Notkun myndlykla

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:56:37 (363)


[14:56]
     Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Þetta mál, frv. til laga um bann við gerð og notkun myndlykla til að fá aðgang að læstum útvarpssendingum án greiðslu áskriftargjalds, er eins og það frv. sem ég mælti fyrir hér næst á undan nátengt breytingum á tækni og þeirri aðstöðu sem skapast hefur til að koma efni á framfæri með nýrri tækni og nýjungum í fjölmiðlum.
    Í athugasemdum við frv. kemur fram að með breytingum á útvarpslögum, sem gerð var árið 1985, hafi einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarpssendinga verið afnuminn og öðrum aðilum heimilað að reka sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvar. Á grundvelli þessarar lagabreytingar eru nú reknar í landinu allmargar sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvar í eigu annarra en ríkisins eins og kunnugt er. Í lögunum er stöðvunum m.a. heimilað að afla tekna með afnotagjaldi.
    Útvarpslaganefnd sem skipuð var af menntmrh. 29. apríl 1992 til að endurskoða útvarpslög, nr. 68/1985, lagði m.a. til að tekin yrðu upp í útvarpslög ítarleg ákvæði um að læstar útsendingar sem boðnar séu gegn greiðslu njóti refsiverndar. Tillögur útvarpslaganefndar voru að nokkru leyti sniðnar eftir sænskri löggjöf um sama efni sem tók gildi 1. jan. 1994. Efni þess frv. sem hér liggur fyrir er efnislega sambærilegt við framangreindar tillögur útvarpslaganefndar. En dagskrárefni, sem einungis er ætlað áskrifendum og sent út brenglað þannig að einungis þeir sem hafa sérstakan búnað, myndlykla, geti náð útsendingunum, er eins og við vitum þannig að það eru aðeins þeir sem greiða fyrir áskrift og fá sérstakt lykilnúmer sem geta nýtt sér þær útsendingar og þá gegn greiðslu áskriftargjalds.
    Í erindi sem mér hefur borist frá Íslenska útvarpsfélaginu hf., sem annast rekstur Stöðvar 2, kemur fram að félagið hafi orðið fyrir tilfinnanlegu tekjutapi á undanförnum árum vegna þess að einstaklingar hafa komið sér upp búnaði til að ná læstum útsendingum stöðvarinnar án greiðslu áskriftargjalds. Í erindi frá félaginu kemur fram að vissa sé fyrir því að í sumum tilvikum sé um skipulagða starfsemi að ræða þar sem myndlyklum hefur verið breytt þannig að ótiltekinn fjöldi manna hefur aflað sér aðgangs að dagskránni með greiðslu eins áskriftargjalds. Félagið telur sig hafa fulla vitneskju um eina slíka keðju sem í séu um 300 áskrifendur. Tekjutap félagsins í þessu eina tilviki miðað við að allur hópurinn greiddi ella tilskilið áskriftargjald gæti numið allt að 10 millj. kr. á ári auk þess sem ríkissjóður tapar um það bil 1,4 millj. kr. vegna tapaðs virðisaukaskatts. Þá telur félagið sig hafa rökstuddan grun um fjölda annarra keðja þar sem fjöldi áskrifenda sé líklega á bilinu 5--6 þúsund. Sé miðað við lægri töluna gæti tekjutap félagsins af þessum sökum numið u.þ.b. 170 millj. kr. á ári og tap ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts gæti numið 23--24 millj. kr. Tilraunir félagsins til að fá umrædda starfsemi stöðvaða með aðstoð lögreglu og dómstóla hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Ástæðan er sú að gildandi lög veita takmarkaðar heimildir til afskipta lögreglu og hinnar opinberu réttarvörslu á þessari starfsemi. Hafa réttarvörsluaðilar talið útsendingarmerki sjónvarpsstöðva ekki getað verið andlag þjófnaðar eða nytjastuldar, sbr. ákvæði 244. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Hafa tilraunir Íslenska útvarpsfélagsins hf. til að gæta hagsmuna sinna með kærum á grundvelli þessara ákvæða hegningarlaganna ekki borið árangur.
    Vegna þessa kveðst Íslenska útvarpsfélagið hf. hafa lagt í verulegan kostnað við að endurnýja myndlyklakerfi félagsins. Með því móti hafi um sinn tekist að draga verulega úr því að aðilar nái aðgangi að læstum útsendingum án greiðslu tilskilins áskriftargjalds. Það sé hins vegar ljóst að þegar sé hafin skipuleg starfsemi við að reyna að afla aðilum utan hópsáskrifenda að læstri dagskrá félagsins fram hjá nýja myndlyklakerfinu. Reynslan sýni að búast megi við að þetta vandamál geti orðið viðvarandi.
    Þetta ástand leiðir til þess að mínu mati og eins og kemur fram í greinargerð með frv. að sú skylda hvílir á löggjafarvaldinu að það tryggi lögmætri atvinnustarfsemi sem mesta vernd gegn því að hún verði fyrir tjóni af ólögmætri starfsemi. Sú skylda er ótvíræð og við þurfum ekki að ræða um hana en í þessu tilviki er um nýja atvinnustarfsemi að ræða með nýrri tækni sem nýtur ekki verndar samkvæmt almennum hegningarlögum eins og fram hefur komið. Þess vegna er mjög brýnt að mínu mati að taka af allan vafa

í þessu og í þeim tilgangi er þetta frv. flutt. Útvarpsstöðvum er heimilað að afla tekna með áskrift og því verður að vera ótvírætt í lögum að móttaka slíks efnis án heimildar útvarpsstöðvarinnar og án greiðslu áskilins áskriftargjalds sé ólögmæt. Þá ber að hafa í huga að hundruð manna hafa atvinnu og lífsframfæri sitt af þessari starfsemi. Óheimil móttaka felur jafnframt í sér brot gegn hagsmunum annarra en útvarpsstöðvarinnar, ekki síst þeirra aðila sem eiga höfundarétt að því efni sem sent er út og gildandi löggjöf veitir ekki vernd í þessu efni. Af öllum þessum ástæðum er þetta frv. flutt.
    Í 1. gr. í athugasemdum við einstakar greinar eru hugtökin ,,læst útsending`` og ,,myndlykill`` skilgreind. Í 2. gr. er um nýmæli að ræða eins og sést og í 3. gr. er lýst viðurlögum við brotunum þannig að þetta frv. er í sjálfu sér skýrt og einfalt. Rík nauðsyn er á því að það er flutt og ég hvet eindregið til þess að það hljóti málefnalega meðferð að sjálfsögðu í hv. menntmn. en eins skjóta meðferð eins og kostur er með hliðsjón af mikilvægi málsins.
    Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.