Opinber fjölskyldustefna

12. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 10:42:19 (371)


[10:42]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það sem hér hefur komið fram er að uppi voru áform á ári fjölskyldunnar um að það starf endaði með tillögu um fjölskyldustefnu. Þetta hafði ekki gerst þegar ég kom í félmrn. í nóvember sl. en málið var gert að forgangsmáli hjá mér og aðstoðarmanni mínum, Braga Guðbrandssyni, formanni landsnefndar, í janúar. Tillaga þar að lútandi var afgreidd af landsnefnd áður en þing kom saman í lok janúar. Það dróst að málið kæmi inn í þing eins og hér hefur komið fram og það er umhugsunarefni að þegar það loks komst á dagskrá var það ávallt síðasta málið þrátt fyrir þrýsting.
    ILO-samþykkt nr. 156 um fjölskylduábyrgð var flutt í ríkisstjórn þrátt fyrir að í samstarfsnefnd um alþjóðasamþykktir, samstarfsnefnd vinnumarkaðarins, hefur það verið ljóst að VSÍ er á móti því að sú samþykkt sé afgreidd. Málið var ekki til lykta leitt í ríkisstjórn en það hefði ekki staðið á því, virðulegi forseti, að utanrrh. hefði flutt málið. Hins vegar var dregið upp að það var ekki sama hvaða ráðuneyti flytti þessi mál en gömul samþykkt fyrir því að félmrn. gerði það.
    Það er afar mikilvægt, virðulegi forseti, að mörkuð verði opinber fjölskyldustefna og ég tek undir þær væntingar sem félmrh. gefur um að tillaga komi fram í haust.