Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:22:05 (360)


[14:22]
     Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu umræður sem hafa spunnist um frv. það sem mælt var fyrir fyrir tveimur dögum en frestað umræðu vegna þess að nokkrir hv. þm. hafa greinilega haft vilja til að tjá sig um málið og þó sérstaklega að ósk eins þingmanns sem þá var ekki við og sjálfsagt að verða við því að hér færu fram ítarlegar umræður um þetta mikilvæga mál strax í upphafi. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því eins og hv. 4. þm. Austurl. að hér er um að ræða stórt mál sem þarf ítarlega umfjöllun. Þá erum við báðir að tala um efni málsins sem slíkt. Efni málsins í heild er afar stórt og víðfeðmt og tekur yfir margvíslega þætti í samfélagi okkar og lífríki. En spurningin er líka sú: Þurfum við ekki á því að halda með málefni af þessu tagi að um þau sé til einhver lagarammi? Jafnvel þó sá lagarammi sé ekki í upphafi alfullkominn vitum við að hann er náttúrlega ekki þar með óumbreytanlegur og að ekki sé hægt, meira að segja áður en langt um líður, að taka á nýjum þáttum þess lagaramma þegar reynsla hefur sagt okkur að nauðsyn sé á því. Nú er ég ekki að gera lítið úr því að farið sé ítarlega yfir þetta og lagasetningin strax í upphafi sé eins góð, eins nákvæm og samviskusamlega unnin og kostur er. Ég vil líka undirstrika þá skoðun mína að þingið eigi alla jafnan að taka sér þann tíma sem það telur sig þurfa til að afgreiða mál. Ég tel mig vera það mikinn, ja það er nú kannski sagt stundum á vondu máli ,,parlamentarista`` eða þingræðissinna að telja að löggjafarsamkoman eigi auðvitað að fjalla ítarlega um þau mál sem hér eru lögð fyrir. En segi þó aftur þetta sem ég sagði hér áðan að það getur verið nauðsyn á því að skapa lagaramma, það geta líka verið aðrar aðstæður sem knýja á okkur að gera það vegna þess að við höfum undirgengist einhverjar skuldbindingar að okkur sé nauðsynlegt að gera það og það er m.a. hluti af lagasetningunni hér sem var reyndar gerð grein fyrir bæði í framsöguræðunni og eins kemur ítrekað fram í greinargerðinni sjálfri að hluti af nauðsyn lagasetningarinnar auðvitað er vegna skuldbindinga sem við höfum undirgengist.
    Ég ætla ekki að gera það að neinu aðalmáli í þessu því ég held að málefnið sem slíkt sé það veigamikið að það eitt krefjist lagasetningarinnar. Eins og hv. 4. þm. Austurl. benti réttilega á þá er búið að fjalla allnokkuð um málið. Það hefur auðvitað verið í skoðun í stjórnarráðinu eða í ráðuneytum og eins og fram hefur komið í ræðum fleiri hv. þm. hjá fleiri ráðuneytum enda eðlilegt að efni af þessu tagi hljóti að vera til umræðu í iðnn. og ekki síður heilbr.- og trmrn. af því að hér er málefni sem varðar mjög starfsemi á heilbrigðisstofnunum og eðlilegt að það ráðuneyti fjalli einnig um málaflokk af þessu tagi.
    Ég tek undir það að nefndin gefi sér tíma til að skoða frv. vel og ítarlega og kalli til þá aðila sem nauðsynlegt er og afli sér þeirra gagna sem nauðsynleg eru. Þrátt fyrir það sem ég hef áður sagt um að þingið taki sér þann tíma sem það þarf bið ég um að það geri það líka með því hugarfari að það sé e.t.v. brýnt og málinu sjálfu efnislega til framdráttar að lagarammi sé til og að hann megi setja í því formi sem hér er lagt fram. Auðvitað getur þurft að gera á því breytingar og bæta inn í það þáttum sem nefndin kanna að verða sammála um.
    Við eigum auðvitað ekki almennt að taka upp erlendar forskriftir og gera þær að lögum okkar en þó hygg ég að mjög margt sé í löggjöf okkar sem sé alveg óháð nýgerðum, alþjóðlegum samningum, eða hvað við köllum þetta nú, samningum Íslands við aðrar þjóðir, sem hafa gerst á seinustu missirum að við höfum í gegnum tíðina tekið ákaflega margt upp úr löggjöf annars staðar frá þannig að það sé ekki upphafið á því verki hér eða nú. Í viðbót kemur svo þetta að hafa gerst aðilar að samningum, sem knýja á okkur að setja löggjöf, og við hljótum þá að taka mið af því sem gert er annars staðar í þeim löndum sem við höfum samið við. Ég bendi á það sem kom fram í framsöguræðu minni í fyrradag að sums staðar á Norðurlöndum hefur þegar verið sett löggjöf um þetta efni, bæði í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð. Í Finnlandi liggur frv. fyrir þinginu þar sem verið er að fjalla um mál af þessu sama tagi. Í öllum þeim tilvikum er tekið mið af þeim tilskipunum sem fylgja og eru viðaukar við EES-samninginn svokallaða og þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Þetta er sem sagt það sem bindur okkur nokkuð.
    Talandi um að nauðsyn sé að setja lagaramma vil ég benda á það sem sagt er hér í greinargerðinni að markmið frv. sé fyrst og fremst að vernda náttúru, vistkerfi, heilsu manna, dýra og plantna gegn óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera. Þetta er grunnurinn og rökin fyrir lagasetningunni. Það er það sem ég held að við þurfum að undirstrika og einnig hitt að starfsemi með erfðabreyttar lífverur á Íslandi er ekki mjög umfangsmikil enn sem komið er. En hún getur auðvitað orðið það og þá getum við gefið okkur tíma eins og hv. 4. þm. Austurl. benti einhvers staðar á að stæði að við ættum að bregðast við eftir því sem við gengjum götuna fram, að þegar við aukum starfsemi okkar á þessu sviði þá getur auðvitað þurft að bregðast við því með lagasetningu eða breytingum á gildandi lögum ef frv. verður að lögum sem við sjáum ekki fyrir í dag. Ég held að það sé út af fyrir sig eðlilegt að menn hafi það í huga líka strax í upphafi.
    Hv. 14. þm. Reykv. minnti okkur á umfjöllun Evrópuráðsins um málefni af þessu tagi. Ég hef sjálfur verið einn af sendinefndarmönnum Alþingis á þingi Evrópuráðsins í Strassborg og hef fylgst með því sem þar fer fram og hvernig þau samtök vinna. Þar er fyrst og fremst um að ræða umræðuvettvang eins og hér hefur komið fram. Það er ráðgefandi þing, umræðuvettvangur, en síðan fylgir ráðherraráðið þeim málum eftir sem þingið samþykkir og ráðherraráðið vill gera að sínum. En ég verð því miður að segja það út af spurningu hv. 14. þm. Reykv. að mér er ekki kunnugt um að þessi sáttmáli hafi verið samþykktur, a.m.k. ekki komið upp á borð mitt þann tíma sem ég hef setið í ráðuneytinu enda það ekki langur tími og get ég því ekki svarað spurningunni án þess að kanna það nánar. Auðvitað má segja um málið allt að ég kem að því sem hér liggur fyrir nánast tilbúnu eða undirbúnu af forvera mínum í embætti og það er álit ráðuneytisins að það sé brýnt að koma málinu fyrst og fremst til umfjöllunar en vonandi einnig til afgreiðslu svo skjótt sem þingið treystir sér til.
    Ég held að það sé líka rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., Gunnlaugi Sigmundssyni, að auðvitað er vísindamönnum e.t.v. ekki treystandi einum til að horfa á allar hliðar málanna, þ.e. þá kannski til siðferðisþáttarins sérstaklega vegna þess að þeir hafi oft meiri áhuga á því að fylgja sínum vísindum fram, sjá og sýna og sanna hvað þeir geta gert og er auðvitað mikilvægt en þá undirstrika ég aftur: Er ekki nauðsynlegt að við höfum lagaramma til að halda utan um þá starfsemi og geta brugðist við ef vísindamennirnir okkar eða annarra ætla sér ekki af?
    Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem komu fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni um umfjöllun um málið annars staðar. Sjálfsagt er að reyna að tína til þær upplýsingar sem kunna að liggja fyrir hjá þinginu nú þegar til þess að fjalla um í umhvn. sem fær frv. til meðhöndlunar.
    En það voru svo nokkrar spurningar frá hv. 5. þm. Suðurl. sem ég skal reyna að leitast við að svara eftir bestu getu þar sem tíminn hleypur hratt frá. En ég verð að öðru leyti að vísa sumum þeirra til nefndarinnar og að nefndin afli frekari upplýsinga um málin og málsmeðferðina. Eins og ég sagði áðan kem ég að málinu með tiltölulega stuttum fyrirvara og tek við því af hálfu forvera míns og þeirri vinnu sem unnin hefur verið í ráðuneytinu á undanförnum vikum, mánuðum og árum og ég hef ekki haft tíma til að fara ítarlega yfir eða setja mig nákvæmlega inn í. Þar var t.d. fyrst spurt um reglugerðarsetningu almennt. Vissulega er það svo að það er ekki góð latína að lög kveði á um það að þeim skuli síðan framfylgt með reglugerðum í nánast öllum atriðum, stórum og smáum. Ég hygg þó að oft og tíðum sé nauðsynlegt, ekki síst í flóknum málum eins og þessum, sem þurfa að taka mið af mörgum tæknilegum atriðum og lagasetningum sem þar að auki er byggt á. Við erum að yfirtaka að hluta til löggjöf annars staðar frá og starfsreglur frá öðrum þjóðum í gegnum þá samninga sem við höfum gerst aðilar að. Rétt til gamans vil ég nefna að ég átti nýlega fund með forsvarsmönnum Hollustuverndar ríkisins, sem sögðu mér að fyrir 4--5 árum, hefðu þeir haft ein lög til að fara eftir og úr þessum lögum hefðu verið samdar tvær eða þrjár reglugerðir, það var starfsvettvangur þeirra. Núna hygg ég að þeir þurfi að fara eftir að mig minnir 15 lögum og reglugerðum sem skipta tugum ef ekki hundruðum. Ég held jafnvel að þeir hafi nefnt að það væri á annað hundrað reglugerða sem þeir þyrftu að sýsla með. Það sýnir bara breytinguna sem hefur orðið í stjórnkerfi okkar á tiltölulega fáum árum.
    Hv. þm. spurði um leyfisveitingar í 19. gr. Ef þær hefðu verið gefnar út í einhverju EES-landi segir hér að þær jafngildi leyfi til markaðssetningar hér á landi og hvort ekki kunni að vera við allt aðrar aðstæður að búa hér. Þetta er út af fyrir sig tæknileg spurning sem ég tel að sé rétt að skoða því við getum þurft að taka tillit til þess að hér er við annað umhverfi að eiga en kann að vera í öðrum EES-löndum. Á móti kemur þá aftur hin lögfræðilega spurning: Hvað þýðir samningurinn sá hinn ágæti, EES-samningurinn, og hvað leggur hann okkur á herðar að þurfa að undirgangast án þess að geta brugðist við innlendum eða íslenskum aðstæðum? Þó er það svo að varðandi sum ákvæði samningsins hafa verið gerðir fyrirvarar. Það á t.d. við um GATT-samninginn sem við ræddum um í gær. Þar hafa verið gerðir fyrirvarar um t.d. heilbrigði dýra og plantna að um það mál gilda þó þrátt fyrir allt íslensk lög og íslenskar reglur.
    Þetta átti við um fleiri spurningar hjá hv. þm. um skyldu okkar og nauðsyn til þess að yfirtaka eða undirgangast eftirlit frá öðrum aðilum sem starfa á hinu Evrópska efnahagssvæði eða í öðrum löndum. Það held ég að hljóti að verða að skoða í ljósi þess sem ég reyndi að svara hér við spurningunni um 19. gr. Þetta var um 20. gr. og 26. gr. Um 21. gr. spurði hv. þm. um trúnaðarskyldu. Þar held ég að ég hljóti að vitna til þess sem er almennt um trúnaðarskyldu, um refsiákvæði og vísa til almennra viðurlagaákvæða, og þá til þess sem hv. þm. spurði hér um 29. gr., þ.e. um brot á þessum lögum og reglum settum samkvæmt þeim skal fara að hætti opinberra mála. Nú verð ég að viðurkenna að ég skildi ekki alveg vangavelturnar hjá hv. þm. um hvort verið væri að brjóta eitthvað í lögunum eða hvort verið væri að brjóta lögin sjálf

og ég held að þetta hljóti að vera eitthvert almennt lagalegt orðalag sem ég vísa til lögfræðinga sem umhverfisnefnd verður þá að leita til ef hér er ekki rétt sett niður og í samræmi við það sem almennt gildir um þetta ákvæði.
    Að lokum aðeins um að Hollustuvernd ríkisins ákveði dagsektir. Það kann að vera óeðlilegt að undirstofnun ráðuneytis sé falið þetta ákvörðunarvald. Ég er fús til að skoða að það eigi frekar að vera að Hollustuvernd ríkisins, geri kannski tillögur um slíkt eða hafi heimild til að fara fram á slíkt eða gera tillögur um dagsektirnar þannig að þær ákveðist þá af ráðuneyti. En þetta er líka spurning um réttar boðleiðir í stjórnkerfinu og stjórnvaldsákvarðanir hvernig þær ber að og ég vísa því auðvitað líka til nefndarinnar að skoða þennan þátt. Ég held að það hljóti að vera meira framkvæmdalegs eðlis. En tími minn er útrunninn og ég vil að lokum, hæstv. forseti, þakka fyrir þessar ágætu umræður og vona að nefndin gefi sér tíma og ég veit að hún fer að sjálfsögðu yfir málið en reyni ef mögulegt er að knýja á um skjóta afgreiðslu málsins samt af þeim efnisástæðum sem hér eru raktar, bæði í framsöguræðu og greinargerð frv.