Höfundalög

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:42:08 (362)

[14:42]
     Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum.
    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan þáv. menntamálaráðherra af sérstakri nefnd, sem fylgst hefur með þróun höfundaréttarmála á vegum ráðuneytisins á síðustu árum og unnið að endurskoðun höfundaréttarlöggjafarinnar. Samdi nefndin m.a. tillögur til breytinga á höfundalögum sem samþykktar voru sem lög nr. 57, 2. júní 1992. Tillögur að frv. þessu voru lagðar fyrir höfundaréttarnefnd sem er ráðuneytinu til ráðgjafar í höfundaréttarmálum og hefur nefndin lýst ánægju sinni með frv. þetta.
    Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES samningnum) skuldbatt Ísland sig til þess að aðlaga löggjöf landsins að hinu almenna verndarstigi hugverka í Evrópusambandslöndunum.
    Allt frá árinu 1984 hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýnt mikinn áhuga á samræmingu hugverkalöggjafar innan markaðssvæðisins og lagt fram ýmsar tillögur að tilskipunum á þessu sviði, sem auk samræmingarmarkmiða miða að háu verndarstigi hugverka innan sambandsins. Þegar hafa verið samþykktar fjórar tilskipanir ráðsins á sviði höfundaréttar, þ.e. um vernd tölvuforrita, um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti, um samræmingu á tilteknum reglum varðandi útsendingar um kapal og gervihnetti og um lengd verndartíma.
    Frv. þetta er samið með hliðsjón af ofangreindum tilskipunum Evrópusambandsins á sviði höfundaréttar og hliðstæðra réttinda tengdum höfundarétti og er tilgangur þess sá að samræma íslenska höfundalöggjöf ákvæðum þeirra. Meginefni frv. er að verndartími höfunda er lengdur úr 50 árum miðað við næstu áramót eftir andlát í 70 ár. Listflytjendur og framleiðendur njóta nú þegar 50 ára verndartíma, samanber ákvæði laga nr. 57/1992, og er það í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins. Þá eru það og nýmæli í frv. þessu að sé um verk að ræða sem hafa ekki verið birt áður og höfundur er ókunnur er höfundarétturinn látinn haldast í 70 ár frá tilurð verksins en birting slíkra verka er talin með öllu óheimil samkvæmt gildandi lögum.
    Frv. gerir einnig ráð fyrir að inntak listflytjendaverndar verði nánast hin sama og höfunda og réttarstaða samtaka listflytjanda og framleiðenda er bætt með tilliti til opinbers flutnings markaðshljóðrita. Lagt er til að höfundar og listflytjendur hafi rétt til að heimila eða banna leigu eða útlán verka er njóta höfundaréttar eða hliðstæðra réttinda, svokallaðs grannréttar. Lagt er til að listflytjendum verði veittur einkaréttur til flutnings í útvarpi og annarrar dreifingar á listflutningi til almennings. Listflytjendum og framleiðendum er með tilskipuninni veittur réttur til dreifingar á upptökum, þ.e. einkaréttur til þess að gera upptökur aðgengilegar fyrir almenning með sölu eða á annan hátt. Er ofangreint atriði í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti frá 1992.
    Tilskipunin heimilar að vikið sé frá ákvæðum um einkarétt til almennings að því tilskyldu að a.m.k. höfundur fái þóknun vegna slíkra útlána. Miðast frv. þetta við að framangreind undanþága gildi eingöngu um bókmenntaverk en höfundar annarra verka svo og flytjendur geta bannað útlán og leigu verka sinna. Þannig er ekki gert ráð fyrir að vikið verði frá núverandi skipan á greiðslum fyrir útlán bóka í bókasöfnum samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976.
    Á vegum menntmrn. er nú til athugunar endurskoðun þeim lagaákvæðum sem gilda um greiðslu þóknunar vegna afnota bóka í bókasöfnum. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að í ofangreindri tilskipun er kveðið á um að höfundar skuli eiga rétt til sanngjarnrar þóknunar vegna útlána hljóðrita eða kvikmyndaverka og höfundur geti ekki afsalað sér rétti þessum með samningum. Í tilskipuninni er heimilt að fresta framkvæmd þessa ákvæðis til 1. júlí 1997 og er í frv. þessu miðað við að sú frestunarheimild sé nýtt. Sú niðurstaða er í samræmi við fyrirhugaða lagasetningu á Norðurlöndum um þetta efni.
    Með frv. þessu er enn fremur lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar í samræmi við tilskipun ráðsins um vernd tölvuforrita en ákvæði íslenskra höfunda um tölvuforrit, sbr. lög nr. 57/1992, falla í höfuðatriðum að fyrirmælum tilskipunarinnar.
    Hvað varðar samræmingu íslenskrar höfundalöggjafar að tilskipun Evrópusambandsins varðandi útsendingar um gervihnött og kapal frá 1993 er í frv. þessu lagt til að gerð verði breyting á gildandi ákvæðum um afnotakvöð og að tekin verði þess í stað svokölluð samningskvöð og að dreifingaraðilar semji við lögformlega viðurkennd samtök rétthafa hvert á sínu sviði í stað allsherjarinnheimtustofnunar áður eins og gert var ráð fyrir með þeirri breytingu sem gerð var á höfundalögum árið 1992. Slíkri stofnun hefur ekki verið komið á laggirnar.
    Ætla ég nú að víkja að einstökum ákvæðum frv.
    Með ákvæðum 1. gr. eru tekin af öll tvímæli um það að sá er öðlast hefur rétt til notkunar tölvuforrits hafi heimild til að brjóta til mergjar þau grundvallarsjónarmið er forritið hvílir á en eingöngu í þeim tilgangi að það nýtist honum í vinnslu.
    Í 2. gr. er fjallað um réttarstöðu höfunda og listflytjenda vegna útsendingar um gervihnött og kapal og breytingar á 23. gr. höfundalaganna, þ.e. aðallega að taka upp svokallaða samningskvöð í stað afnotakvaðar.
    Með 3. gr. er fullnægt ákvæðum tilskipunar ráðsins um vernd tölvuforrita þar sem meginreglan er sú að afritun, þýðing, aðlögun og breyting á framsetningu forritsins í því formi sem aðrir hafa aðgang að telst brot á einkarétti höfundarins. Þó er lagt til að heimila þeim sem hefur rétt til að nota afrit af tölvuforriti að afrita eða þýða forritið þannig að unnt verði að nota það með öðrum forritum án heimildar rétthafa.
    Svo sem áður hefur verið vikið að er í frv. þessu gert ráð fyrir umtalsverðri lengingu verndartíma hugverka frá því sem nú tíðkast almennt eða úr 50 árum í 70 ár frá næstu áramótum eftir lát höfundar, eða lát þess höfundar sem lengst lifir séu tveir menn eða fleiri höfundar að sama verki. Um það er fjallað í 4. til 6. gr. þessa frv. Efni þessara greina skýrir sig að mestu sjálft en rétt er að vekja athygli á þeim nýmælum að útgefendum verka sem eru fyrst birt að liðnum verndartíma er veitt sérstök vernd í 25 ár til fjárhagsnytja af verkum. Mun þetta ákvæði sett af tvennum ástæðum: Í fyrsta lagi til að hvetja menn til útgáfu slíkra verka og í öðru lagi til að verja þá aðila sem leggja í slíka útgáfu fjárhagslegum áföllum vegna hugsanlegrar birtingar annarra útgefenda á sama verki.
    Ákvæði 7. gr. frv. er í flestum greinum hliðstætt 45. gr. gildandi höfundalaga um vernd listflytjenda. Þó er í samræmi við 9. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um leigu- og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti frá 1992 að lagt er til að tekin verði af öll tvímæli um að auk einkaréttar til eintakagerðar skuli listflytjandi hafa einkarétt til dreifingar listflutnings almennings þó þannig að listflytjendur hafi einvörðungu þóknunarrétt þegar um er að ræða flutning á hljóðritun skv. 47. gr. höfundalaga. Þá er lagt til að lögfest verði löglíkindaregla um afsal útleiguréttar þegar listflytjandi hefur veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks, þó þannig að sérstakt endurgjald komi fyrir leiguna.
    Loks er bætt við ákvæði þess efnis að tæmiregla 24. gr. gildi aðeins um upptöku listflutnings sem fyrst er markaðssett innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í 8. gr. er fjallað um réttindi listflytjenda vegna viðstöðulauss endurvarps um kapal á listflutningi og er efni þessarar greinar sambærilegt við ákvæði 2. gr. frv., um höfunda, sem áður er gerð grein fyrir, þó þannig að áfram gildi afnotakvöð á dreifingu markaðshljóðrita á grundvelli 47. gr.
    Í 9. gr. frv. er lagt til að hvers konar dreifing til almennings á eintökum hljóðrita og myndrita án samþykkis framleiðanda sé óheimil. Er hér um að ræða verndarauka til handa framleiðendum. Ákvæði þetta ber að skilja með þeim fyrirvara að réttur framleiðenda til dreifingar skerði á engan hátt rétt höfunda eða listflytjenda yfir efni sem upp hefur verið tekið.
    10. gr. er efnislega í samræmi við 46. gr. gildandi laga og 2. mgr. 8. gr. tilskipunar frá 19. nóv. 1992 um þóknunarrétt listflytjenda og framleiðenda fyrir flutning í útvarpi eða aðra opinbera dreifingu. Þóknunarréttur er hér víkkaður þannig að hann tekur til allra útgefinna hljóðrita en ekki einvörðungu til markaðshljóðrita sem gildandi ákvæði kveða á um. Þykja ekki fullnægjandi forsendur fyrir slíkri aðgreiningu. Greinin kveður á um að krafa til endurgjalds verði aðeins gerð af einum innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjenda fyrir öll vernduð hljóðrit að íslenskum lögum. Enn fremur að slíkum samtökum sé heimilt að setja gjaldskrá um þóknun vegna flutnings efnis af hljóðritum utan útvarps að fengnu samþykki menntmrn.
    Í 11. gr. er skýrt kveðið á um að hin nýja regla um 25 ára verndartíma til handa útgefendum gildi aðeins um birtingu verka sem framkvæmd er af ríkisborgurum eða mönnum búsettum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í 12. gr. er fjallað um réttaráhrif lengingartíma hugverka, sérstaklega varðandi verk sem njóta verndar við gildistöku laganna. Þegar við setningu íslensku höfundalaganna 1972 var tekið inn í íslensku lögin skýlaus ákvæði þess efnis að ákvæði laganna gildi einnig um eldri verk sem orðið hafi til fyrir gildistöku laganna. Var gengið lengra til verndar eldri verkum en víðast annars staðar, t.d. á Norðurlöndum. Nú eru bein fyrirmæli um þessi afturverkandi áhrif tekin inn í tilskipun Evrópusambandsins um verndartíma. Slík ákvæði valda því að verk sem kunna að hafa verið fallin úr vernd geti endurlífgast til verndar og er í frv. þessu gerðar tillögur um hvernig fari um ráðstafanir sem gerðar hafi verið eða áunnin réttindi þriðja aðila á grundvelli eldri laga þegar afnot verksins voru frjáls.
    Í íslensku lögunum frá 1972 er ekki tekið nánar á þessu ákvæði og eftirlátið dómstólunum að túlka í hverju einstöku tilviki hvernig með skuli fara og þá gengið út frá því að við slíkum ráðstöfunum og réttindum verði ekki hróflað.
    Í 12. gr. frv. þessa er hins vegar horfið að því ráði í samræmi við aðrar Norðurlandaþjóðir að skilgreina hver réttarstaðan sé í einstökum tilvikum.
    Herra forseti. Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir efni þessa frv. sem er flókið eins og flest frv. sem snerta höfundarétt því hér er oft um vandskilgreindan rétt að ræða og þess vegna einnig vandmeðfarið að semja um það almennar reglur þannig að réttindin séu sem best vernduð. En eins og sést er í þessu frv. tekið á nýmælum varðandi flutning og leiðir til að flytja listverk auk þess sem tölvuforrit koma við sögu.
    Að því verki að undirbúa þetta frv. hefur unnið endurskoðunarnefnd höfundalaga og í fylgiskjali I sem frv. fylgir er að finna bréf nefndarinnar til mín þar sem greint er frá því hvernig nefndin hefur unnið að málinu og kemur fram að nefndin stendur einróma að tillögugerðinni. Ég vona að á Alþingi skapist góð samstaða um að málið hljóti bæði málefnalega meðferð í hv. menntmn. og einnig verði stuðlað að afgreiðslu þess eins skjótt og kostur er þannig að við getum tengst inn í þennan Evrópurétt með þessum hætti.
    Ég tel að lokum að rétt sé að gera Alþingi grein fyrir því að vegna skuldbindinga Íslands á grundvelli EES-samningsins hefðu tilskipanir Evrópusambandsins um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengdum höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og endurvarps um kapal annars vegar og um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti átt að ganga í gildi 1. jan. sl.

En tilskipun Evrópusambandsins um samræmingu verndartíma höfundaréttar og hliðstæðra réttinda tengdum höfundarétti á að ganga í gildi 1. júlí nk. Rétt er þó að taka fram að endurskoðun höfundalaga hér á landi hefur farið fram í samvinnu við aðrar Norðurlandaþjóðir og frumvörp sambærileg við það sem hér er kynnt hafa verið til umræðu og eru nú til umræðu á þjóðþingum Norðurlanda.
    Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að lokinni umræðunni.