Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 15:42:58 (321)


[15:42]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er vegna þess sem hv. þm. spurði um og eðlilegt að um sé spurt varðandi lágmarksmarkaðsaðganginn vegna þess að mér skilst að það hafi stangast á upplýsingar sem ég gaf í minni tölu í upphafi og það sem sérfræðingar á fundi þingflokks Alþb. í morgun sögðu. Það sem kom fram í minni ræðu er hið rétta í málinu að það er ekki gert ráð fyrir því að 32% tollarnir lækki.
    Varðandi tollabindingarnar og verðbólguvernd í þeim þá er því til að svara að tollabindingarnar eru alþjóðleg skuldbinding í SDR eins og nefnt var en tollurinn er hinn innflutti tollur. Við þurfum hins vegar ekki endilega að gera því skóna, eins og er jafnan gert, að hin erlenda tala taki ekki verðbreytingum með sama hætti og okkar og ég býst við því að reynslan undanfarin ár sýni að verðbreytingar séu svipaðar, jafnvel minni hér á landi, en svo er svigrúm að mæta því með lagasetningu innan lands.