Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:07:16 (319)


[15:07]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var samstaða í ríkisstjórninni um GATT-tilboðið á sínum tíma. Tollígildin eru ekki spurning um pólitíska samstöðu. Þau eru einfaldlega spurning um reikning. Við setjum upp þessi tollígildi og þau endurspegla það að verðmunurinn er gríðarlega mikill á milli verðlags innan lands og innflutningsverðs erlendis frá. Tollígildin eru því heimildarákvæði. Það er allt annað mál að leggja fram slíka útreikninga en að taka pólitíska ákvörðun um það hvaða tolla menn ætla að leggja á og um það hefur ekki verið samkomulag.
    Að því er varðar úthlutun á kvótum þá er rétt að hér komi fram eitt atriði enn að því er snýr að völdum landbrh. í því efni. Það er ekki bara að landbrh. úthluti kvótum, þótt hlutkesti ráði ef þeir eru fleiri en einn. Málið ræðst nokkuð af framkvæmdinni og ræðst af því hvort um er að ræða örlítið magn eða hvort það er ríkjandi markaðsaðgangur sem verið hefur og getur verið umtalsverður. Það er einnig á hans valdi að haga þessu að því er varðar tímabilaskipti. Það var alltaf meginhugsun í gamla framsóknarkerfinu að hugsa sem svo: Það má kannski leyfa einhvern innflutning ef sannað er af hálfu Framleiðsluráðs landbúnaðarins að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn. Hugsunin var ekki um samkeppni heldur að útiloka samkeppni.
    Það er ástæða til að ætla í ljósi reynslu að þeir séu enn við sama heygarðshornið.