Ummæli félagsmálaráðherra um EES-samninginn

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 13:41:10 (308)


[13:41]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Nú er ótvírætt samkvæmt stjórnskipun íslenska lýðveldisins að það er hvorki Alþingi né forsrh. sem kveður upp úr með það hvort tiltekin lög brjóti í bága við stjórnarskrá eða ekki. Við erum með sjálfstætt dómsvald sem úrskurðar í því máli. Málið snýst þess vegna ekki um það, hæstv. forsrh.
    Eins og ég skil þetta mál samkvæmt yfirlýsingum hæstv. félmrh. er hann sannfærður um það að með því að framkvæma EES-samninginn sé hann og ráðuneyti hans að brjóta gegn stjórnarskránni. Sé félmrh. ótvírætt með þær yfirlýsingar í þingsölum að stjórnvaldsathöfn hans og ráðuneytis hans brjóti gegn stjórnarskránni hlýtur það að vera viðfangsefni hæstv. forsrh. og vekja upp þá spurningu hvort ráðherra geti starfað ef hann lýsir því yfir í þingsalnum að stjórnvaldsathöfn hans brjóti í bága við stjórnarskrána. Það kemur ekkert málinu við hvort svo sé samkvæmt úrskurði Hæstaréttar eður ei heldur snertir það þá grundvallarreglu hvort framkvæmdarvaldshafi geti starfað eðlilega eftir að hafa lýst því yfir við þjóðþingið að stjórnvaldsathafnir hans brjóti í bág við stjórnarskrána. Þess vegna held ég að þetta mál sé ótvírætt þess eðlis að það þurfi að skoðast nánar og er nú gott að hæstv. félmrh. er kominn í þingsalinn og óhjákvæmilegt að hann geri þinginu nánari grein fyrir yfirlýsingum sínum vegna þess að skoðun mín er sú að ráðherra sem hefur lýst því yfir á þingi að stjórnvaldsathöfn hans brjóti í bág við stjórnarskrána á ekki nema tvo kosti: Annaðhvort að breyta stjórnvaldsathöfninni eða segja af sér. Það er ekki hægt fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands að vera að framkvæma athafnir sem hann hefur lýst yfir á Alþingi að brjóti gegn stjórnarskránni.