Frísvæði á Suðurnesjum

12. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 10:50:35 (375)


[10:50]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Haustið 1992 skipaði forveri minn nefnd til að kanna kosti þess að koma á frísvæði á Suðurnesjum og skilaði hún áfangaskýrslu í lok mars 1993. Í tillögu nefndarinnar var hvatt til frekari vinnu á þessu sviði og lagt til að beitt yrði ýmsum ívilnunum í því skyni að laða erlend fyrirtæki til starfa á frísvæði. Á grundvelli þessarar niðurstöðu var nefndinni falið að vinna að málinu áfram. Hv. 10. þm. Reykn., sem er einn nefndarmanna, lagði fram spurningar til mín í fimm liðum og ég kýs til að byrja með að svara því í samfelldu máli og reyna síðan að draga saman niðurstöður í lokin. Rétt er að hafa það í huga að þar sem niðurstaða nefndar um frísvæði á Suðurnesjum liggur ekki fyrir er ekki unnt að ræða efnislegar tillögur um tilhögun frísvæðis aðrar en þær sem fram koma í áfangaskýrslu nefndarinnar frá í mars 1993.
    Fyrirspyrjandi innir eftir afstöðu minni til hugmynda um stofnun frísvæðis á Suðurnesjum. Fyrir fram líst mér auðvitað vel á allar hugmyndir sem eru til þess fallnar að auka atvinnu og skila auknum tekjum. Hins vegar verða hugmyndir um frísvæði að taka mið af þeim efnahagslega veruleika sem við búum við og þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi.
    Ljóst er að hugmyndir af þessu tagi gera allar ráð fyrir að um sé að ræða að hagstæðari reglur gildi fyrir fyrirtæki á frísvæði en önnur fyrirtæki í landinu búa við. Fyrirtækjum á frísvæðum eru jafnan boðin betri kjör, t.d. hagstæðari afskriftarreglur, lægri opinber gjöld, lægri þjónustugjöld, eins og lagt var til í áfangaskýrslu frísvæðisnefndarinnar í mars 1993. Ég tel að hvað þetta varðar hafi áfangaskýrslan frá 1993 vakið fleiri spurningar en hún svarar. Ég bendi t.d. á þá staðreynd að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið setur þröngar skorður við ríkisstyrkjum og mismunun milli fyrirtækja. Undanþágur hafa þó verið heimilaðar vegna frísvæða í sumum Evrópuríkjum en einungis ef um er að ræða afmörkuð svæði þar sem atvinnuleysi er vel yfir meðaltali ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða meðallaun eru vel undir sama meðaltali. Sem betur fer er slíku ekki til að dreifa á Suðurnesjum. Sem dæmi er vert að nefna að Danir veita mjög takmarkaðar ívilnanir á sérstökum efnahagssvæðum en þar er um að ræða svæði sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt sem svæði þar sem heimilt er að beita ríkisstyrkjum vegna atvinnuleysis. Þær ívilnanir gilda aðeins í fimm ár.
    Í áfangaskýrslunni var ekki útfært hvernig menn hygðust haga ívilnun á frísvæði til að tryggja að þær brytu ekki gegn EES-samningnum. Hugmyndir af þessu tagi, sem raktar eru í áfangaskýrslu nefndarinnar, virðast einnig fela í sér að tvenns konar leikreglur eigi að gilda um atvinnustarfsemi í landinu eftir því hvar menn setja fyrirtæki sín á fót.
    Ég tel mikilvægt að ein lög gildi í landinu, þar með talið að sömu skattar séu lagðir á fyrirtæki á frísvæðum og önnur fyrirtæki í landinu. Í þessu sambandi er vert að minna á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að skattalegt umhverfi fyrirtækja verði svo sem best gerist í samkeppnislöndum okkar þannig að ekki þurfi að gera sérsamninga við erlend fyrirtæki til að þau fáist til starfa hér á landi. Ég tel eðlilegra að unnið verði að því að jafna starfsskilyrði atvinnulífsins í landinu með almennum aðgerðum sem komi öllum fyrirtæki í hag.
    Erlend fjárfesting er mikilvæg fyrir íslenskt atvinnulíf enda endurspeglar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar vel þá staðreynd. Ég tel hins vegar varhugavert að ala á trú manna á töfralausnir sem takmörkuð efnisleg rök standa á bak við. Þá er mikilvægt atriði í efnahagsstjórnun í okkar fámenna landi að við sköpum sambærileg skilyrði í atvinnulífinu hvar sem er á landinu.
    Að því er varðar þær spurningar sem fyrirspyrjandi beinir til mín þá vil ég svara að því er varðar 1. spurninguna: Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um það en samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar er starf nefndarinnar á lokastigi.
    Varðandi 2. spurninguna um stuðning minn við slíkar hugmyndir: Ég hef greint frá almennum hugmyndum mínum hér að framan að svo miklu leyti sem unnt er og í ljósi þess að niðurstaða nefndarinnar liggur ekki fyrir.
    Hvort málið eigi að flytjast frá utanrrn. til fjmrn. vil ég segja að það er vissulega vafamál hvort mál sem þetta eigi að falla undir utanrrn. og mér finnst margt benda til að svo sé ekki. Hins vegar tel ég eðlilegt að erlend fjárfesting almennt falli undir viðskrn. en ekki fjmrn. Hins vegar skiptir það ekki meginmáli að mínu mati heldur er það efnisleg og fagleg umfjöllun málsins.
    Að því er varðar 4. spurninguna vil ég vitna til almennra orða hér að framan. Framkvæmdaatriði af þessum toga hlýtur að ráðast af því hvort ákveðið yrði að koma á frísvæði eða ekki. Varðandi síðustu spurninguna um skattfríðindi vísa ég til þess sem ég hef almennt sagt hér um skattfríðindi. Ég tel heildstæða skattastefnu, sem mótuð er í samræmi við það sem almennt gerist í nágrannalöndum okkar, vera til þess fallna að laða erlenda fjárfestingu til landsins. Í því hefur nokkuð áunnist á undanförnum árum en enn er þar margt ógert. Ég vitna til þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að skapa slíkar almennar forsendur fyrir erlendri fjárfestingu.