Frísvæði á Suðurnesjum

12. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 10:56:02 (376)


[10:56]
     Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir greinargóð svör. Ég legg áherslu á það að þó svo þessi hugmynd um frísvæði hafi verið lengi til umræðu og margir hafi gert sér vonir um að eitthvað leiddi af umræðunni þá hefur ekki enn verið tekin nein ákvörðun. Ég mun því kalla eftir ákvörðun frá utanrmn. um það hvernig þetta verður endanlega til lykta leitt. Við getum sagt sem svo að nauðsynlegt sé að málinu verði lokið. Það getur verið að menn hafi misjafnar skoðanir á því hvort frísvæði eða sérstakar aðgerðir á einhverju ákveðnu svæði eigi rétt á sér. En ég minni einfaldlega á það að á Íslandi hefur ekki í 15 ár orðið nein erlend fjárfesting sem neinu nemur. Hvers vegna er það? Menn hljóta að spyrja þeirrar spurningar.
    Mörg vestræn lönd hafa einmitt gripið til sérstakra úrræða sem hafa leitt af stað margan annan iðnað sem hefur síðan orðið atvinnulífinu í heild sinni mjög til framdráttar. Ég bendi einnig á að það hefur orðið til þess eins og ég sagði í upphafi að háskólar og skólar á verkmenntasviði hafa náð að þróast á allt annan hátt. Það er eitt af því sem er áhyggjuefni í menntun okkar hér á Íslandi að sífellt er meira um það að stúdentar úr Háskóla Íslands hafi viljað starfa hjá hinu opinbera frekar en að fara út í atvinnurekstur á eigin vegum.