðjungur allra tilskipana Evrópusambandsins sem þar sé orðinn að veruleika. Ég veit ekki hvort það væri nokkur stórkostlegur héraðsbrestur þó að málið biði og kannski yrðu þá reglugerðirnar orðnar þrjár sem þarf að taka hér inn í löggjöfina, óbreyttar, eða synja þeim eins og hæstv. félmrh. upplýsti.
    Ég hugsa að alveg sé óhætt að viðurkenna að áhrifin af afgreiðslu EES-samningsins enn sem komið er eru á margan hátt minni en menn reiknuðu með, ég tala nú ekki um sem þeir tíunduðu í hita leiksins að gætu orðið en þau eru það held ég í báðar áttir. Ég sé ekki annað en þegar upp er staðið sé meginniðurstaðan af gildi samningsins á fyrstu árunum eða fyrstu missirunum að hann hafi haft minni breytingar í för með sér, sú þróun hafi öll orðið mun hægari en menn gátu ætlað, bæði hvað það varðar að við Íslendingar höfum orðið fyrir meiri áhrifum utan að frá, en líka hvað hitt snertir að þetta virðist ekki hafa breytt neinu sem miklu máli skiptir varðandi okkar viðskipti og samskipti út á við. Ég hygg því að kannski sé eðlilegra að við ræðum þetta undir þeim formerkjum en vera að taka hvert annað upp í því hvort þessi eða hinn hafi haft meira eða minna rangt fyrir sér og sé í breyttu hlutverki eins og hæstv. núv. félmrh. kominn í algerlega mótsögn við sjálfan sig án þess að það sé hlutskipti mitt að verja hann. Hæstv. félmrh. er örugglega fullkomlega fær um það sjálfur að standa fyrir máli sínu ef hann er að fara í skylmingar við hæstv. fyrrv. utanrrh. en það læt ég þeim þá eftir.