Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:00:33 (316)

[15:00]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. sagði að ég hefði ekki gert nægilega góða grein fyrir málinu og hann ætlaði að bæta úr því. Það gekk ekki vel. Fyrir utan þessa ræðu um landbúnaðarmálin sem hann hefur oft flutt og er ágæt og ég kann orðið nokkurn veginn utan að, þá var allt í skötulíki varðandi málið sjálft og hann

virtist ekki hafa lesið málið og gerði sig sekan um þekkingarleysi í grundvallaratriðum frv. Hann sagðist hafa fundið einhver tollnúmer sem færu upp fyrir tollabindingarnar. Ef það mundi nú gerast, hv. þm., þá dettur þetta dautt niður sjálfkrafa þannig að það skiptir ekki nokkru máli. Síðan segir þingmaðurinn að hæstv. landbrh. hafi geðþóttavald til að úthluta þessum lágmarksaðgangi. Landbrh. er skyldugur til að veita öllum sem sækja um innflutningsleyfi undir þessu skilyrði. Ef það koma fleiri að sækja um þá ræður hlutkesti. Hvar er geðþóttaákvörðunin? Hvar er spillingin sem fyrrv. ráðherrann talaði um og ætti nú að þekkja? Hann virðist ekki þekkja þetta.
    Hann nefndi síðan Evrópubandalagið, að þar væri málum allt öðruvísi farið en í hinni hneykslanlegu meðferð okkar. En Evrópusambandið miðar við áþekka forskrift og við gerum, mismun á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði, innansvæðisverðið, plús 20% en við erum með plús 30% vegna þess að við erum að hverfa frá banni yfir í heimildir sem þeir eru ekki að gera. Hv. þm. virtist ekki einu sinni vita þetta.
    Hann sagði síðan að eitt hneykslið væri í því að ákvarða landbrh. forræði málsins. Hann er nýbúinn að vera að hneykslast á hæstv. félmrh. fyrir að skipta um skoðun milli þess að vera í stjórn og stjórnarandstöðu. Hann samþykkti sjálfur þá þáltill. sem ég las upp um að forræðið skyldi vera hjá landbrh. Svo er hann að veitast að hæstv. félmrh. fyrir það að skipta um skoðun í máli þessu.
    Það virtist vera að hv. þm. hefði alls ekki kynnt sér málið nægjanlega og auðvitað fagna ég því ef hann fær tækifæri til þess í hv. efh.- og viðskn. En þetta eru bara nokkur atriði sem ég tel upp í stuttu andsvari þar sem ekki stendur steinn yfir steini í skýringum hv. þm.