Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 11:32:41 (385)


[11:32]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Tæplega verður sagt að starf hæstv. nýrrar ríkisstjórnar að sjávarútvegsmálum fari mjög glæsilega af stað. Ég held að þar nægi að vitna til þeirra harmkvæla sem fæðingu þessa máls hefur fylgt og þjóðin hefur fylgst með að nokkru leyti. Það kastaðist í kekki með hinum nýju samstarfsaðilum nánast þegar í upphafi þegar að því kom að útfæra og byrja að efna þau fyrirheit sem gefin höfðu verið, annars vegar af frambjóðendum núv. stjórnarflokka í kosningabaráttunni og svo ekki sé nú minnst á þegar farið var að skoða hvað lægi á bak við orðalag í stjórnarsáttmála og verkefnaáætlun. Satt best að segja er það svo þegar það er skoðað og orðalag borið saman í þeim efnum að þá koma upp næsta kostulegir hlutir.
    Það fór svo sem stundum áður að sjávarútvegsmál urðu talsvert til umræðu í kosningabaráttunni á sl. vetri og ákveðnir aðilar og ákveðnir frambjóðendur gerðu sérstaklega út á það að þeir hygðust standa fyrir róttækum breytingum í sjávarútvegsmálum og gerðu sig þar að málsvörum sérstakra hópa á því sviði. Einna frægust held ég að framganga frambjóðenda Sjálfstfl. á Vestfjörðum hafi orðið sem gengu svo langt að móta sérstaka sjávarútvegsstefnu og kynna hana með pompi og prakt og boða að nú skyldi aldeilis brotið í blað og látið hrikta í og þeir mundu selja sig dýrt og mundu standa og falla með sjávarútvegsstefnu sinni.
    Sömuleiðis bar það til tíðinda í Framsfl., sem hefur lengi verið hið óvíga musteri kvótakerfisins og staðið saman um það mál, að nýir frambjóðendur í Reykjaneskjördæmi gengu fram á sviðið og boðuðu nýja sjávarútvegsstefnu. Þar skyldi sérstaklega tekið á málefnum báta og smábátaútgerðar og stutt við bakið á henni.
    Þess vegna var að vonum að menn biðu nokkuð spenntir eftir því að hin nýja ríkisstjórn setti saman texta dagsins eða kjörtímabilsins og útfærði hann. Það stendur hér, með leyfi forseta, í því sem mun eiga að heita stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. undir kafla um atvinnumál eða málefni útflutningsgreina að markmiðið sé: ,,Að tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu.`` --- Svo kemur gullvæg setning: ,,Að mestu er byggt á aflahlutdeildarkerfi í sjávarútvegi, en banndagakerfi svonefndra krókabáta verður tekið til endurskoðunar. Skapað verður svigrúm til að rétta hlut þeirra aflamarksbáta sem harðast hafa orðið úti vegna minnkandi þorskafla.`` --- Síðan er talað um öflugar rannsóknir og fleira gott í þeim dúr.
    Þetta mun vera þannig hugsað hjá hæstv. ríkisstjórn að á grundvelli þessarar tiltölulega efnisrýru stefnuyfirlýsingar vinni ráðuneytin einhvers konar verkefnaáætlun. Ég óskaði eftir því að fá það plagg hjá skrifstofu þingsins en það liggur þar ekki fyrir og var verið að athuga hvort það mætti berast stofnuninni frá sjútvrn. Hins vegar hefur fréttabréf Landssambands ísl. útvegsmanna, Útvegurinn, gert mönnum þann greiða að birta glefsur úr þessari verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum og þar er væntanlega á ferðinni frekari útfærsla á þessu knappa orðalagi um sjávarútvegsmál í stefnuyfirlýsingunni. Þar er m.a. byrjað á því að segja, með leyfi forseta, að lög um stjórn fiskveiða verði þegar endurskoðuð.
    Ég verð að játa að ég hafði ekki hugarflug til þess að láta mér detta í hug að þessi litlu frv., sem hér eru til meðferðar, væru sú endurskoðun. Fróðlegt væri að vita hvort er í bígerð að halda þessu starfi áfram og væntanlega kemur t.d. á næsta þingi einhver heildstæð endurskoðun á löggjöf um sjávarútvegsmál.
    Þegar kemur svo að því sem hér er sérstaklega til umfjöllunar, þ.e. málefni smábáta og bátaútgerðarinnar, sem hefur verið mikið til umræðu, þá staldrar maður við orðalag í þessari verkefnalýsingu sem lýtur að málefnum krókabáta. Hvað segir þar? Samkvæmt heimildinni Útvegurinn stendur í þessari verkefnaáætlun, með leyfi forseta:
    ,,Til að tryggja stöðu þeirra, sem haft hafa lífsviðurværi af krókaveiðum, verður banndagakerfið tekið til endurskoðunar og leitað annarra leiða við stjórnun en að fjölga banndögum.``

    Ég staldra dálítið við þetta orðalag þegar ég fer svo að lesa frv. til laga um breytingu á lögum, nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. Því hér er í geysilöngu máli í 2. gr. frv. fjallað um hvernig viðbótarbanndögum verði komið inn í kerfið með því að bæta vikum framan við og aftan við þau tímabil sem fyrir eru og viðbótarhelgum þar á ofan. Það er því ekki mikið samræmi í því að verkefnaáætlun sjútvrn. kveður sérstaklega á um að leita skuli annarra leiða en þeirra við stjórn þessara mála að fjölga banndögum. Og ekki mun það hafa verið það sem frambjóðendur stjórnarflokkanna boðuðu til að mynda á Vestfjörðum og Reykjanesi að lagt yrði fram frv. nánast á fyrstu dögum þings sem fæli fyrst og fremst í sér þá aðgerð annars vegar að setja kvóta eða þak á aflaheimildir krókabáta eða hins vegar gífurlega fjölgun banndaga.
    Það er óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, en með því er ekki verið að gera lítið úr því viðfangsefni sem er fram undan og menn eru að fást við því þar þarf sannarlega að taka á ýmsum málum. Það er alveg ljóst.
    Það er athyglisvert að ýmsu leyti að með þessu frv. ríkisstjórnarinnar er auðvitað viðurkennt að sú gagnrýni og sú umræða sem var reynt að halda uppi á síðasta kjörtímabili, einkum síðari hluta þess, ekki síst af hálfu Alþb., er að fá mikla viðurkenningu. Það er í reynd verið að segja að staðan í bátaútgerðinni sé óviðunandi þó að í litlu séu efndirnar að koma til móts við þann útgerðarflokk.
    Við þingmenn Alþb. reyndum ítrekað á síðasta kjörtímabili að vekja athygli á þeirri þróun sem þarna væri að verða, þeim algjöra afkomubresti sem væri að verða hjá báta- og smábátaútgerðinni vegna þess að sú útgerð er miklu viðkvæmari fyrir og verður fyrir miklu meiri áhrifum af þorskaflasamdrættinum en nokkur önnur eðli málsins samkvæmt þar sem hún hefur ekki möguleika á að nýta sér veiðimöguleika í öðrum tegundum eða á fjarlægum miðum.
    Lítið var gert með málflutning okkar á síðasta kjörtímabili og hér gerðu menn eins og hæstv. sjútvrh. nánast grín að því að við vorum að flytja tillögur og frv. og reyna að halda hér uppi umræðum um stöðu mála á síðari hluta síðasta kjörtímabils. Það var gert lítið úr því þangað til að þau tíðindi verða í kosningabaráttunni að frambjóðendur núverandi stjórnarflokkanna lenda út í kjördæmi sín og átta sig á því að það er mikil óánægja með ástandið. Það er bullandi óánægja með ástandið í sjávarútvegsmálum á Vestfjörðum og á Reykjanesi, á Suðurnesjum. Þetta ágæta fólk sér að það er ekki vel til vinsælda fallið að stanga vegginn og bjóða fram óbreytta sjávarútvegsstefnu, óbreytta kvótastefnu þeirra Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. núv. utanrrh., og hæstv. sjútvrh. Þá vendir þetta ágæta fólk kvæði sínu í kross og býr sér til nýja stefnu til heimabrúks í kosningabaráttunni. En hvað er orðið um hana nú? Jú, í stjórnarsáttmálanum segir að að mestu verði byggt á aflamarkskerfi. Verkefnaáætlun sjávarútvegsins segir að vísu að það eigi að leita annarra leiða en að fjölga banndögum við stjórn krókaveiða en svo er lagt fram frv. sem fjölgar banndögum um líklega eitthvað á annað hundrað. Svona er samhengi þessara hluta svo það sé nú aðeins tekið upp í aðdraganda umræðunnar til að menn átti sig á þessum hlutum. Ætli það sé ekki þannig að ýmsum þyki gylliboðin fara fyrir lítið sem höfð voru í frammi af frambjóðendum stjórnarflokkanna fyrir kosningarnar í þessum efnum. Ég verð að segja alveg eins og er að það er langt síðan ég hef heyrt, séð eða lesið um öllu ömurlegri útreið en þessir fulltrúar stjórnarflokkanna sem eiga sérstaklega hlut að máli og standa nú frammi fyrir. Þvílík ósköp.
    Hitt er jákvætt svo langt sem það nær að með þessu frv., sérstaklega með ákvæði til bráðabirgða þar sem fjallað er um úthlutun til jöfnunar, er verið að viðurkenna að staðan í bátaútgerðinni sé óviðunandi. Það verði að koma á einhvern hátt til móts við þann útgerðarflokk.
    Ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson fluttum á síðasta þingi frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Meginefni þess frv. var í 1. gr. að bæta við 10.000 tonnum til jöfnunar sem sérstaklega yrði úthlutað til handa þeim bátum og smábátum á aflamarki sem mestan samdrátt hefðu tekið á sig í þorskveiðum. Við gerðum ráð fyrir því að sú jöfnun skyldi verða hlutfallsleg í samræmi við aflahlutdeild bátanna í viðkomandi tegundum þannig að menn fengju úthlutað þorski ef þeir hefðu aflareynslu í þorski o.s.frv. en væru ekki að fá grálúðu eða karfa eða hvað það nú er eins og áður hafði tíðkast. Að sjálfsögðu var ekkert hlustað á þennan málflutning. Það var gert lítið úr honum, ekki talin nokkur ástæða til að málið fengi afgreiðslu af hæstv. sjútvrh. sem fór auðvitað fremstur í flokki að varna því að mál af því tagi yrðu yfir höfuð tekin fyrir eða rædd. En hvað er hæstv. sjútvrh. nú að gera? Hann leggur til 5.000 tonna úthlutun í nákvæmlega sama skyni. Að vísu með örlítið annarri útfærslu en þó munar þar ekki miklu. Með því er auðvitað verið að viðurkenna, bara því miður allt of seint, að ástandið er óviðunandi.
    Ég tel að vísu að það hefði síðan þurft að taka ýmis fleiri atriði upp sem við lögðum þarna til. Við lögðum til í öðru lagi að smábátum, sem völdu aflamark á sínum tíma, gæfist kostur á að endurskoða það val og færa sig yfir í krókaleyfið með aflareynslu sína ef þeir teldu sinni stöðu betur borgið þannig. Auðvitað verður ekki horft fram hjá því að í ljósi þróunarinnar telja margir sig grátt leikna hafandi tekið aflamarkið á sínum tíma en ekki krókaleyfin og sitja svo eftir með gjörsamlega ólíðanlega stöðu, þ.e. þeir sem eftir eru. En eins og kunnugt er hefur smábátum á aflamarki fækkað um u.þ.b. 1.000 niður fyrir 300 á örskömmum tíma.
    Í þriðja lagi lögðum við til að tekið yrði á hömlulausri aukningu á flutningi veiðiheimildanna eða vinnslunnar út á sjó, þ.e. fjölgunar frysti- og fullvinnsluskipa. Við lögðum til í fjórða lagi að heimiluð yrði löndun á meðafla utan kvóta með tilteknum hætti til að koma í veg fyrir að fiski yrði hent í sjóinn

í stórum stíl. Hver voru viðbrögðin við þessari tillögu? Það var fullyrt að engum fiski væri hent. Við vorum a.m.k. beðnir að sanna að það ætti sér stað í einhverjum þeim mæli sem orð væri á gerandi. Það voru hefðbundin viðbrögð og hafa lengi verið hefðbundin viðbrögð sérstakra vörslumanna óbreytts ástands í þessum efnum.
    Nú hafa að vísu þau stórtíðindi gerst að Fiskistofa leigði sér skektu og komst út á miðjan Faxaflóa og stóð menn þar að því að henda fiski. Þetta þóttu miklar fréttir sem allir sem eitthvað hafa fylgst með sjávarútvegsmálum hafa vitað um árabil. Þetta voru gífurlegar fréttir af því að það tókst að festa það á mynd. Þá var hægt að trúa því af því að hægt var að mynda það og Fiskistofa sjálf stóð menn að þessu. Það byrjar þá kannski betur fyrir því núna að ræða einhverjar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að fiski sé hent sem hefur alltaf gerst í einhverjum mæli en er óumdeilt að stóraukinnar tilhneigingar gætir til við núverandi ástand.
    Ég minni á þennan frumvarpsflutning í samhengi við þetta mál vegna þess að þar var að hluta til hreyft sömu atriðum og hæstv. ríkisstjórn er nú að leggja til, bara allt of seint. Þetta eru aðgerðir sem hefði þurft að grípa til fyrir 2--3 árum hið minnsta og í öðrum tilvikum er um að ræða hluti sem brýn þörf er á að gera eftir sem áður og ekki er hreyft við í frv. ríkisstjórnarinnar.
    Þá nánar að efni frv., hæstv. forseti, og að þeim greinum þess sem lúta að takmörkun á veiðum smábáta og breyttum úreldingarreglum fyrir smábáta. Í 1. gr. er verið að fjalla um skilyrði þess að endurnýja krókabáta og þar er innleidd mjög ströng krafa um það að afköst séu minnkuð um helming í hvert skipti sem bátur af því tagi er endurnýjaður. Það eru helmingi strangari kröfur, ef svo má að orði komast, en eiga við um önnur fiskiskip í landinu. Það á að gera einfaldlega þannig að afkastageta hins nýja eða nýkeypta báts skal vera a.m.k. 50% minni en þess báts spár er veiðileyfi lætur. Og ég vek athygli á þessu orðalagi, a.m.k. 50% minni. Ber að skilja það jafnvel svo að opin heimild sé í lögunum til að hafa þá kröfu enn þá strangari? Og þetta er ekki nóg vegna þess að til viðbótar á að taka krókaleyfabáta inn í samdráttarsjóðinn, Þróunarsjóðinn svokallaða, sem er öfugmæli, og þannig kemur hann til sögunnar til viðbótar og keppir við aðra um uppkaup á bátum og að taka þá út úr útgerð. Það er alveg ljóst að ef hvort tveggja gerist í nokkrum mæli á næstu árum að það verður endurnýjun í þessum útgerðarflokki og Þróunarsjóðurinn er á sama tíma til viðbótar að kaupa út úr útgerð báta, þá geta þarna gerst mjög stórir hlutir og afkastageta minnkað mjög hratt og skipunum fækkað.
    Nú geta menn haft það sjónarmið að það sé sérstök ástæða til að draga úr afkastagetu í þessum útgerðarflokki, en það er athyglisvert að menn skuli telja að það þurfi að vera miklu strangara en þegar önnur skip eiga í hlut.
    Einnig er sett hér inn ákvæði um að óheimilt sé að gera breytingar á skipum sem leyfi hafi til veiða í atvinnuskyni þannig að afkastageta þeirra aukist nema annað skip eða önnur skip láti veiðileyfi á móti. Það á reyndar við um öll skip og þýðir á mæltu máli að sú regla er afnumin sem í gildi hefur verið að skipum eldri en frá 1986 hefur verið heimilt að breyta, lengja þau eða endurbyggja og lagfæra eins og gjarnan er gert með skip án þess að menn þyrftu að kaupa sér úreldingartonn á móti því. Þessi regla er sem sagt afnumin og þar með verður sá kostur ekki fyrir hendi til handa eigendum eldri skipa að gera á þeim breytingar sem koma þeim í nútímalegt horf, í sambærilegt horf kannski og sambærileg skip eru úr garði gerð í dag.
    Það eina sem má segja að mínu mati að sé sérstaklega jákvætt við þessar breytingar er það að ráðuneytið snýr nú allt í einu við blaðinu og leggur til í fylgifrv. um Þróunarsjóð að heimilt verði að skrá á Íslandi fiskiskip eða báta sem úreltir hafa verið út úr fiskiskipaflotanum til annarra nota en veiða í atvinnuskyni. Þetta er nokkuð athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að á síðasta þingi var það alveg sérstakt forgangsmál hjá sjútvrh. að loka öllum smugum sem hugsanlegar væru í þessu sambandi og það skyldi ekki mega gerast undir nokkrum kringumstæðum að við Ísland væru á floti skip sem yfir höfuð hefðu fengið styrki úr úreldingarsjóði. Og það svo hlálegt að fyrsta og, mér liggur við að segja, eina frv. næstum að segja sem sjútvrh. sá ástæðu til að flytja á síðasta þingi var frv. til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og það frv. var ein grein, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hafi Þróunarsjóður greitt styrk vegna úreldingar skips er óheimilt að flytja það inn að nýju og skrá það hér á landi sem og að veita því leyfi til veiða í atvinnuskyni.``
    Þetta frv. var flutt til að koma í veg fyrir það að sú óhæfa gerðist t.d. að smábátur sem hefði verið úreltur og hugsanlega væri seldur úr landi, segjum til Færeyja, gæti komið aftur að Íslandi. Það skyldi sko ekki gerast. Og þeir höfðu frétt af þeirri svívirðu í ráðuneytinu að það gæti hugsast að einum og einum manni dytti í hug að fara þá leið að selja slíka báta úr landi og hugsaði sér svo að kaupa þá inn í landið aftur. Það skyldi vesgú ekki gerast. Nei, þeir eins og allir aðrir slíkir bátar skyldu bornir á bál eða brotnir í spað. Og hvað gerist svo núna? Nú snýr ráðuneytið algerlega við blaðinu, 100%, og hæstv. sjútvrh. flytur hér frv. um það að heimilt skuli að skrá skip sem úrelt hafa verið til annarrar starfsemi en þeirrar að veiða fisk í atvinnuskyni. Það er auðvitað gott að vitið er loksins komið á réttan stað í þessu máli. En það er sorglegt að á undanförnum árum skuli í hreinu tilgangsleysi vera búið að brjóta og brenna niður verðmæti og jafnvel þjóðminjar, í hreinu tilgangsleysi. Auðvitað staldrar maður við þegar maður stendur frammi fyrir svona vendingum í málum af þessu tagi. Hvaða tilgangi hefur það þá þjónað undanfarin ár að ágæt skip, í sumum tilvikum skip frá þeim tíma í útgerðarsögunni sem nú eru ekki að verða til lengur, hafa verið borin á bál eða söguð í sundur? Í öðrum tilvikum hafa nýleg eða jafnvel ný skip orðið úreldingardellunni að bráð.
    Ég leyfi mér aðeins að vekja athygli á þessu, forseti, til þess að hafa hlutina í pínulitlu, sögulegu samhengi og það er athyglisvert að þetta staðfestir þó að sjútvrn. og hæstv. sjútvrh. getur skipt um skoðun. Það er auðvitað stórkostlegt fagnaðarefni fyrir okkur ýmsa sem vorum farnir að óttast að þeir menn sem lentu í því hlutskipti að verða sjútvrh. á Íslandi misstu þann eiginleika ,,überhaupt`` að geta skipt um skoðun. Stundum var nú haft á orði að hæstv. fyrrv. sjútvrh. ætti ákaflega erfitt með það yfirleitt að breyta kúrsinum, sérstaklega ef það varðaði kvótamál. En þetta virðist sýna hið gagnstæða.
    Að öðru leyti verð ég að segja það, hæstv. forseti, áður en ég skil við þennan úreldingarþátt að ég tel að það verði að staldra hér við. Mér er fullljós þörfin á því að hamla gegn ótakmarkaðri afkastaaukningu í þessum hluta flotans eins og öðrum. Það eru engar forsendur fyrir því að láta slíkt gerast eða halda áfram, það er alveg ljóst. En ég leyfi mér að segja: fyrr má aldeilis fyrrvera, fyrr má nú rota en dauðrota. Að fara úr því að á þessu voru engin takmörk, menn gátu keypt upp litla báta og sameinað þá í stærri skip, og yfir í hitt að flytja hér frv. um að afkastagetan skuli minnka um helming við hverja endurnýjun, um 50%, og að Þróunarsjóðurinn komi til viðbótar til sögunnar og kaupi báta út úr hópnum. Þetta er engin smá kúvending í meðferð þessara mála. Eru rök fyrir þessu? Ég spyr t.d.: Er það gáfulegt, er það hyggilegt, er það sanngjarnt gagnvart manni sem á segjum þriggja tonna gamla trillu og hefur lengi átt og vill nú endurnýja hana í sambærilegu skipi, er ekki að dreyma neina drauma um að stækka við sig eða neitt, vill bara fá að eiga haffæra þriggja tonna trillu, að hann skuli þurfa annaðhvort að kaupa annað eins skip eða fara niður í eins og hálfs tonna skel? Er það réttlæti? Er það jafnræðisregla í reynd? Segjum nú að þetta sé bóndi á Skaga og hann hafi gert út á sínu horni í 25 ár með nákvæmlega sama hætti, dregið nokkur hundruð kg eða nokkur tonn í soðið fyrir sig og sína og til þess að mega þetta í dag þarf hann að hafa krókaleyfi og fékk því úthlutað. Og nú er þetta hrip hans orðið nokkuð lasið og hann vill ná sér í sambærilegan bát sem getur áfram þjónað sama tilgangi. Nei, takk. Hann verður annaðhvort að kaupa sér þrjú tonn í viðbót til þess að mega halda óbreyttri stærð á sínu horni eða fara niður í helmingi minna skip, gott ef ekki henda úr því vélinni, það verður kannski sett inn næsta ár. (Gripið fram í.) Og fara bara á árar aftur. (Gripið fram í.) Já.
    Í alvöru talað, herra forseti, þá held ég að hér sé komið að vissu takmarkamáli og ég leyfi mér að spyrja: Væri ekki hægt að skoða það að setja a.m.k. eitthvert gólf í þetta þannig að menn með báta undir þremur tonnum gætu endurnýjað í sama? Því að það er þannig, það vill svo til að ég þekki það, að nokkur hundruð af þessum krókabátum eru akkúrat svona bátar. Þetta eru lítil horn manna sem hafa lengi gert út með tilteknum hætti og margir hverjir eru ekki með neinar hugmyndir um að breyta sínum útgerðarháttum neitt eða gera neitt slíkt. En þessir menn yrðu augljóslega mjög fyrir barðinu á breytingum af þessu tagi. Þarna held ég að menn þurfi aðeins að staldra við þó að ég skilji vel viðleitni manna til þess að taka á þessu með einhverjum hætti.
    Síðan kemur að takmörkunum á sókn krókabátanna. Þar er lagt til í frv. að mönnum skuli nú enn gert að velja. Nú skuli menn velja á milli þess að taka á sig aflahámark, sem getur legið einhvers staðar á bilinu 55--60% af þeim afla sem þeir hafa haft bestu tvö af þremur sl. árum, og hins að taka á sig einhver hundruð banndaga í viðbót. Við þetta er auðvitað margt að athuga þegar maður hugsar málið betur.
    Í fyrsta lagi er reynslan af því að pína menn til að velja með þessum hætti ekki góð eða er það? Hefur enginn hér inni samviskubit út af því hvernig útgerðarmenn smábáta undir 6 tonnum voru píndir til að velja annaðhvort aflamark eða krókaleyfi á sínum tíma í algerri óvissu um hvernig það kæmi svo út? Hefur engum liðið illa yfir þeirri stöðu sem aflamarkssmábátar með slaka reynslu hafa haft undanfarin ár og vegna þess að þeim hefur verið gert að sitja uppi með það val og ekki átt kost á því að taka það upp aftur þrátt fyrir breyttar aðstæður og kannski þróun sem enginn sá fyrir? Það hefur enginn neitt samviskubit út af því, er það? Nei. Heldur ætla menn að láta menn velja aftur og nú krókaleyfishópinn þannig að í kjölfarið verði þrjár tegundir smábáta undir 6 tonnum við veiðar á Íslandi, þrenns konar stjórnunarform á þessum flota. Það verða smábátar á aflamarki, það verða krókaleyfisbátar með aflahámarki og það verða krókaleyfisbátar með banndögum. Er þetta einföldun á stjórnkerfi fiskveiða?
    Eftir 2--3 ár kemur kannski í ljós að annar hópurinn, annað valið, reynist bersýnilega óhagstæðara. Hvað ætla menn að gera þá? Á þá að fara eins með þann hóp eins og aflamarkssmábátanna marga hverja undanfarin ár? Þeir verða bara að sitja uppi með það, því miður. Þú ert bara óheppinn, vinur, þú valdir vitlaust. Þetta óréttlæti verður þú bara að bera héðan í frá. Ég staldra við það hvort við séum að taka hér sanngjarnt á málum með því að þvinga menn til að taka ákvarðanir við kringumstæður sem þeir geta síðan ekki tekið til baka. Því þetta er þvinguð ákvaðanataka og það er meira að segja gert ráð fyrir því í frv. að menn verði píndir til að taka þessa ákvörðun á einum mánuði. Þeir hafa ekki forsendur til þess m.a. vegna þess að frv. útfærir ekki annan valkostinn, þ.e. hina svokölluðu eða áformuðu róðrardaga. Mönnum er ætlað að taka þessa ákvörðun í blindni, í óvissu um það hvernig annað stjórnunarformið verður. Þeir sem velja aflahámarkið vita að vísu, a.m.k. fyrst um sinn þangað til því verður þá breytt, að banndagar verða óbreyttir plús aflahámarkið sem fundið er út samkvæmt aflareynslu viðkomandi báts með tilteknum hætti. Hinir sem vildu frekar velja sér sóknartakmarkanir eru í fullkominni óvissu um hvernig það kerfi verður útfært vegna þess að það er skrifað í skýin með ákvæði til bráðabirgða um að einhvern tímann í

framtíðinni þegar gervitunglatækninni hafi fleygt svo fram að hægt sé að fylgjast með mönnum dag og nótt með sérstökum nemum þá yrði tekið upp róðrardagkerfi.
    Ég held að það sé mjög mikið umhugsunarefni hvort hægt sé að stilla mönnum upp með þessum hætti og þvinga þá til að taka ákvörðun um afdrifaríkt hagsmunamál sitt á einum mánuði án þess að stjórnvöld leggi þá forsendu málsins fyrir. Ég mundi gera mjög mikinn greinarmun á því ef menn stæðu frammi fyrir svona vali ef fyrir lægi lögfest og útfært róðrardagakerfi þannig að menn sæju og vissu alveg upp á hár hvernig það mundi koma út. Það væri allt annar hlutur og er ég þó ekki að segja að það sé skemmtilegt að pína menn til þess að taka ákvörðun um lífshagsmuni sína með þessum hætti.
    Ég held að það sé satt best að segja þannig að það sé stórkostlegur ábyrgðarhlutur ef Alþingi samþykkir að pína hluta krókaleyfisflotans til þess að fara á það banndagakerfi sem hér er verið að leggja til þannig að menn megi kannski róa hundrað daga eða eitthvað liðlega það á hverju ári. Menn hafa haft miklar áhyggjur af því hvernig banndagakerfi kæmi út af öryggisástæðum ekki síst, þ.e. þegar menn eru látnir vera í landi svo og svo langan tíma og eiga síðan ákveðinn tíma til að sækja sjó þá hneigist menn til þess að róa í verri veðrum en ella og taka jafnvel allt of mikla áhættu. Hvernig halda menn að ástandið verði ef fjölgun banndaganna verður sem hér stefnir í og menn eiga að reyna að bjarga sér og hafa afkomu af því að róa þá örfáu daga á ári sem eftir verða ef það verður áfram banndagakerfi? Ég hef miklar áhyggjur af því. Ég held að það væri allt annar hlutur að setja þessa takmörkun á og svo geta menn rætt um það sem sjálfstætt atriði hvort það þarf að minnka þetta svona. Er það óumflýjanlegt? Það er annað mál og ég kem kannski að því seinna ef ég hef tíma til.
    Þetta vil ég ræða fyrst og það er: Getum við gert þetta svona? Ef við værum að breyta yfir í annars vegar róðrardagakerfi, tiltekinn fjölda róðrardaga sem menn mættu velja sjálfir og róa þá að sjálfsögðu þegar almennilegt veður væri, og hins vegar aflahámarkskerfið þá væri það talsvert annar hlutur. Ég hef heyrt það frá mönnum að þeir telji að róðrardagakerfið sem slíkt hefði ýmsa kosti umfram það sem nú er. Þá mun sjálfræði manna til að standa að útgerðinni eins og þeir vilja stóraukast ef þeir velja dagana sjálfir. Menn geta jafnvel gert sér meira verðmæti úr aflanum, menn geta gert út með minni tilkostnaði og svo framvegis. Ýmsir slíkir möguleikar mundu opnast í því kerfi sem ekki eru fyrir hendi í banndagakerfinu. Fyrir utan það sem mér finnst skipta langmestu máli að það er á allan hátt miklu geðfelldari aðgerð og framkvæmd. Það er það frá öryggissjónarmiðum og frá mannlegum sjónarmiðum. Menn geta þá ráðið sínum tíma sjálfir. Það er miklu meira í samræmi við eðli þessara ágætu manna sem við þekkjum, trillukarlana, að vera sjálfs sín herrar í þessum efnum eins og öðrum.
    Og ég segi: Ég gef ekkert fyrir þetta gervihnattakjaftæði, bara ekkert fyrir það. Það þýðir ekkert að segja það við mig að með einum tilteknum þætti af þessu tagi í löggjöf landsins sé ekki hægt að hafa eftirlit nema með gervihnöttum. Af hverju þarf þá ekki eins að hafa gervihnattaeftirlit með öllu öðru? Af hverju þarf ekki að hafa túðu framan við munninn á hverjum einasta bílstjóra í landinu sem sendir merki upp í gervihnött um það hvort hann keyri fullur eða ekki? Hvernig ætla menn að reyna að segja það við okkur að ekki sé hægt að hafa eftirlit með þessum eina þætti með einhverjum öðrum aðferðum?
    Þetta er bara rugl. Það er verið að blekkja menn. Staðreyndin er sú að menn eru á móti því að útfæra þennan valkost. Menn þvælast fyrir, menn draga lappirnar. Menn finna þessu allt til foráttu á sama tíma og það úir og grúir af reglum í þjóðfélaginu og líka í fiskveiðistjórnuninni sem er miklu flóknara að hafa eftirlit með en þessu. Hvernig fylgist Fiskistofa eða ráðuneytið með því hvað margir krókar eru á línu í hverjum bát eða að réttur netafjöldi sé í trossu? Þetta er auðvitað bara rugl. Það er miklu einfaldara að fylgjast með því hvar heill bátur er heldur en hvernig einstök veiðarfæri liggi í sjó, hvað þau eru mörg hnýtt saman, hver möskvastærðin er og allt þetta. Fyrir utan allt annað sem við setjum boð og bönn um í þjóðfélaginu og höfum enga gervihnetti til að vakta fyrir okkur. Ætlum við að láta selja okkur þetta svona?
    Ég fullyrði að það eru margar aðferðir, handvirkar aðferðir til til þess að fylgjast með róðrardagakerfi sem eru alveg fullnægjandi borið saman við réttargæslu almennt í landinu. Ég hef t.d. bent á það, það er ekki mín hugmynd, að hægt væri að hugsa sér þetta þannig að það væru landlegudagarnir sem væru taldir og haft eftirlit með. Menn yrðu að skila inn kvittunum fyrir tilteknum fjölda landlegudaga, afgangurinn væri þá sóknardagar eða róðrardagar. Þetta gerðist einfaldlega þannig að það væri fylgst með því að bátarnir væru í höfn og hafnarverðir eða viktunarmenn eða einhverjir slíkir aðilar gæfu út um það kvittun eða seðil eða árituðu bók í viðkomandi skipi um að það hefði verið í höfn þennan og þennan sólarhringinn. Menn mundu væntanlega taka hafnardagana út í löngum stoppum þannig að auðvelt væri að fylgjast með því og menn yrðu að framvísa sönnun þess að þeir hefðu verið í höfn ella teldist það sóknardagur. Er þetta flóknara en margt annað? Var það ekki svona sem sóknarmarkinu var stjórnað á sínum tíma? Og er ekki tekin önnur eins áhætta í heiminum og það að prófa þetta t.d. á næsta ári? Ef það reyndist ófullnægjandi þá hefðu menn þó gert þessa tilraun og þá væri einu ári styttra þangað til að gervihnattatæknin mikla væri komin sem er svo reyndar fullyrt við okkur í sjónvarpinu að sé til. Ég veit ekki betur en búið sé að styrkja hér aðila í áratugi til að útbúa sjálfvirkt eftirlitskerfi fyrir tilkynningarskylduna sem byggir á landstöðvum og það kerfi er til og sumir segja að það væri bæði ódýrara og einfaldara en þetta gervihnattarugl. Ég gef ekki mikið fyrir þetta.
    Ég held að við ættum að skoða það mjög vandlega hvort við getum ekki sett vinnu í það að útfæra þetta róðrardagakerfi og láta menn ekki standa frammi fyrir þessu vali fyrr en það er tilbúið. Það er á allan hátt miklu geðþekkari nálgun á málinu. Ég hef dauðans áhyggjur af því að menn fari út í annan vetur með enn þá fleiri banndögum en voru á þessu ári. Menn hefðu átt að fara á smábátastaðina á sl. vetri eins og gæftirnar voru búnar að vera t.d. í mars þegar ég heimsótti Grímsey og heyra hljóðið í mönnum þar. Ekki bara í sjómönnunum heldur konunum þeirra. Ég held að það hefði verið lærdómsríkt fyrir einn og einn mann. Það er ekki gaman að vita af því sem er að gerast í þessum málum í dag. Ég legg því eindregið til að við tökum okkur tíma í að skoða þetta.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að tvöföldunarreglan svonefnda falli út. Á það hefur verið bent að henni fylgja ýmsir annmarkar. Ég ætla ekki að orðlengja um það. Ég skil það vel að hún rekst á við ýmislegt annað í þessu kerfi. Reyndar stendur það svo að sjómenn hafa því miður verið í verkfalli í annað sinn á einu og hálfu ári til að reyna að leysa vandamál þessu tengd, þ.e. verðlagningarvandamál á fiski. Finnist lausn í þeim efnum má segja að óþarfi sé að vera að halda til haga reglum af þessu tagi. Ef ekki þá kann það enn að vera svo að sjómenn sjái sér einhverja vörn í þessu sem hamlandi aðgerð gegn þeim leiguliðaviðskiptum sem þarna eiga í hlut.
    Þá kemur að ákvæði til bráðabirgða I þar sem fjallað er um úthlutun á 5.000 tonnum árlega til jöfnunar gagnvart þeim sem fyrir mestum búsifjum verða í samdrætti veiðiheimilda. Til að gera langt mál stutt þá tel ég einsýnt að styðja þetta ákvæði. Þetta er algerlega í samræmi við það sem við þingmenn Alþb. höfum áður lagt til. Þetta er viðurkenning á okkar málflutningi á síðasta kjörtímabili en við höfum að vísu lagt til að þetta magn yrði helmingi meira. Nú skal það upplýst, herra forseti, að hér kemur merkt skjal í ræðupúltið, það er verkefnaskrá sjútvrn. frá 20. apríl 1995. Er hún þá sem sagt komin í hús.
    Þá kemur að enn öðru ákvæði til bráðabirgða um 500 tonn til ráðstöfunar til þeirra byggðarlaga sérstaklega sem háðust eru smábátaveiðum eða krókaveiðum. Um það ákvæði vil ég segja að ég skil hugsunina og ég styð hana. En útfærslan á þessu er hins vegar nokkuð sérkennileg og ég óttast að þetta nái ekki tilgangi sínum eins og þetta er sett fram, þ.e. sú hugsun að einungis megi úr þessum potti úthluta til þess hluta krókaleyfisbáta sem velja aflahámark í því skyni að bæta ofan á aflahámark þeirra í þeim byggðarlögum sem í hlut eiga. Hvað erum við að tala um hér? Við erum væntanlega að tala um nokkra staði í landinu sem eru algerlega háðir smábátaútgerð, Grímsey, Borgarfjörður eystri, Bakkafjörður, o.s.frv. En nú háttar ekki endilega þannig til að vandamál þeirra staða sé sérstaklega það að krókabáta sem velja aflahámark, sem við vitum ekki hve margir verða eða hvort verða nokkrir, vanti viðbót. Vandinn er væntanlega sá að atvinnulíf þessara byggðarlaga er 100% háð smábátaútgerð. Hér er sú hugsun á ferðinni að við ætlum að taka tillit til þess, hlífa þessum byggðarlögum við þeim niðurskurði sem orðinn er í veiðiheimildum og þar með í atvinnulífi þessara staða. Því á sama tíma og sjávarútvegur vigtar 3% í Reykjavík þá vigtar hann 100% í Grímsey. Þar af leiðir að 20% skerðing í sjávarútvegi er 20% skerðing á atvinnulífinu í Grímsey, en ekki nema kannski 3% í Reykjavík. Það er þetta sem verið er að tala um.
    Ég legg þess vegna til að þessi pottur verði þannig úr garði gerður að ráðstöfun hans verði tiltölulega óbundin og menn verða að treysta sér til að fara með þetta. Ég hefði talið eðlilegt að hann kæmi kannski að hálfu úr óskiptum hlut aflamarksbáta og að hálfu úr krókaleyfispottinum og að honum væri síðan hægt að ráðstafa til viðkomandi byggðarlaga og þeirra útgerða eða fiskvinnsluaðila þar sem best gætu nýtt sér hann til að efla atvinnulíf og halda uppi tekjum í viðkomandi byggðarlögum.
    Þetta er hrein og klár byggðapólitísk aðgerð og ber að skoðast og meðhöndlast sem slík. En ég endurtek að hugsuninni er ég sammála og ég hef alllengi verið þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé af byggðapólitískum og sanngirnisástæðum að viðurkenna sérstöðu nokkurra byggðarlaga sem eru algerlega háð sjávarútvegi og bátaútgerð. Ég vil gjarnan stuðla að því að á þessu verði fundin sú útfærsla sem er ásættanleg.
    Herra forseti, tími minn er búinn og ég ætla að segja það að lokum að hér er ekki á ferðinni á nokkurn hátt endurskoðun löggjafar um sjávarútvegsmál eða heildstæða stefnumótun í sjávarútvegi og ýmsa grunar að slíkt standi yfir höfuð ekki til á kjörtímabilinu eða af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Hér er fyrst og fremst verið að plástra á þetta kerfi og sýna lit þó í litlu sé til að standa við loforð sem gefin voru fyrir kosningar.