Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:05:18 (357)


[14:05]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka hæstv. umhvrh. fyrir að skapa aðstæður til þess að umræða héldi áfram um þessi mál eftir að hv. 4. þm. Austurl. væri kominn til þings á ný. Ég tel að það sem hann hafði um þetta að segja skipti mjög miklu máli í þessu samhengi og ég tel ástæðu til að þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hann skyldi greiða þannig fyrir umræðunni. Í öðru lagi tel ég ástæðu til að þakka fyrir þá ræðu sem hv. 4. þm. Austurl. flutti áðan og skýrði þessi mál allvel en það er ekki svo að Alþingi komi núna að þessum málum eða málum af þessum toga í fyrsta sinn. Það hefur áður gerst.
    Ég kem hér upp, hæstv. forseti, til þess að vekja athygli á því að annað ráðuneyti og önnur þingnefnd hafa fjallað um nákvæmlega þessi mál. Mér virðist að það sé ótrúlega lítið samstarf á milli ráðuneyta að því er varðar mál af þeim toga sem við erum hér að tala um, þ.e. möguleika á erfðabreytingum lífvera yfirleitt.
    Tilefni þessara orða minna er það að 22. febr. sl. kallaði ég sem formaður iðnn. á fund hv. iðnn. sérfræðing frá iðnrn., Ástu Valdimarsdóttur lögfræðing, sem er formaður nefndar sem fjallaði sérstaklega um einkaleyfi á sviði líftækni og einkaleyfaveitingar á sviði líftækni og m.a. sérstaklega að því er varðar örverur. Ásta Valdimarsdóttir greindi okkur frá því að hún hefði þá um nokkurt skeið haft starfandi hóp í þessu máli og hún gerði ráð fyrir því að hópurinn skilaði áliti eftir skamman tíma. Mig minnir að það hafi átt að gerast í aprílmánuði. Rétt er að geta þess að það var hv. þáv. þm. Kristín Einarsdóttir sem hafði forustu um að iðnn. tók málið fyrir.
    Ásta Valdimarsdóttir greindi jafnframt frá því að hún mundi senda iðnn. skýrsluna strax og hún væri tilbúin. Nú hefur iðnn. ekki fengið þessa skýrslu en ég aflaði mér upplýsinga um það áðan að nefndin hefur lokið störfum. Sú nefnd, sem fjallar um einkaleyfi á sviði líftækni, hefur lokið störfum og Ásta Valdimarsdóttir sagði mér að skýrslan yrði send hv. iðnn. eða iðnaðarnefndarmönnum núna á næstunni að minni beiðni. Það er út af fyrir sig allt á sínum stað. Hitt er kannski þó aðalatriðið að menn viti hver af öðrum og að hv. umhvn. fari yfir þetta mál líka. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan að þetta er eitt allra stærsta mál sem þingið er að fjalla um og það væri hrapallegt ef þetta mál yrði afgreitt á þessu stutta vorþingi án þess að hver einasti þm. vissi hvað hann væri að gera, hver einasti, ekki bara þeir sem eru í einhverjum nefndum, heldur allir viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Hérna er verið að blanda sér í úrslitarök lífríkisins á þann hátt sem við höfum til þessa ekki talið að við í þessum sal hefðum húsbóndavald yfir. Ég tel þess vegna að inn í umræðuna eigi að kalla alla aðila, ekki aðeins sérfræðinga og vísindamenn, sem er út af fyrir sig treystandi fyrir sínu sviði, en það þarf að kalla til fleiri aðila, svo sem menn sem hafa vélað um siðfræðileg grundvallarrök en það eru þau sem verið er að takast á um í þessu samhengi. Þetta er ekki skopmál, ekki gamanmál af neinu tagi, heldur er um að ræða eitt allra stærsta málið sem við höfum fjallað um. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að fara fram á það sem fyrrv. formaður iðnn. að hv. umhvn. kynni sér það sem gert var í iðnn. í málinu og að hvetja hæstv. umhvrh. til þess að hafa veður af því líka og jafnframt að kanna hvort ekki er verið að vinna að þessu á vegum margra annarra ráðuneyta. Ég sá t.d. fyrir nokkrum mánuðum þegar ég blaðaði í þeim gögnum, sem hv. 4. þm. Austurl. var að sýna hér áðan, að þar komu mjög margir aðilar að málum. Mér sýndist t.d. í þessari norrænu skýrslu, ef ég man rétt, að milli 10 og 20 aðilar kæmu að henni og að þeim niðurstöðum sem þar er um að ræða og hið sama er að segja um þá umræðu sem fram hefur farið um þessi mál í Noregi. Því hvet ég til að menn vandi sig í þessu máli og þess vegna kvaddi ég mér hér hljóðs, hæstv. forseti.