Ummæli félagsmálaráðherra um EES-samninginn

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 13:39:59 (307)


[13:39]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Ég ítreka að hv. þm. og núv. hæstv. félmrh. gerði það af einni af ástæðum sínum til að rökstyðja þá afstöðu sína að hann greiddi atkvæði gegn þessum samningi að hann teldi að eins og málið var fram borið bryti það í bága við stjórnarskrá. Ef ég man rétt vísaði hann til heitis síns í því sambandi og þess vegna er ekki hægt að saka hann um það að hafa brotið gegn sannfæringu sinni ellegar gegn stjórnarskránni. Hann greiddi atkvæði gegn samningnum sem hann taldi brjóta í bága við stjórnarskrá.
    Í þinginu hefur oft komið fyrir áður að menn hafa lýst því yfir að einstök atriði brytu í bága við stjórnarskrá að þeirra mati, það hef ég heyrt oft í umræðum. Það felur ekki í sér né fellir þá skyldu á þá þingmenn að þeir leitist síðan æ og síð við að koma þeirri gjörð af þinginu. Ríkur meiri hluti þingsins axlaði þá ábyrgð að málið bryti ekki í bága við stjórnarskrá. Það er ekki við hæstv. félmrh. að sakast í þeim efnum þannig að ég sé ekki að málið beri að með réttum hætti hér.