Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 11:13:00 (384)


[11:13]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að fá að mæla saman fyrir tveimur nátengdum frv. Annars vegar er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum, og hins vegar um frv. til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.
    Aðdragandi þessara frumvarpssmíða er sá að samkvæmt verkefnaskrá sjútvrn., sem samþykkt var af ríkisstjórn 22. apríl sl., skyldu tiltekin lagaákvæði um fiskveiðistjórnun sæta endurskoðun þegar á þessu sumarþingi. Helstu atriði þeirrar endurskoðunar voru samkvæmt verkefnaskránni þessi:
    Í fyrsta lagi að reglur um endurnýjun fiskiskipa yrðu endurskoðaðar þannig að tryggt verði að afkastageta fiskiskipaflotans aukist ekki og að heimilað verði að nýta skip sem úrelt hafa verið til annarrar atvinnustarfsemi en fiskveiða.
    Í öðru lagi að skapa svigrúm til að bæta hlut þeirra báta sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu aflaheimilda vegna minnkandi þorskveiða.
    Í þriðja lagi að taka banndagakerfið til endurskoðunar og leita annarra leiða við stjórnun fiskveiða krókabáta en að fjölga banndögum til þess að tryggja stöðu þeirra sem haft hafa lífsviðurværi af krókaveiðum.
    Í fjórða lagi var samþykkt að svokölluð tvöföldunarregla yrði ekki látin koma til framkvæmda um næstu áramót eins og fyrirhugað var en þessi regla felur í sér að ekkert skip má flytja til sín meira aflamark en nemur því sem það fékk úthlutað í upphafi fiskveiðiárs. Er reglan talin bitna harðar á einstaklingsútgerðum en öðrum og m.a. af þeim sökum talið rétt að hún komi ekki til framkvæmda svo sem ráð hafði verið fyrir gert.
    Í samræmi við framangreinda verkefnaskrá hafa þau frv., sem hér eru lögð fram, verið samin í sjútvrn. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvörpunum er verið að bregðast við þeim brýnu vandamálum og athugasemdum sem lágu að baki markmiðum verkefnaskrárinnar um tafarlausa endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
    Ég ræði fyrst um efni frv. til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða en vík síðar að frv. til laga um breytingar á lögum um Þróunarsjóð.
    Það er ljóst að niðurskurður veiðiheimilda og þá sérstaklega þorskaflaheimilda hefur skapað mikla erfiðleika í sjávarútvegi sem atvinnugreinin hefur þurft að takast á við með margvíslegum hætti. Í þeirri glímu hefur atvinnugreinin sýnt mikla aðlögunarhæfni og frumkvæði og í heild náð að styrkja stöðu sína við þessar erfiðu aðstæður. Það hefur tekist á þeim grundvelli sem ríkjandi fiskveiðistjórnun hefur skapað. Þó hefur sýnt sig að mismunandi greinar útgerðar hafa átt misjafnlega auðvelt með að nýta sér þau

sóknarfæri sem hafa skapast, svo sem veiðar á öðrum tegundum en þeim sem bundnar eru aflamarki og veiðar á fjarlægum miðum. Hefur einkum verið bent á erfiðleika minni aflamarksbáta og skipa í þessu sambandi.
    Í þessu frv. er lagt til í ákvæði til bráðabirgða I, að úthlutað verði 5.000 lestum af þorski miðað við óslægðan fisk til jöfnunar, viðbótar og að teknu tilliti til 12.000 þorskígildislestajöfnunar skv. 9. gr. gildandi laga, sem gert er ráð fyrir að fari fram með hliðstæðum hætti og verið hefur, þó þannig að við jöfnun skv. 9. gr. verði nú hægt að horfa lengra aftur en til næstliðins fiskveiðiárs og er þar tekið mið af þeirri staðreynd að ekki er útlit fyrir að þorskveiðiheimildir komandi fiskveiðiárs verði minni en á yfirstandandi fiskveiðiári.
    Við úthlutun viðbótarjöfnunar er horft til skerðingar aflaheimilda sem orðið hefur frá fiskveiðiárinu 1991--1992 og koma öll skip önnur en fiskvinnsluskip, sbr. lög nr. 54/1992, til álita við þá úthlutun. 10 lesta hármarki á úthlutun til hvers skips samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I er hins vegar ætlað að tryggja að sú úthlutun komi hinum minni skipum og bátum hlutfallslega mest til góða. Tæplega 600 skip mundu fá bætur samkvæmt þessari 5.000 lesta úthlutun og næmi skerðing þeirra eftir bætur 19,8--43,7% miðað við veiðiheimildir fiskveiðiársins 1991--1992. Lagt er til að árleg úthlutun samkvæmt þessu ákvæði standi til og með fiskveiðiárinu 1998--1999 en strax á yfirstandandi fiskveiðiári verði úthlutað með sama hætti þeim hluta aflahámarks vegna línutvöföldunar skv. 6. mgr. 10. gr. sem ekki nýttist við línuveiðar í nóvember til febrúar sl. Réttlætanlegt þykir að útdeila á þennan hátt til aflamarksbáta því ónýtta aflahámarki sem aflamarksbátum og línuveiðum stóð til boða, sérstaklega með hliðsjón af þeim brýna vanda sem margir aflamarksbátar hafa staðið frammi fyrir.
    Annað meginviðfangsefni verkefnaáætlunar ráðuneytisins er að finna aðra aðferð en að fjölga banndögum til að halda veiði krókaleyfisbáta innan aflahámarks sem Alþingi ákvað með lögum vorið 1994. Markmið slíks valkosts við banndagakerfi gildandi laga skal samkvæmt verkefnaáætluninni fyrst og fremst vera að tryggja stöðu þeirra sem haft hafa lífsviðurværi af krókaveiðum. Það hlýtur að vera öllum augljóst mál að sú mismunun getur ekki gengið að einn útgerðarhópur búi við tiltölulega óhefta sókn og auki sífellt aflahlut sinn meðan stærsti hluti útgerðarinnar býr við skertar veiðiheimildir frá einu ári til annars. Þess vegna var lögleitt kerfi fyrir rúmu ári sem ætlað er að halda heildarafla krókabáta innan við 20.170 þorskígildislestir sem er hátt hlutfall af heildarþorskaflanum en var gert með þeim rökum að verið væri að binda aflahámarkið við þá tölu sem lögin mæla fyrir um. Menn geta því ekki aukið við heildarafla krókabáta á þeim grundvelli að meira sé til skiptanna. Heildaraflinn er fastákveðinn og eins og menn þekkja hefur hann farið minnkandi undanfarin ár, sérstaklega í þorski sem er langfyrirferðarmestur í afla krókabáta. Ef einn útgerðarhópur krókabáta sem langmest allra hefur aukið afla sinn á undanförnum misserum á að fá meira þarf að taka þann afla, þorsk fyrir þorsk, af öðrum útgerðum og svipað á auðvitað við varðandi þau handtök sem tengjast veiðum fisksins og vinnslu að öðru leyti.
    Fullyrðingar um að það valdi atvinnubresti á meðal sjómanna að útgerðarmenn krókabáta fái ekki að auka hlut sinn enn frekar á kostnað annarra útgerðarmanna og sjómanna eiga því ekki við nein rök að styðjast og hafa í raun endaskipti á hlutunum. Ég minni á að sú heildaraflatakmörkun sem krókabátar búa við liggur skýr fyrir í gildandi lögum og á grundvelli hennar er mikil fjölgun banndaga fyrirsjáanleg á næsta fiskveiðiári þótt engar lagabreytingar yrðu gerðar. Það er innbyggt í gildandi lög að það gerist þegar heildarveiðin fer yfir lögákveðið mark eins og útlit er nú fyrir.
    Núgildandi reglur sem settar voru með lögum nr. 87/1994 úthluta eins og áður hefur komið fram sameiginlegum hámarksafla sem nemur 20.170 þorskígildislestum fyrir alla krókabáta sameiginlega en það var meðalafli þeirra á fiskveiðiárunum sem hófust 1. sept. 1991 og 1. sept. 1992. Þessu heildaraflamarki var skipt niður á fjóra hluta fiskveiðiársins og giltu ákveðnir banndagar innan hvers tímabils. Fari afli einhvers tímabils fram úr hámarkinu fyrir það tímabil skal banndögum sama tímabils á næsta fiskveiðiári fjölgað svo mikið að það dugi til að halda heildaraflanum innan þess marks sem ákveðið hefur verið.
    Sú regla sem áður var í gildi samkvæmt lögum nr. 38/1990 gerði ráð fyrir óheftri sókn krókabáta utan ákveðinna banndaga, þó þannig að ykist heildarhlutdeild þessara báta í botnfiskafla á árunum 1991--1993 um meira en 25% að meðaltali skyldi heimild til krókaleyfis falla niður og bátunum úthlutað aflamarki frá 1. september 1994. Í raun fór aflaaukningin langt fram úr þessari viðmiðun. Sú aflahlutdeild sem til skipta skyldi koma var sú hlutdeild sem þessir bátar áttu kost á á árinu 1990 sem næmi miðað við úthlutað aflamark á yfirstandandi fiskveiðiári samtals um það bil 2.896 þorskígildislestum.
    Með lagabreytingunni 1994 var sá afli sem krókabátar höfðu heimild til að veiða með öðrum orðum hækkaður úr 2.896 þorskígildislestum miðað við yfirstandandi fiskveiðiár í 20.170 þorskígildislestir eða um um það bil 600%.
    Í almennum athugasemdum með frv. er birt tafla um veiðar krókabáta á undanförnum árum og kemur m.a. fram að á sl. fimm árum hafa krókaveiðar aukið hlutdeild sína í heildarþorskveiði á Íslandsmiðum úr rúmlega 2% í rúmlega 20%. Á þessari stundu er ekki vitað hver heildarafli krókabáta verður á yfirstandandi fiskveiðiári en ef hlutfallsleg aukning á 3. og 4. tímabili verður svipuð og á 1. og 2. tímabili má gera ráð fyrir því að afli muni ná rúmlega 44 þús. lestum miðað við óslægðan afla sem er rúmlega 35 þús. þorskígildislestir eða um 75% umfram þær 20.170 þorskígildislestir sem heimild þeirra miðast við. Miðað við það yrðu banndagar á næsta fiskveiðiári alls um 229 og fjöldi veiðidaga aðeins 136. Það

er ljóst að þessi mikla fjölgun banndaga getur komið sér afar illa fyrir þá sem stundað hafa þessar veiðar og hafa haft af þeim lífsviðurværi en margir þeirra hafa lítið eða ekkert aukið afla sinn nokkur undanfarin ár. Fjölgun banndaga getur orðið óbærileg fyrir suma þessara aðila.
    Þróunin hefur verið sú að margir af þeim nálega 1.100 bátum sem leyfi hafa til krókaveiða hafa verið endurnýjaðir og afkastageta þeirra aukin jafnframt því að þeim er haldið meira til veiða en áður var. Hefur hluti þeirra báta sem stunda krókaveiðar aukið sókn sína verulega. Margir þeirra báta sem notaðir eru til krókaveiða eru nokkuð afkastamikil skip og þeir allra aflahæstu veiða um og yfir 300 lestir á ári. Þá er ljóst að enn er mikil sóknargeta ónýtt í hópi krókabáta þótt formlegum leyfum fjölgi ekki.
    Eins og segir í athugasemum með frv. virðist í raun aðeins um tvær leiðir að velja að því marki að halda heildarveiði krókabáta innan við meðalafla fiskveiðiáranna 1991--1992 og 1992--1993. Annars vegar að fjölga banndögum um meira en tvo þriðju sem mundi kippa grundvelli undan rekstri margra þeirra sem hafa stundað þessar veiðar í þágu hinna sem vilja stækka hlut sinn í sameiginlegu aflahámarki krókaflotans. Hins vegar að setja aflahámark á hvern einstakan bát á grundvelli aflareynslu síðustu ára. Eðlilegt þykir að miða slíkt aflahámark við leyfilegan þorskafla eingöngu en láta dagatakmörkunum eftir að takmarka sókn í aðrar tegundir en þorsk. Ástæðan fyrir því er sú að vægi þorsks í afla þessara báta er yfir 80%. Aflahámarkið í frv. miðast því við 21.500 lestir af þorski miðað við óslægðan fisk en ekki 21.170 þorskígildislestir sem er viðmiðun sem ákvarðar heimilaðan afla krókabáta samtals í fleiri tegundum.
    Varðandi útfærslu á hinni miklu fækkun sóknardaga, sem verður að koma til ef ekki er sett aflahámark, hafa verið reifaðar ýmsar hugmyndir. Má þar nefna einstaklingsbundið val róðrardaga sem yrði ekki tilkynnt fyrir fram, að gefinni heildartölu róðrardaga. Eins og sakir standa er ekki unnt að koma slíkri skipan mála í framkvæmd. Það þarfnast frekari undirbúnings en slíkt kerfi er hins vegar á margan hátt miklu geðþekkara og heppilegra en kerfi fastra banndaga. Það breytir hins vegar engu um heildarveiðimöguleika þessara báta.
    Í ákvæði frv. til bráðabirgða er gerð tillaga um að slíkt kerfi verði tekið upp þegar gervihnattasamskipti og tæknibúnaður í bátunum gera einstaklingsbundið eftirlit mögulegt. Undirbúningi þess máls verður hraðað svo sem kostur er. Til að verja stöðu þeirra sem hafa haft lífsviðurværi af krókaveiðum samtímis því að staðið sé við markmið gildandi laga um að heildarafli krókabáta verði ekki meiri en 21.500 lestir miðað við óslægaðn fisk hefur sjútvrn. talið eðlilegt að setja einstaklingsbundið hámark á þorskveiðar hvers báts. Aðrir hafa hins vegar talið hagsmunum eigenda krókabáta betur borgið með öðrum takmörkunum og talið fjölgun banndaga illskárri kost til að halda þorskveiðunum innan við sett mark. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum er gerð sú tillaga í 2. gr. frv. að eigendum krókabátanna verði gefinn kostur á að velja um hvorri hinna tveggja takmarkana þeir vilja heldur sæta. Í framkvæmd yrði þetta þannig að báðir hópar yrðu að sæta þeim 136 banndögum sem gilda á yfirstandandi fiskveiðiári en þar fyrir utan mundu menn sjálfir velja um hvort þeir kjósa einstaklingsbundið hámark á þorskafla tiltekins báts eða fastákveðna viðbótarbanndaga. Hlutdeild hópanna tveggja í heildaraflahámarki allra krókabáta mundi ráðast af hlutdeild báta í hvorugum hópnum um sig í þorskafla almanaksárið 1994. Áður en menn velja hvort þeir kjósa einstaklingsbundið þorskaflahámark eða viðbótarbanndaga skal Fiskistofa reikna út hvert hámarkið yrði fyrir hvern einstakan bát þannig að menn geti grundvallað val sitt á þeim upplýsingum. Frv. gerir ráð fyrir að tvö bestu árin af síðustu þremur yrðu lögð til grundvallar útreikningi þorskaflahámarks fyrir hvern bát en þá gæti endanlegt hlutfall orðið nálægt 70% af reynslu allt að 50 tonnum, en nálægt 50% af reynslu þar umfram. Hér er hins vegar ekki verið að úthluta aflahlutdeild eða framseljanlegu aflahámarki. Þetta er óframseljanlegt einstaklingsbundið aflahámark. Þetta hámark verður því ekki selt öðrum báti en fylgir bátnum og flyttist á nýjan bát þegar hann yrði endurnýjaður.
    Að því er varðar þann hóp sem kýs viðbótarbanndaga er lagt til samkvæmt frv. að reynt sé að dreifa banndögum þannig að það komi sér betur fyrir þá sem hafa atvinnu af þessu útgerðarformi. Hér má líka ítreka að samkvæmt bráðabirgðaákvæði III er gert ráð fyrir að sjútvrh. flytji frv. um breytingar á þessum ákvæðum um banndaga jafnskjótt og hann telur tæknilegar og fjárhagslegar forsendur til eftirlits vera fyrir hendi. Slíkri breytingu er ætlað að fela í sér að menn geti sjálfir valið róðrardaga sína eftir að heildartala leyfðra róðrardaga hefur verið ákveðin. Verði þetta frv. að lögum mun tafarlaust verða hafin könnun á þeim kostum sem eru fyrir hendi í þessu skyni.
    Auk framangreindra ákvæða um útdeilingu viðbótaraflahámarks til jöfnunar og ákvæða um endurskoðun varðandi krókabáta sem eru veigamestu ákvæði í því frv., sem hér er lagt fram, er í 1. gr. frv. gerð tillaga um að herða endurnýjunarreglur fiskiskipa, sérstaklega varðandi krókabáta. Enn fremur er lagt til með 3. gr. að felld verði niður takmörkun á framsalsrétti sem taka átti gildi um næstu áramót. Þá er gert ráð fyrir því samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í frv. að í fjögur ár verði heimit að úthluta 500 lestum árlega samkvæmt ákvörðun Byggðastofnunar í þeim tilgangi að hægt sé að rétta hlut þeirra byggðarlaga sem byggja nær eingöngu á útgerð krókabáta. Þessar 500 lestir yrðu teknar óskipt af 21.500 lesta þorskaflahámarkinu og yrði ráðstafað til hækkunar á einstaklingsbundnu þaki þeirra báta sem uppfylltu skilyrði úthlutunar samkvæmt mati Byggðastofnunar. Vísast að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar varðandi ítarlegri umfjöllun um þessi atriði og tæknilega útfærslu þeirra meginatriða sem hér hafa verið rædd.
    Þá vil ég geta þess að samhliða þessu frv. er flutt og mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það frv. miðar að því að ná því markmiði að skip, sem úrelt hafa verið eftir reglum Þróunarsjóðsins, megi nýta til annarrar starfsemi en fiskveiða. Þar er einnig lagt til að úrelding krókabáta verði sambærileg og annarra báta enda greiði þeir þróunarsjóðsgjald. Með þessu er stefnt að því að krókabátunum geti fækkað þannig að þeir sem eftir eru hafi meira svigrúm til veiða. Er lagt til varðandi þróunarsjóðsgjald að krókabátar greiði 750 kr. á hvert brúttótonn í fast gjald og síðan 1.000 kr. vegna hverrar þorskígildislestar af afla en hér þarf að miða við raunverulegan afla en ekki aflahámark eins og hjá öðrum bátum og skipum af skiljanlegum ástæðum. Hér er um að ræða sambærileg gjöld og önnur skip greiða í þróunarsjóðsgjald.
    Þess má geta varðandi frv. að í ákvæði frv. til bráðabirgða I er lögð til 500 millj. kr. lántökuheimild til að gera Þróunarsjóði kleift að veita útgerðum krókabáta styrki vegna úreldingar. Enn fremur er í bráðabirgðaákvæði II lagt til varðandi krókabáta sem voru á skipaskrá 1. jan. 1995 að undantekning verði gerð frá almennu ákvæði um þriggja ára greiðsluskyldu til Þróunarsjóðs til að geta hlotið úreldingarstyrk frá sjóðnum. Að öðru leyti má vísa til athugasemda með þeim frv. sem hér eru til umfjöllunar.
    Ég legg svo til, herra forseti, að báðum frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. sjútvn.