Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:34:07 (285)


[16:34]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég beið eftir því að hv. 9. þm. Reykv. legði það til að við færum að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég legg það ekki til af því að mér finnst það óskynsamlegt úr því sem komið er. Efnahagslífið er búið að laga sig að Evrópsku efnahagssvæði. ( ÖS: Hvað með stjórnarskrárbrot?) Stjórnarskráin er jafnbrotin og hún var fyrir tveim árum síðan og við verðum að búa við það. Alþingi ákvað það að við skyldum gerast aðilar og við það verðum við að búa þangað til mál skipast öðruvísi.
    Nú veit ég að hv. 9. þm. Reykv. er dálítill hentistefnumaður einstöku sinnum í pólitík en ég á ekki von á því að hann komi með þáltill. í vetur um að við göngum úr Evrópsku efnahagssvæði og ef hann kæmi með hana þá mundi ég ekki styðja hana, ekki vegna þess að ég sé sérstakur stuðningsmaður Evrópsks efnahagssvæðis, en við erum komnir þangað og þar verðum við að dúsa.