Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 17:42:02 (337)


[17:42]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af upphafsorðum hæstv. ráðherra vil ég segja það að þó að ég sé að spyrja þessarar spurningar þá er það ekki endilega mín skoðun að það sé rétt og eðlilegt að allar efnislegar ákvarðanir í þessum málum séu í höndum landbrh. sem í raun og sanni heyra undir tvö ráðuneyti í það minnsta, landbrn. og ekki síður fjmrn. að því er varðar tollamálin. En ég vildi hafa þetta á hreinu, ekki síst nú þegar ljóst er að landbrh. er ekki öruggur á því hvað 4. gr. felur í sér, þá er full ástæða til þess að hann kynni sér það. Þá vitna ég í því sambandi til þess að í þeirri brtt. sem kom frá utanrmn. á síðasta þingi var verið að tala um, og ég hef ekki annan skilning á því heldur en var þá, að landbrh. hefði forræði um allar efnislegar ákvarðanir í þessu máli. Hvað er verið að undanskilja hérna? Mér skilst á svörum hæstv. ráðherra að hann sé ekki alveg öruggur á því þannig að það er ástæða til að kynna sér það. En ég undirstrika að ég er ekki endilega sammála því að þetta mál eigi alfarið að heyra undir landbrh. Þvert á móti. Við erum að fjalla hér líka um tollamál þannig að mér finnst það eðlilegur hlutur að fjmrh. hafi eitthvað um það að segja.