Úrelding smábáta

12. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 11:00:48 (378)

[11:00]
     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. sem ég set fram til sjútvrh. er svohljóðandi:
    ,,Er eitthvað því til fyrirstöðu að smábátar, sem hafa verið úreltir, séu skráðir til annarra verkefna en veiða, t.d. sem skemmtibátar fyrir ferðamenn, fremur en að þeim sé öllum fargað?``
    Þetta er spurning sem oft er lögð fyrir okkur þingmenn og fyrir skömmu lenti ég í umræðum um þetta mál. Það verður að segjast eins og er að í umræðum um þessi mál verður okkur gjarnan fátt um svör. Viðmælandi minn hafði farið í ýmsar stofnanir sem tengjast sjávarútvegi til að leita ásjár og upplýsinga. Honum fannst sjálfum að hann fengi misvísandi upplýsingar. Viðmælandi minn átti kost á smábát í góðu standi sem hafði hlotið úreldingu og þá væntanlega úreldingarstyrk. Hann hugðist nýta hann sér og fjölskyldunni til ánægju og stússa í ýmsu. Hann var tilbúinn að lúta öllum hugsanlegum reglum og skilyrðum en rakst alls staðar á veggi.
    Samkvæmt upplýsingum, sem við fáum þegar við spyrjumst fyrir um hvað er hægt að gera við þessa báta, kemur m.a. í ljós að ef sá sem hefur úrelt bát og hlotið til þess styrk flytur hann til næsta nágrannalands, við skulum segja til Færeyja, þá er hægt að flytja bátinn þaðan og heim og skrá hann og nýta hann til einhvers annars. Hins vegar er enginn sem bannar að flytja bátinn inn aftur en það má ekki breyta nýtingu hans hér heima.
    Verðmæti í plastbát miðað við nýsmíði er t.d. miðað við 8 metra bát u.þ.b. 2,5--3 millj. kr. fyrir utan virðisaukaskatt, virðulegi forseti, og tek ég þetta sem dæmi um þau verðmæti sem sóað er miðað við að þessir bátar eru úreltir og ekki nýttir til neins.
    Ég vil einnig geta þess að bæjarráð Ólafsfjarðar sendi frá sér eftirfarandi bókun:
    ,,Bæjarráð Ólafsfjarðar harmar þá gegndarlausu sóun á verðmætum sem felst í því að þegar smábátar eru samþykktir í úreldingu eru þeir venjulega malaðir mélinu smærra áður en úreldingarstyrkurinn er greiddur út. Stór hluti þeirra báta sem fengið hafa úreldingarstyrki og hafa verið eyðilagðir hefðu hentað vel sem skemmtibátar fyrir ferðamenn. Uppbygging þessarar iðngreinar er kostnaðarsöm og það er hörmulegt til þess að vita að einfaldasta leiðin til að koma bátum varanlega af skipaskrá verði þannig til þess að önnur grein nái ekki að nýta sér þessa kostnaðarlækkun smábáta sér til eflingar. Bæjarráð skorar á alþingismenn að íhuga hvort ekki megi finna aðrar leiðir sem séu færar sem komi í veg fyrir hvort tveggja, að stöðva óheyrilega sóun verðmæta og tryggja að bátar, sem fengið hafa úreldingarstyrki, komi ekki inn á skipaskrá á ný.``
    Því ber ég fram þessa spurningu til hæstv. sjútvrh.: Er ekki möguleiki að fara þá leið sem bæjarráðið bendir hér á og eiga svör við þeim erfiðum spurningum sem sífellt berast okkur og stöðva þá verðmætasóun sem á sér stað við þá úreldingaraðferð sem viðgengst í dag?